28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (278)

44. mál, húsnæðismál

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. sagði áðan að fjármögnun húsnæðislánakerfisins væri leyst. Ég tel að þetta sýni að hæstv. félmrh. hafi ekki mikið kynnt sér þessi mál.Vitaskuld er fjármögnun húsnæðislánakerfisins ekki leyst þó að lífeyriskerfið hafi komið svo mikið til móts við fjármögnun húsnæðiskerfisins sem raun ber vitni. Það sem hv. þm. hafa hér verið að ræða er fyrst og fremst félagslega íbúðakerfið sem ég tel að hafi verið að verulegu leyti skilið eftir. Þegar félmrh. talar hér um að 4,7 milljarðar fari til húsnæðislánakerfisins skulu menn átta sig á því að það eru ekki nema svona 15-17% af því fjármagni sem renna til félagslegra íbúðabygginga. Það tel ég að sé fyrst og fremst það sem hv. þm. eru að gagnrýna og að ekki komi niðurstaða frá nefndinni sem sérstaklega átti að fjalla um þann þátt mála. Ég tel að félmrh. þurfi að hafa meiri áhyggjur en fram komu í hans máli af því mikla fjármagni sem þarf beint úr ríkissjóði á næsta ári vegna þess mikla vaxtamismunar sem skapast með þeim lántökum sem nú eiga að koma frá lífeyrissjóðunum til húsnæðismála.