16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3030 í B-deild Alþingistíðinda. (2762)

297. mál, nauðungaruppboð

Frsm. allshn. (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti allshn. um frv. til l. um breytingu á lögum um nauðungaruppboð.

Nefndin hefur rætt frv. og kallaði m.a. til viðræðu fulltrúa dómsmrn. Eins og kom fram við 1. umr. málsins var kallað eftir upplýsingum um fjölda uppboðsbeiðna hjá einstökum fógetaembættum úti á landsbyggðinni og fjölda uppboða sem þar hafa farið fram. Nefndin kallaði inn þessar upplýsingar og þær sýna að þar er um svipaða þróun að ræða og mjög samstíga við þá þróun í Reykjavík sem kemur fram í athugasemdum við þetta lagafrv.

Nefndin varð sammála um að frv. mundi leiða til betri framkvæmdar varðandi nauðungaruppboð og sú löggjöf sem af því leiðir og henti betur við þær aðstæður sem nú eru í þjóðfélaginu. Nefndinni fannst því ekki ástæða til að tefja framgang þessa máls þannig að það geti fengið meðferð og orðið að lögum á þessu þingi og leggur til að frv. verði samþykkt óbreytt frá þessari deild.