28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (277)

44. mál, húsnæðismál

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Ég skal ekki hefja almenna umræðu um húsnæðismál, það gefst sjálfsagt tími til þess síðar á þinginu, en ég vil segja í sambandi við það sem hér hefur komið fram að það er alls ekki hægt að boða að ekki hafi verið staðið við það sem um var rætt í sambandi við afgreiðslu nýrra húsnæðislaga í vor. Vissum atriðum, sem þarf að gaumgæfa og skoða nánar, var vísað til milliþinganefndar. Það var hárrétt ákvörðun þar sem milliþinganefnd er samansett af fulltrúum allra stjórnmálaflokka á hv. Alþingi. Auðvitað getur menn greint á um það hvað störfum slíkrar nefndar á að hraða mikið, en það hefur komið fram að hún er að störfum og hefur verið að störfum í sumar og mun skila áliti mjög fljótlega. Út frá því verður tekin ákvörðun um frumvarpsflutning í samræmi við það sem þörf er á í sambandi við þessi mál.

Hv. 3. þm. Reykv. segir og raunar fyrirspyrjandi einnig að ekki hafi verið staðið við samkomulag um þessi mál. Ég skil ekki hvað hv. þm. eru að fara. Ég er búinn að tilkynna að það er beðið eftir niðurstöðum nefndarinnar og við skulum sjá hvað út úr því kemur í framhaldinu. En þegar menn eru að tala um fjármögnun húsnæðismálakerfisins held ég að það sé rétt að menn átti sig á vissum staðreyndum þar. Það er gert ráð fyrir að á næsta ári verði 4,7 milljarðar til útlána í húsnæðislánakerfinu. Menn skulu átta sig á því. Og sem betur fer er búið að taka upp nýtt kerfi þar sem búið er að ná samningum við lífeyrissjóði landsins um að fjármagna þetta á annan hátt en nokkurn tíma hefur verið áður og búið að ná við þá hagstæðum samningum um vaxtakjör og lánstíma sem ekki hefur þekkst áður þar sem lán eru allt að 30 árum í stað 8-9 ára eins og áður var. Hér er um gjörbyltingu að ræða. Við skulum bara bíða og sjá hvað kemur út úr úrvinnslu tölvunnar hjá Húsnæðisstofnun um þörfina á fjármagni næsta ár. Við skulum gera okkur grein fyrir því að við getum ekki verið að tala hér út í loftið um að svona og svona sé málum háttað þegar staðreyndirnar eru komnar á borðið.

Ég get alveg tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda að auðvitað hefði verið æskilegt að fjármagnið í fjárlögum hefði verið hærra, en það er að margra áliti talið fullnægjandi og við skulum sjá hvort það ekki verður þannig.

Í sambandi við fsp. sem kom fram í sambandi við húsnæðisafsláttinn, þá liggur fyrir að laganefndin sem samdi frv. er að fjalla um þetta atriði. Það lá fyrir í þinglok í vor og það vissu allir hv. þm. að laganefndin ætlaði að fjalla áfram um þetta atriði. Hún var undir forsæti Hallgríms Snorrasonar hagstofustjóra og í henni eru aðilar vinnumarkaðarins. Sú nefnd er að störfum. M.a. hefur hún fengið til umsagnar ýmsa þætti húsnæðislaganna sem þarf e.t.v. að gera breytingar á og mun skila áliti í næstu viku um það.

Það má vel vera að menn séu óþolinmóðir í sambandi við breytingar á þessum lögum, en ég held að við getum verið öll sammála um að hér er um mikla framför að ræða í húsnæðismálum og á eftir að skila sér enn betur en menn koma auga á í dag. Ég er viss um að menn verða sammála um það.