16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3049 í B-deild Alþingistíðinda. (2779)

340. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Hér eru á ferðinni þrjú frumvörp um skattamál og til einföldunar höfum við stjórnarandstæðingar fallist á að meginumræðan um þessi náskyldu mál fari fram eftir að mælt hefur verið fyrir tveimur helstu frumvörpunum, þ.e. tekjuskattsfrv. og staðgreiðslufrv. Raunar er fjórða frumvarpið þá ótalið, frv. um tekjustofna sveitarfélaga, sem tengist þessum þremur frumvörpum með augljósum hætti.

Hér er um stórmál að ræða, ekki er að efa það. Í raun og veru má segja að hér sé um tvíþætt mál að ræða. Annars vegar erum við að ræða það mikilvæga markmið að skattar séu innheimtir af tekjum jafnóðum og þær verða til, skattar verði staðgreiddir. Hins vegar erum við að ræða um verulega einföldun skattkerfisins, fækkun frádráttarliða, fækkun skatthlutfalla og þar með hækkun skattfrelsismarka. Hér er tvímælalaust um mjög jákvæð markmið að ræða. Ég hygg að flestir fagni því að þessi mál séu nú loksins komin á afgreiðslustig hér á hv. Alþingi.

Fyrir fjórum árum flutti ég hér á Alþingi sem fjmrh. frv. um staðgreiðslukerfi, reyndar oftar en einu sinni, en það frv. hlaut ekki náð fyrir augum Alþingis og var það mjög miður. En þó sagt sé að markmið þessara frumvarpa sé tvímælalaust mjög jákvætt, þá er ekki þar með sagt að frumvörpin séu að öllu leyti fullnægjandi. Á þeim eru tvímælalaust ýmsir ágallar og kannske er sá stærstur sem lýtur að því sem vantar í þau.

Ég tel að það sé mjög jákvætt markmið að fækka frádráttarliðum í tekjuskatti. Ég held að einföldun kerfisins sé brýn nauðsyn og ég fagna meginstefnu frv. að þessu leyti. Hins vegar má auðvitað velta fyrir sér hvort gengið sé óþarflega langt á leið í þessum efnum. Að sjálfsögðu gæti vel komið til álita að skatthlutföllin væru tvö þrátt fyrir allt en ekki eitt og ég hygg að ekki væri neinn umtalsverður munur á innheimtu skattsins þó að skatthlutföllin væru tvö.

Í nálægum löndum þar sem staðgreiðslukerfi er við lýði er allur gangur á þessu og víða eru skatthlutföll fleiri en eitt, en með því móti verður skatturinn löngum heldur réttlátari og auðveldara er að hlífa lægri tekjum og leggja skattbyrðina þá með eitthvað meiri þunga á þá sem hærri hafa tekjurnar. En þetta getur ekki talist meginágalli á frv. Það sem er meginágalli þessara tillagna, sem hér liggja fyrir, er tvímælalaust að ekki er látið eitt yfir alla ganga. Hér eru gerðar breytingar á sköttum launamanna, en fyrirtækjum og rekstraraðilum er algjörlega sleppt við þessa skattkerfisbreytingu.

Það er alkunna að fyrirtæki á Íslandi sleppa flest hver við það að greiða tekjuskatt eða þá að þau greiða svo lágan skatt að óviðunandi er. Ég hef gert úttekt á því með aðstoð ríkisskattstjóra oftar en einu sinni hversu mörg fyrirtæki, sem hafa umtalsverðan rekstur með höndum, greiða tekjuskatt. Og niðurstaðan hefur orðið oftar en einu sinni á undanförnum árum að það er minni hluti fyrirtækja sem greiðir tekjuskatt. Meiri hlutinn sleppur algjörlega, greiðir ekki eina einustu krónu. Það er auk þess ljóst að um fjórðungur fyrirtækja greiðir mjög lágan tekjuskatt. Það er því ekki nema lítill hluti fyrirtækja, kannske fjórðungur, sem greiðir tekjuskatt.

Hæstv. fjmrh. kann að spyrja hvers vegna ekki hafi verið séð fyrir þessu í tíð fyrri stjórnar. (Gripið fram í: Það er góð spurning.) Og það er að sjálfsögðu ágæt spurning. En hann hefur þá ekki fylgst ýkjavel með hvað hefur gerst meðan hann hefur setið hér á Alþingi áður en hann var fjmrh. því að staðreyndin er sú að hér á hv. Alþingi hafa verið samþykkt hver lögin af öðrum sem hafa gert fyrirtækjum kleift að sleppa við að borga skatta, einmitt í tíð núv. stjórnar. Reyndar voru þær breytingar flestar gerðar áður en hæstv. ráðh. kom í sinn stól, þ.e. í tíð fyrrverandi ráðherra. Ég get bara minnt á ákvæðin um frádrátt við álagningu tekjuskatts vegna fjárfestingar fyrirtækja, ég get minnt á breytingar sem gerðar voru á fyrningarhlutföllum, en þær breytingar gengu mjög ótvírætt í þá átt að hlífa fyrirtækjum við skattgreiðslum, og ég get minnt á breytingar sem gerðar voru á skatti af hlutafjáreign, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Staðreyndin er auðvitað sú, eins og hv. þm. Reykn. sem er gestur okkar hér í dag og hlýðir á þessar umræður getur vottað, að tekjuskatturinn er fyrst og fremst launamannaskattur. Hann leggst með miklum þunga á launafólk, en rekstraraðilar sleppa við að borga þennan skatt. Hv. þm. hefur beitt sér fyrir því aftur og aftur að gefin væru loforð um það að almennum launatekjum væri hlíft við greiðslu tekjuskatts. Þetta loforð hefur verið gefið hér á hv. Alþingi hvað eftir annað. En eins og allir hv. þm. þekkja þá hefur ekki verið staðið við þetta loforð. Þetta loforð hefur verið svikið og skattfrelsismörk eru enn mjög lág og þau verða áfram mjög lág þrátt fyrir samþykkt þessa frv.

Ég get nefnt það hér að skattfrelsismörk í tekjuskatti að óbreyttum lögum eru um 26-27 þús. kr. á mánaðartekjur. Þau hækka sem sagt um liðlega 6 þús. kr. , úr 26-27 þús. kr. upp í 33 þús. kr. Það er talið að skattfrelsismörk í útsvari séu í kringum 22 þús. kr. og hækkunin er vissulega nokkur, þ.e. úr 22 þús. í 33 þús., en eftir sem áður erum við hér að tala um mjög lágar mánaðartekjur. Samkvæmt nýlegum upplýsingum Þjóðhagsstofnunar er talið að meðallaun í þjóðfélaginu séu 63 þús. kr. Það eru nýjustu tölur um meðallaun, 63 þús. kr. Það er alveg ljóst að þrátt fyrir samþykkt þessara laga, þá eru það aðeins allra lægstu laun sem sleppa við greiðslu tekjuskatta.

Ég tel að það hefði átt að láta eitt yfir alla ganga. Það hefði líka átt að grisja frádráttafrumskóginn hjá rekstraraðilunum, hjá fyrirtækjunum. Vissulega hefði þá mátt lækka skatthlutfallið hjá þeim nokkuð á móti, rétt eins og verið er að gera hjá launafólki, en með því að fækka frádráttarliðum hefði um leið opnast möguleiki til að ná inn miklu meiri tekjum en nú nást inn, auk þess sem að sjálfsögðu er fráleitt annað en skattleggja vaxtatekjur sem eru umfram verðtryggingu. Ég tel ekki fjarstæðu að með breytingum af þessu tagi væri hægt að auka tekjur skattkerfisins um 1200 millj. kr.

Ég vil nefna það hér að við Alþýðubandalagsmenn höfum látið reikna það fyrir okkur hvaða breytingar mætti gera á sköttum launafólks ef gert væri ráð fyrr því að fyrirtæki væru skattlögð með eðlilegum hætti og frádráttarheimildum hjá fyrirtækjum væri fækkað jafnhliða því sem eignatekjur væru skattlagðar með sanngjörnum hætti þannig að af þessu tvennu fengjust 1200 millj. kr. Okkur telst til að með því að hafa skatthlutföllin tvö, þ.e. annars vegar 33% skatthlutfall á tekjur að 50 þús. kr. og síðan 38% skatt á tekjur þar fyrir ofan, nú er ég að tala um mánaðartekjur, og afslátturinn væri hækkaður um 1000 kr., þ.e. úr 11 500 kr. í 12 500 kr. á mánuði, þá væri með þessum hætti verið að færa skattleysismörkin upp í 38 þús. kr. og síðan hlífa tekjum allt upp í 50 þús. kr. sem næmi núverandi tekjuskatti þannig að á því bili, frá 38 þús. og upp í 50 þús. kr. mánaðartekjur, væri enginn tekjuskattur greiddur, einungis samsvarandi skattur og nú nefnist útsvar. Sem sagt: Með því að færa skattbyrðina sem næmi 1200 millj. kr. frá launafólki og yfir á fyrirtækin, sem nú borga mjög lítinn skatt, þá værum við að færa skattleysismörkin upp um 5 þús. kr. , úr 33 þús. í 38 þús., og skattleysismörk í tekjuskattinum væru þá færð alveg upp í 50 þús. kr. Þetta væri að gera virkilega tilraun til þess að hlífa almennum launatekjum við skattgreiðslum. En það verður að segjast alveg eins og er að breytingin sem nú er gerð tillaga um í frv. ráðherrans felur ekki í sér neina verulega breytingu fyrir fólk með meðaltekjur, en er vissulega mikilvæg fyrir fólk með allra lægstu tekjur.

Við höfum einnig látið reikna út hvaða breyting verður á skattbyrði við þessa tillögugerð og það er ljóst að skattbyrði mundi fyrst og fremst lækka á tekjubilinu frá 40 þús. kr., eða reyndar frá 33 þús. kr., þar sem skattleysismörk hæstv. ráðh. eru skv. frv., og upp í 80 þús. kr. Á því bili væri um að ræða breytingu á skattbyrði sem næmi frá 1-3%, fer vissulega lækkandi, er mest í kringum 40 þús. kr. mánaðartekjurnar, þá væri breytingin 3,2%, en færi síðan lækkandi niður í rúmlega 1 % þegar kemur upp í 80 þús. kr. mánaðartekjur og dæi síðan út þar fyrir ofan, en síðan færi þá skattbyrðin heldur vaxandi þegar ofar drægi í launastigann og það væri orðin 2% aukning í skattbyrði þegar komið væri upp í 200 þús. kr. mánaðartekjur.

Að öðru leyti vil ég segja um skattbreytingarnar sem hér er gerð tillaga um að ég held að það þurfi að athuga nánar um húsnæðisafsláttinn sem mér sýnist að sé of lágur. Og ég sakna þess vissulega að leigjendur missa nú allan frádrátt, en þeir nutu samkvæmt núgildandi kerfi sérstaks afsláttar eins og menn þekkja og sá afsláttur var settur inn til mótvægis við vaxtafrádrátt húsbyggjenda og húseigenda. Mönnum fannst ekki nein sanngirni í því að í raun og veru væri verið að greiða styrk úr ríkissjóði með sérstökum vaxtafrádrætti til þeirra sem voru að eignast húsnæði en þeir sem ekki hefðu efni á því og væru bara leigjendur fengju engan frádrátt af neinu tagi. Ég verð að segja alveg eins og er að mér sýnist ekki mikil sanngirni í því að breyta nú kerfinu þannig að þeir sem eru að eignast húsnæði fái áframhaldandi nokkurn opinberan stuðning en þeir sem ekki geta eignast húsnæði og eru leigjendur fái engan stuðning frá samfélaginu. Þetta þarf að athuga nánar við meðferð málsins í nefnd. Eins er ljóst að fiskimanna- og sjómannaafslátturinn, sem í frv. er, þarfnast endurskoðunar. Þar er um tvenns konar afslátt að ræða eins og menn þekkja í dag. Nú á hins vegar að búa til meðaltal úr þessum afslætti öllum saman, slá því öllu í einn afslátt. Það er nokkuð ljóst að fiskimenn fara mjög illa út úr þeirri breytingu og ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að gera þar nokkra leiðréttingu á.

Ég hef hér fyrst og fremst verið að ræða um tekjuskattsfrv. Ég ætla að víkja síðan að lokum að staðgreiðslufrv. en þar eru ýmis áhyggjuefni sem við verðum að gefa okkur góðan tíma til að taka til athugunar í nefnd. Ég hafði samband við framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga í morgun og spurði að því hvernig þessi skattkerfisbreyting kæmi út fyrir einstök sveitarfélög. Ég fékk þau svör að sambandinu væri ekki kunnugt um það. Það hefði ekki fengið neinar upplýsingar um það og raunar væri flest harla óljóst varðandi það hvernig álagningu og innheimtu sveitarfélaga á útsvari yrði háttað samkvæmt þessu nýja kerfi. Það hefur ekkert samráð verið haft við sveitarfélögin um gerð þessa frv. og það verða að teljast mjög furðuleg vinnubrögð. Þar að auki er ekki nein tilraun gerð til þess í frv. að lýsa hvernig álagningunni verði háttað. Það er ekki hægt að lesa það út úr frv. hvernig sveitarfélögin fara að því að innheimta sín útsvör. Það er hvergi neitt ákvæði um það. Ég hef hins vegar spurst fyrir um það hvernig þessu verði háttað og mér skilst að það sé ætlunin að skattgreiðendur greiði í einu lagi 34,75% álagninguna inn á bankareikning, en síðan sé því sem inn kemur skipt á milli sveitarfélaga og ríkis jafnóðum og inn kemur. En þá kemur upp spurningin: Hvað verður um tekjur sveitarfélaga þar sem fólk er flest undir skattfrelsismörkum? - eins og vel getur verið, einkum og sér í lagi þar sem sveitafólk á í hlut. Mér skilst að þar verði þá um endurreikningsákvæði að ræða og lítil sveitarfélög eigi ekki að bera skarðan hlut frá borði. En þannig er nú þetta frv. soðið saman í miklu hasti að ekki hefur gefist kostur á að lýsa þessari hlið málsins þannig að auðskiljanlegt sé. - Ég sé að hæstv. ráðh. hristir höfuðið og ætla ég að vona að hann sé ekki með því að andmæla því að reynt verði að rétta hlut litilla sveitarfélaga. (Fjmrh.: Það var haft samráð við sveitarfélögin.) Ja, ég er nú hræddur um að það hafi verið í einhverju skötulíki ef því er haldið fram að haft hafi verið samráð við sveitarfélögin, vegna þess að þeir sem hafa haft samband við forustumenn sveitarfélaganna hafa fengið harla óljós svör frá þeim um það hvernig t.d. innheimtunni verði háttað og hvernig greitt verði úr vanda sveitarfélaga, sem þannig stendur á fyrir eins og ég var að lýsa hér áðan. (Fjmrh.: Það var haft fullt samráð við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga.) Já, það þykja mér merkilegar og kyndugar upplýsingar því að ekki virðist það samráð hafa verið svo ítarlegt að eftir á treysti menn sér að lýsa því hvernig þessum málum verði háttað á þeim bæ. En þarna er sem sagt um ýmis óljós atriði að ræða sem nauðsynlegt er að fá nánari skýringar á.

Það er líka ljóst að við þessa kerfisbreytingu getur það gerst að menn detti niður á milli þessara tveggja kerfa og fari heldur illa út úr því. Ég nefni bara sem dæmi menn sem hafa kannske haft miklar tekjur á s.l. ári en veikjast í upphafi þessa árs og hafa litlar sem engar tekjur á árinu 1987, og byrja síðan að vinna á árinu 1988. Þeir hefðu samkvæmt gamla kerfinu orðið skattlausir á árinu 1988, ekki þurft að greiða þá neinn skatt, en samkvæmt þessum tillögum verða þeir væntanlega að greiða skatt á árinu 1987 vegna tekna á seinasta ári og byrja svo af fullum krafti að vinna samkvæmt staðgreiðslukerfi á næsta ári og missa þar af leiðandi af þeim skattafslætti sem þeir hefðu átt að fá vegna veikinda sinna. Sama gildir auðvitað um fólk sem fer utan til náms núna í ársbyrjun og sleppir úr heilu tekjuári, árinu 1987. Það fer töluvert illa út úr þessum breytingum og hlýtur að hafa töluvert miklu meiri skatta á þessum árum sem nú eru að líða í heildina tekið en þeir sem eru fullvinnandi á árinu 1987. Þannig eru ýmis vandamál sem upp koma þegar skattkerfisbreyting er gerð og því er ekki lýst hér í frv. hvernig brugðist verði við vanda af þessu tagi.

Svo eru aftur hin öfugu dæmi þar sem atvinnurekendur, sem greiða sér sjálfir laun, geta skrifað á sig lítil laun á árinu 1986, síðan pundað á sig mjög miklum launum á árinu 1987 og svo aftur litlum launum á árinu 1988. Þeir koma auðvitað ákaflega vel út úr þessari breytingu. Að vísu er í 3. mgr. 4. gr. staðgreiðslufrv. reynt að koma eitthvað á móti undanskotum af þessu tagi með því að segja að menn megi aldrei hafa nema 25% hærri tekjur til viðbótar við verðlagsbreytingar ef um reiknað endurgjald sé að ræða af vinnuframlagi í þágu eigin fyrirtækis. En það er heldur engin smáræðisúrbót sem menn fá ef menn geta hreinlega skotið undan 25% af tekjum sínum. Ég verð að segja alveg eins og er að ég er hræddur um að launamenn almennt eigi þess htinn kost að hagnast á þessari skattkerfisbreytingu í þeim mæli sem bersýnilegt er að eigendur fyrirtækja muni gera.

Ég tel líka mjög hæpið að miða við lánskjaravísitölu í staðgreiðslufrv. þegar um er að ræða hækkanir á frádráttarliðum. Við höfum yfirleitt miðað skattvísitölu við tekjubreytingu milli ára. En hér á allt í einu að fara miða við lánskjaravísitölu og það þýðir það að ef laun hækka meira en verðlag, sem við skulum sannarlega vona að verði, og kaupmáttur eykst þá er verið að stórauka skattbyrði í þjóðfélaginu og það tel ég alls ekki sanngjarnt eða eðlilegt.

Þannig má benda á ýmsa ágalla í þessum frumvörpum, en stærsti ágallinn hefur þegar verið nefndur. Hann er sá að skattur á almennar launatekjur verður áfram mjög hár en fyrirtækin sleppa. - [Fundarhlé.]