16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3029 í B-deild Alþingistíðinda. (2758)

232. mál, Landkaupasjóður kaupstaða og kauptúna

Frsm. félmn. (Davíð Aðalsteinsson):

Hæstv. forseti. Félmn. hefur fjallað um þetta mál, sem er frv. til l. um niðurfellingu laga nr. 54 frá 29. maí 1981, um Landkaupasjóð vegna kaupstaða og kauptúna.

Þetta frv. um Landkaupasjóðinn gerir ráð fyrir því að lög nr. 54 21. maí 1981, um Landkaupasjóð vegna kaupstaða og kauptúna, verði felld úr gildi. Jafnframt er gert ráð fyrir því að Lánasjóður sveitarfélaga skv. lögum nr. 35 frá 29. maí 1966 yfirtaki eignir og skuldir Landkaupasjóðs og það hlutverk sem sá sjóður hafði skv. lögum nr. 54 frá 1981.

Í grg. með þessu frv. er nokkuð vikið að starfsemi Landkaupasjóðs og þar er m.a. greint frá því að samkvæmt samningi félmrn. við Lánasjóð sveitarfélaga hafi Lánasjóður sveitarfélaga allt frá árinu 1967 annast afgreiðslu lána úr Landkaupasjóði svo og annast innheimtur og bókhald fyrir sjóðinn en félmrh. hefur tekið ákvörðun um lánveitingar eins og mun vera mælt fyrir í lögunum.

Þess er jafnframt getið og það hefur verið sannreynt að stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga samþykkti á fundi sínum seint á fyrra ári að höfðu samráði við stjórn Lánasjóðs sveitarfélaga að beina þeim tilmælum til félmrh. að Landkaupasjóður skv. lögum nr. 54 frá 1981 yrði sameinaður Lánasjóði sveitarfélaga.

Að athuguðu máli og höfðu samráði við aðila sem þekkja vel til ekki síður en hv. félagsmálanefndarmenn í Ed. leggur nefndin eindregið til að þetta frv. verði samþykkt.