16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3059 í B-deild Alþingistíðinda. (2781)

340. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Frv. til laga um staðgreiðslu opinberra gjalda hefur nú loksins séð dagsins ljós hér á hv. Alþingi. Frá upphafi hefur það verið eitt af stefnumálum Kvennalistans að koma á slíkri skattkerfisbreytingu. Við höfum því í tvígang á þessu kjörtímabili flutt till. til þál. um staðgreiðslu opinberra gjalda, nú síðast á þessu þingi og er það 38. mál þingsins. Eins og segir í grg. með þessari till., með leyfi forseta, telur Kvennalistinn „löngu tímabært að hrinda staðgreiðslu opinberra gjalda í framkvæmd og ekki vansalaust hve lengi það hefur dregist. Afstaða Kvennalistans mótast af hagsmunum almenns launafólks og þá fyrst og fremst þeirra sem hafa sveiflukenndar tekjur og þeirra sem af einhverjum ástæðum þurfa að minnka við sig launuð störf. Má þar nefna fólk sem vill minnka við sig vegna sjúkleika eða aldurs og fólk sem kýs að hverfa af vinnumarkaði og helga sig heimili og barnauppeldi um skeið. Þá má nefna fólk sem stundar ígripavinnu, t.d. við sjávarútveg, en slík störf gefa sveiflukenndar tekjur og oft miklar tekjur og það hafa ekki allir möguleika eða forsjálni til að geyma hluta af þeim til greiðslu á sköttum síðar meir. Enn má nefna fólk sem af einhverjum ástæðum þarfnast aukatekna um skeið, t.d. vegna öflunar húsnæðis, en út úr þeim vítahring er oft erfitt að brjótast og þekkja líklega flestir einhver slík tilvik þar sem miklu máli hefði skipt að sitja ekki uppi með skuldabagga vegna vangoldinna skatta.

Meginkostur staðgreiðslukerfisins að okkar mati eru sem sagt þeir að í slíku kerfi myndast ekki skuld hjá skattgreiðanda eins og nú er.

Í öðru lagi hefur staðgreiðslukerfið þann kost að það fylgir hagsveiflunni, þ.e. innheimtir mikla skatta á velgengnistímum og minni þegar illa árar.

Í þriðja lagi má ætla að staðgreiðslukerfið skapi betri heimtur sem óbeint komi almennu launafólki til góða.“ - Og þar lýkur tilvitnun í þessa grg. með þáltill. Kvennalistans um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Eins og ljóst má vera af þessu er Kvennalistinn eindregið fylgjandi staðgreiðslu opinberra gjalda og við fögnum því að skriður er nú kominn á það mál. Við höfum hins vegar fjöldamargt að athuga við hvernig hæstv. fjmrh. hyggst standa að þessari skattkerfisbreytingu og einnig höfum við margt að athuga við það skattafyrirkomulag sem hæstv. ráðh. boðar í þeim lagafrv. sem fram eru komin í þessu máli.

Í fyrsta lagi er þess að gæta að þessi skattkerfisbreyting nær aðeins til launamanna. Skattlagningu á fjármagns- og eignatekjur og skattlagningu á fyrirtæki er ekki breytt eins og fram hefur komið í máli þeirra sem á undan mér hafa talað og það er vitaskuld fráleitt. Ef menn fara út í skattkerfisbreytingu sem þessa á annað borð á hún auðvitað að ganga yfir alla beina skattlagningu í landinu í einu. Ekki aðeins hluta hennar eins og hér er lagt til. Ein rökin fyrir því að taka upp þessa skattkerfisbreytingu eru þau að með henni ætti skatturinn að skila sér betur. Undanskot og skattsvik verða með henni öllu örðugri en nú er og við vitum að skattsvik eru töluverð nú. Þessi rök eru m.a. tiltekin í grg. með staðgreiðslu frumvarpinu og eru þar með sett fram af hálfu ráðherra einnig sem rök fyrir þessu kerfi. En þá er rétt að spyrja: Eru það fyrst og fremst launamenn sem hafa færi á að stunda skattsvik og hafa stundað skattsvik hér á landi? Nei, það eru ekki launamenn. Það eru fyrirtæki og þeir sem geta millifært eigna- og fjármagnstekjur. Það eru einmitt þessir aðilar sem skildir eru eftir. Það eru þessir aðilar sem skattkerfisbreytingin nær ekki yfir. Þetta er vitaskuld ekki nógu gott og reyndar með öllu óskiljanlegt séu áðurnefnd rök hæstv. fjmrh. fyrir skattkerfisbreytingunni höfð í huga.

Ráðherra hefur svarað því til að ekki hafi unnist tími til að ganga frá frv. um skattlagningu á fyrirtæki og fjármagnstekjur. Gott og vel. Þetta eru flókin mál og þau þurfa tíma í úrvinnslu. Þá er það spurningin: Hvers vegna liggur hæstv. fjmrh. svona mikið á? Svo mikið að hann vill frekar fara hálfa leið en að fara ekki neitt og þá þann hluta leiðarinnar sem ekki er eins aðkallandi miðað við hans eigin rök fyrir þessari skattkerfisbreytingu.

Það læðist nú reyndar að mér sá grunur að árið í ár hafi þar eitthvað með þetta að gera. Það er kosningaár og það kann að vera að hæstv. fjmrh. hafi þótt það hagstætt að skaffa launafólki eitt skattlaust ár í þann mund sem gengið er að kjörborðinu. Eða kann ástæðan að vera sú að hagur fyrirtækja og fjármagnseigenda sé nær hjarta hæstv. ráðh. en hagur ríkissjóðs því það er ríkissjóður sem ber skarðan hlut frá borði hvað þetta varðar? Að því ætla ég ekki að leiða neinum sérstökum getum og um það verða sjálfsagt ekki gefin svör hér á eftir. Þess vænti ég ekki. Upp úr stendur að ef þessi skattkerfisbreyting verður að lögum sitja fyrirtæki og fjármagnseigendur eftir með alla sína frádráttarliði óskerta og álagningu eftir á og það segir sína sögu.

Í öðru lagi er það að athuga við þessi frv. að framlagning þeirra felur í sér töluverða mótsögn hvað varðar stefnu núv. ríkisstjórnar í skattamálum. Eftir því sem er staðfest af talsmönnum hennar hefur hún það m.a. á stefnuskrá sinni að draga úr innheimtu skatts á almennar launatekjur. Þar að auki var samþykkt á Alþingi einróma á 106. löggjafarþingi, ef ég man rétt, að stefnt skuli að því að afnema tekjuskattinn af almennum launatekjum í áföngum.

Hér eru síðan komin fram frv. sem staðfesta tekjuskattinn, frv. um staðgreiðslu tekjuskatts og álagningarreglur tekjuskatts, skatts á almennar launatekjur. Ekki er heldur úr skattinum dregið því að þessi frv. fela ekki í sér neina verulega linun á skattbyrðinni nema annars vegar neðst í tekjustiganum og er það vel og svo hins vegar hjá þeim sem hæstar tekjurnar hafa. Það sést glöggt séu þau línurit sem fylgja frv. um tekjuskatt og eignarskatt skoðuð og eins gefur það auga leið að ef skattprósentan verður aðeins ein virkar hún þannig að því hærri tekjur sem skattgreiðandi hefur því minna borgar hann hlutfallslega af sínum tekjum í skatt miðað við núverandi álagningarkerfi.

Við Kvennalistakonur hefðum viljað sjá tækifærið notað nú til að létta skattbyrðina verulega á neðri hluta tekjustigans og hækka skattleysismörkin miklu meira en ráð er fyrir gert í þessum frv. Þá þarf ríkissjóður vitaskuld tekjur á móti því að slík hækkun skattleysismarka kostar sitt. Slíkum tekjum hefði mátt ná inn með því að láta skattkerfisbreytinguna ná einnig yfir fyrirtæki og fjármagnseigendur því nokkurn veginn er víst að þá hefðu ófáar krónurnar skilað sér í ríkissjóð sem nú rata ekki þangað. Þetta kýs hæstv. fjmrh. hins vegar ekki að gera og ef einhver hefur farið í grafgötur með stefnu hans og núv. ríkisstjórnar í þessum efnum þá held ég að þess þurfi ekki lengur.

Í þriðja lagi ber fyrirkomulag þeirra skattkerfisbreytinga á launamenn sem lagt er til í þessum frv. keim af því að sjónarhóll frumvarpshöfundanna sé ríkissjóður fremur en hagur þess fólks sem við skattkerfið á að búa. Áhersla er lögð á það í þessum frv. að ríkissjóður komi svipað út og í núgildandi kerfi og síðan er launamönnum komið fyrir innan þess ramma. Upphæð persónuafsláttarins t.d. er ákveðin með það í huga, eftir því sem best verður séð af þeim gögnum sem fram hafa komið í málinu, að dæmið reiknist svipað fyrir ríkissjóð, en upphæðin ekki ákveðin út frá því hvernig persónuafslátturinn nýtist mismunandi tekjuhópum, sem væri réttlátast miðað við mismunandi aðstæður skattgreiðenda. Sama er að segja um húsnæðisbæturnar: Það er reikningsdæmi ríkissjóðs, ekki launamanna, sem þar er lagt til grundvallar.

Í frumvörpunum er hvergi nokkurs staðar að finna röksemdafærslu eða útreikninga fyrir því hvers vegna akkúrat þessar upphæðir séu eðlilegar og réttlátar miðað við tekjur og kjör launamanna. Það er hins vegar sagt oftar en einu sinni og skýrt að þessar upphæðir á persónuafslætti og húsnæðisbótum séu ákvarðaðar vegna þess að þá muni dæmið reiknast svipað fyrir ríkissjóð. Viðmiðunin er sem sagt ríkissjóður en ekki hagur þeirra sem skattinn greiða. Þetta tel ég ákaflega rangt að farið því að hagur þegnanna hlýtur ávallt að vera viðkomandi stjórnvöldum viðmiðun á hverjum tíma og sú viðmiðun er ekki ráðandi hér.

Þetta leiðir mig að fjórða atriðinu sem ég hef við frv. fjmrh. að athuga og það er að staðgreiðsla opinberra gjalda felur ekki endilega í sér afnám mismunandi frádráttarliða eins og helst má ætla ef menn lesa frv. illa, ekki ef menn lesa þau vel. Á bls. 16 í tekjuskatts- og eignarskattsfrumvarpinu er m.a. að finna þessa röksemdafærslu í athugasemdum um 3. og 4. gr. frv.: „Afnám hinna fjölmörgu frádráttarheimilda frá tekjum, sem í gildi hafa verið í lengri eða skemmri tíma, er forsenda þess að tekið verði upp staðgreiðslukerfi skatta sem bæði uppfyllir þær kröfur að vera einfalt og öruggt í framkvæmd.“

Þetta er ekki alls kostar rétt. Í Bretlandi t.d. þar sem staðgreiðsla skatta hefur lengi verið í gildi eru einnig í gildi margvíslegir frádráttarliðir, svo sem námsfrádráttur, frádráttur vegna aldraðra foreldra sem skattgreiðandi kann að hafa á framfæri, frádráttur vegna barna í skóla, vegna stofnunar heimilis, húsnæðiskaupa o.s.frv. Þetta virðist ekki vera flókið í framkvæmd, a.m.k. vefst það ekki fyrir Bretum. Frádráttur skattgreiðenda er einfaldlega reiknaður út og kemur fram á skattkorti hans eða hennar hverju sinni. Staðgreiðsla skatta er nefnilega ekki það sama og afnám frádráttarliða. Þetta er tvennt ólíkt og þarf ekki að fara saman. Það fer hins vegar saman í frv. hæstv. fjmrh. og því eru þau miklu víðtækari og meira umbyltandi en sem nemur þeirri skattkerfisbreytingu einni að taka upp staðgreiðslu opinberra gjalda.

Þegar menn taka afstöðu til þessara frv. hér á hæstv. Alþingi eru menn því ekki aðeins að taka afstöðu til með hvaða hætti skuli greiða tekjuskatt hér á landi, þ.e. staðgreiða eða eftirágreiða, heldur einnig hvernig skatturinn sjálfur skuli ákvarðaður. Það hangir líka á spýtunni í þeim frv. sem eru fram komin. Með þessum hætti er hæstv. fjmrh. að koma á víðtækum skattabreytingum í skjóli staðgreiðslukerfisins. Hann siglir skattabreytingunum inn undir flaggi staðgreiðslukerfisins og þó að þjóðarsátt sé um það eftir því sem best verður séð að taka upp staðgreiðslukerfi skatta held ég að fráleitt sé að álíta að þjóðarsátt sé um þær víðtæku breytingar á álagningarreglum sem frv. fela í sér. Fyrir þessu þurfa menn að vera vakandi og ég vil segja strax að okkur Kvennalistakonum líst ekki alls kostar á þá útflatningu á álagningarkerfinu sem frv. boða. Það er ljóst að þegar einn flatur skattur og einn flatur afsláttur gildir um alla gefst lítið svigrúm til að taka tillit til mismunandi aðstæðna launamanna og jafnframt eru tekjujöfnunaráhrif þau, sem tekjuskatturinn hefur hingað til haft, minnkuð að verulegu leyti ef þau eru ekki fyrir bí að mestu.

Helstu frádráttarliðir í gildandi skattalögum eru húsnæðiskaupafrádráttarliður vegna vaxta- og verðbótakostnaðar, það er sjómannafrádráttur, námsfrádráttur, giftingarfrádráttur og persónufrádráttur auk annarra smærri liða. Engir frádráttarliðir eru í nýja kerfinu aðrir en fastur persónuafsláttur, sérstakur sjómannaafsláttur og húsnæðisbæturnar og auk þess eru náttúrlega barnabætur áfram með óbreyttu sniði. Það hljómar e.t.v. einfalt að setja upp bótakerfi af þessu tagi í stað þeirra frádráttarliða sem áður voru ef markmiðið er aðeins það að einfalda kerfið. En þessar breytingar fela í sér í leiðinni tilflutning á skattbyrðinni en einföldunin, sem er sannarlega lofsvert markmið í sjálfu sér, má samt ekki ganga af öllu réttlæti dauðu. Ef við skoðum aðeins t.d. húsnæðisþáttinn er ljóst að með niðurfellingu á vaxta- og verðbótafrádrætti húsnæðiskaupenda er verulega skertur möguleiki ungra barnafjölskyldna til að kaupa nægilega stórt húsnæði á meðan börnin eru heima við og að bætast í hópinn miðað við þau fjármagnskjör sem nú eru í gildi. Húsnæðisafslátturinn á aðeins að miðast við fyrstu kaup og það gerir það að verkum að fólk á ekki jafnauðvelt með, og er það nú býsna erfitt fyrir reyndar en það verður enn þá erfiðara, að kaupa og selja íbúðir með stuttu millibili eins og tíðkast hefur hér á landi í þeim tilgangi að komast á einhverjum tímapunkti í endanlegt húsnæði. Það er einmitt það sem hinn dæmigerði fjölskyldukjarni hér á landi hefur gert, hann hefur keypt og selt uns réttri húsnæðisstærð hefur verið náð. Þetta fyrstasinnákvæði sem fylgir húsnæðisbótunum kemur þannig engan veginn heim og saman við íslenskan veruleika í húsnæðismálum. Og ég sé heldur ekki hvernig hann kemur heim og saman við stefnu stjórnarflokkanna og þá kannske einkum og sér í lagi flokks hæstv. fjmrh. í þessum málum. Mig minnir t.d. að árið 1982 hafi það verið kosningamál sjálfstæðismanna við borgarstjórnarkosningar að koma upp byggð í Grafarvogi. Hversu margir af þeim sem byggðu í Grafarvogi voru að byggja í fyrsta sinn? Ég held að það hafi verið ákaflega fáir og það gefur auga leið að þetta fyrstasinnákvæði á húsnæðisbótunum gerir það að verkum að fólk strandar meira og minna í því húsnæði sem því fyrst tekst að afla sér.

55 000 kr. afslátturinn samsvarar hugsanlega vaxtafrádrætti fyrir um 200 000 kr. skuld fyrir húsnæðiskaupanda með tekjur á bilinu 700-900 þús. kr. Sá sem fær fullt lán frá Húsnæðisstofnun fær 2,3 millj. á 3,5% vöxtum og vaxtakostnaður hans er rúm 80 000 á ári sem vex með verðbólgu. Sá sem hefur tekið yfir 1 millj. í lán á kjörum Húsnæðisstofnunar og skuldar 1,5 millj. á 6,5% vöxtum er kominn upp í 132 000 kr. vaxtakostnað. Langstærsti hluti frádráttar húsnæðiskaupenda eftir 1982 hefur þó verið verðbótaþátturinn sem hér er undanskilinn enda örðugt að spá fyrir um hann. Af þessu má ljóst vera að nýja kerfið flytur húsnæðisniðurgreiðslur frá þeim sem fjármagna húsnæði eftir fyrstu húsnæðissölu til þeirra sem eru að kaupa fyrsta húsnæði sitt. Þetta bitnar illa á barnafjölskyldum sem hafa farið út í að stækka við sig með vaxandi fjölda og aldri barna. Þetta bitnar á öllum sem ekki hafa nægilegt bolmagn til að kaupa framtíðarhúsnæði í fyrstu atrennu. Þetta bitnar á fólki sem flyst á milli landshluta og þarf þess vegna að skipta um húsnæði, á fólki sem skilur við maka sinn og verður að byrja upp á nýtt í húsnæðismálunum, á öllum þorra landsmanna í rauninni því fæstir geta komist af með að kaupa húsnæði aðeins einu sinni á ævinni. Ég vil því biðja hæstv. fjmrh, að íhuga vandlega hver áhrif þessa fyrstasinnákvæðis yrðu á húsnæðisveruleikann hér á landi.

Með þessu móti, með því að hafa aðeins einn fastan húsnæðisafslátt eða húsnæðisbætur sem miðast við fyrsta sinn og með þeim álagningarreglum sem gert er ráð fyrir, er í raun og veru ekkert tillit tekið til raunverulegra aðstæðna fólks hér á landi. Frv. svífur einhvers staðar fyrir ofan þær eða utan, tyllir ekki tánum þar niður og það gengur vitaskuld ekki.

Þá eru það þau undarlegheit sem er að finna í 3. og 4. gr. frv. um tekjuskatt og eignarskatt. Það eru þær greinar sem kveða á um niðurfellingu frádráttarliða með þeim undantekningum sem er að finna í 3. gr. frá tekjum utan atvinnurekstrar og vísa þessar greinar til 30. gr. núgildandi skattalaga.

Í 3. og 4. gr. frv. eru flestir frádráttarliðir felldir niður en ekki allir því B-liður 30. gr. er látinn standa óbreyttur. Og hvaða frádráttur er það sem áfram verður heimilaður? Það er frádráttur vegna vaxtatekna, affalla og gengishagnaðar. Það er frádráttur vegna arðs, að hámarki 10% af nafnverði hvers einstaks hlutabréfs. Það er fé sem fært hefur verið félagsmanni í félagi af viðskiptum hans utan atvinnurekstrar eða sjálfstæðrar starfsemi og það er fé það sem varið er til aukningar á fjárfestingu í atvinnurekstri á árinu skv. lögum um frádrátt frá tekjum manna vegna fjárfestingar í atvinnurekstri sem við könnumst við frá fyrsta þingi þessa kjörtímabils. Það er sem sagt allur fjármagnsarður utan atvinnurekstrar sem enn þá er frádráttarbær. Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh.: Hvers vegna var þessi frádráttur ekki einnig felldur niður rétt eins og aðrir frádráttarliðir í A-, C-, D- og E-lið þessarar greinar skattalaganna? Hvaða rök eru t.d. fyrir því að fella niður frádrátt vegna vaxtakostnaðar en ekki vegna vaxtatekna? Hvers vegna fá menn frádrátt fyrir að eiga fé og taka vexti af því en ekki fyrir að greiða vexti af skuldum sínum? Ég kem þessu ekki heim og saman og ekki heim og saman við neitt réttlæti í þessum málum.

Námsfrádráttur er einn af þeim frádráttarliðum sem felldir eru niður samkvæmt frv. fjmrh. og þótt hann hafi nú ekki vegið þungt skiptir hann máli fyrir námsmenn sem eru að koma heim úr námi og hefja störf. Það sem er þó öllu alvarlegra fyrir námsfólk sem kemur úr námi út á vinnumarkaðinn er staðgreiðslukerfið sjálft því að það hefur hingað til skipt námsfólk ákaflega miklu máli að fyrsta árið í starfi eftir nám hefur í raun og veru verið skattlaust vegna eftiráálagningarinnar. Menn hafa ekki byrjað að borga skatta fyrr en þeir hafa haft tekjur í eitt ár. Þetta mun koma til með að skipta námsmenn verulegu máli og miklu meira máli en niðurfelling námsfrádráttarins. Þetta vil ég og held ég að þurfi að skoðast öllu betur þegar málið kemur í nefnd.

Eins og ég hef sagt tel ég afnám tekjujöfnunaráhrifa tekjuskattsins ákaflega varhugavert, einföldunin gengur býsna langt í þá veru og það er ljóst að barnabæturnar vega þar ekki upp á móti. Þær eru hlutfallslega það lítill hluti að þær ná ekki að vega upp á móti afnámi þeirra frádráttarliða sem þarna eru og þeirrar einföldunar sem gerð er á skattkerfinu. Hættan er sú að skattbyrði þeirra sem síst mega við því verði þá óréttlátlega þung miðað við skattbyrði annarra.

Ég held að þetta þurfi að skoðast mjög vandlega og eins það atriði hvort ekki sé rétt að hafa ekki aðeins eina skattprósentu heldur tvær eins og víða tíðkast þar sem staðgreiðslukerfi er fyrir hendi. Reyndar er allur gangur á því hversu margar skattprósenturnar eru, og ég held að við ættum að íhuga það vandlega hvort ekki sé rétt að hafa tvær skattprósentur í staðinn fyrir eina, á þann veg að tekjur fyrir ofan ákveðið hámark verði skattlagðar heldur hærra, með heldur hærri skattprósentu en lögð er á tekjur fyrir neðan þetta mark. Eins og ég sagði er þetta fyrirkomulag fyrir hendi annars staðar og það gengur engan veginn í berhögg við staðgreiðslukerfið sem slíkt. Í þessu efni snýst málið í rauninni aðeins um hvort menn telja að þeir sem mestar tekjur hafa skuli greiða hlutfallslega meira eða minna af sínum tekjum til ríkisins en þeir sem færri krónurnar hafa.

Fimmti þátturinn í þessu máli sem ég vil nefna sérstaklega snertir það sem nefnt hefur verið samsköttun. Í 13. gr. staðgreiðslufrumvarpsins er kveðið á um skattkort maka og þar kemur fram að sá maki sem tekjuminni eða tekjulaus er getur framvísað skattkorti sínu til tekjuhærri makans og sá síðan fengið afslátt af sínum sköttum gegn framvísun skattkorts tekjulausa makans. Þetta þýðir í reynd að makinn sem teknanna aflar fær afslátt af tekjuskatti sínum vegna þess að hann er með heimavinnandi á framfæri sínu. Þessu fyrirkomulagi eða aðferð við að meta störf heimavinnandi erum við Kvennalistakonur andvígar. Við teljum að hvern einasta fullorðinn einstakling, karl eða konu, beri fortakslaust að skoða í lögum sem fjárhagslega sjálfstæðan aðila. Á þeirri forsendu byggir sérsköttunarregla skattalaganna og á þeim forsendum viljum við að sá eða réttara sagt sú, því í nær öllum tilvikum er um konur að ræða, að sú sem heimilisstörfin vinnur eða tekjulægri er þiggi sjálf greiðslurnar fyrir unnin störf inni á heimilinu. Í stað þess að tekjuhærri makinn fái afslátt frá sköttum fyrir að hafa heimavinnandi á framfæri sínu, eins og gert er ráð fyrir í frv., viljum við að annaðhvort greiði ríkið ónýttan persónuafslátt út til heimavinnandi, gegn framvísun skattkorts, eða þá að heimavinnandi njóti persónuafsláttarins í auknum greiðslum barnabóta.

Þannig er fjárhagslegt sjálfstæði heimavinnandi virt í verki og jafnframt viðurkennt að nokkur þóknun skuli koma fyrir heimilisstörf, sem er stórt skref í þá átt að viðurkenna gildi þessara starfa þótt þóknunin sé nú ekki beint há. Er það allt önnur biblía og allt annað faðirvor en að veita afslátt til fyrirvinnunnar fyrir að framfæra heimavinnandi eins og gert er ráð fyrir í þessu frv. Með öðrum orðum að ef meta á heimilisstörf til launa, eins og samsköttunarákvæðið vísar til með öfugum formerkjum, þá á að greiða þeim sem heimilisstörfin vinna þau laun en ekki öðrum.

Ég mun óska eftir því í fjh.- og viðskn., sem væntanlega fær þetta mál til umfjöllunar, að reiknað verði út hversu há heildarfjárhæð samsköttunarákvæðisins er, hve há hún er áætluð, og í framhaldi af því mun ég síðan gera brtt. í þá veru sem ég hef hér lýst, þ.e. að annaðhvort fái heimavinnandi ónýttan persónuafslátt sinn útgreiddan gegn framvísun skattkorts eða þá að hann verði settur í auknar barnabætur sem er vafalítið tæknilega flóknara. Hvor leiðin sem valin verður bíður nánari útfærslu.

Það er enn annað atriði sem varðar þessa millifærslu milli maka eða samsköttun sem ég vil nefna hér og það er varðandi það að persónuafsláttur heimavinnandi, eða tekjulægri makans, nýtist aðeins að 3/4, eða 4/5 hlutum til miðað við orð hæstv. ráðh. í ræðu hans þegar hann mælti fyrir þessum frv. Ég mun leggja til að persónuafsláttur heimavinnandi nýtist ekki aðeins að 4/5 heldur að fullu vegna þess að það er ekki með nokkru móti verjandi að tekjulægri, eða heimavinnandi einstaklingar, teljist aðeins persónuígildi að 4/5 hlutum eða hvaða hlutfalli sem er öðru en jöfnu á við alla aðra. Það er auðvitað ekkert annað en virðingarleysi bæði við sjálfstæði og ígildi þeirra einstaklinga sem hér um ræðir að leggja til það fyrirkomulag sem í þessu frv. er að finna. Margar eru þær konurnar sem hafa tekið eftir þessu og haft samband við mig og spurt: Jæja, á nú að meta okkur sem trekvart persónu. Frv. var kynnt á þann hátt að það væri 3/4 hlutar, þ.e. 75% sem væru nýtanlegir á þennan hátt, en síðan hefur fjmrh. látið þess getið að það mun vera 80% eða 4/5. Það er töluverð ólga og reiði meðal kvenna yfir þessu sérstaka ákvæði.

Ég vil einnig benda á varðandi persónuafsláttinn, og það á reyndar við um húsnæðisbæturnar einnig, að það mun varla duga að endurreikna upphæð þessara bótaliða aðeins tvisvar á ári. Það er vitaskuld í lagi á meðan verðbólga er lítil og verðbreytingar litlar, en á það er nú ekki treystandi hér og þar sem staðgreiðslan sjálf gerir ráð fyrir að menn greiði skattinn í takt við verðbreytingar, þá held ég að það sé lágmarkskrafa að bæturnar séu einnig reiknaðar mánaðarlega í takt við verðbreytingar rétt eins og skatturinn og mun ég jafnframt leggja það til.

Í 5. gr. staðgreiðslufrv. er lagt til að allar starfstengdar greiðslur, fríðindi og hlunnindi skuli metin sem laun og skattlögð sem slík. Þessu erum við Kvennalistakonur fylgjandi. Í fyrsta lagi vegna þess að þar með er meiri von til þess að laun verði laun, í þeim skilningi að allar greiðslur til starfsmanns teljist til launa en ekki til launa og síðan einhvers óskilgreinds annars eins og fríðindin og hlunnindin hafa iðulega verið, og að þar með verði þeim skollaleik að launa með hlunnindum og falsa þannig launakerfið, ja, ef til vill ekki lokið en að það dragi úr honum. Í öðru lagi erum við fylgjandi þessu vegna þess, og það er ekki síður mikilvægt, að það er von til þess að þetta ákvæði geti átt sinn þátt í að minnka eitthvað þann mun sem er á raunverulegum launum kvenna og karla. Við vitum að það eru fyrst og fremst karlar sem njóta starfstengdra fríðinda af hvaða tagi sem er. Hvað varðar opinbera starfsmenn kom þetta t.d. glöggt fram í svari fjmrh. við fsp. frá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um þetta efni á 106. löggjafarþingi að mig minnir. Það var gríðarlegur munur á konum og körlum hvað þetta varðar. Karlar höfðu margfalt hærri greiðslur af þessu tagi heldur en konur. Þetta ákvæði 5. gr. getur því átt þátt í að draga úr þessu kynbundna misrétti og það er vel.

Miklu skiptir hins vegar hvernig þær reglur sem hæstv. fjmrh. hyggst setja um sannanlegan kostnað vegna starfs verða vegna þess að gulltryggt verður að vera að launamenn beri ekki kostnað vegna starfs síns sem með réttu á heima hjá vinnuveitanda. Ég vil fara þess á leit við hæstv. fjmrh. að hann láti fjh.- og viðskn. í té drög að þeim reglum sem hann hyggst setja um þetta atriði þannig að nefndin geti haft þau til hliðsjónar í umfjöllun sinni um málið.

Að lokum, virðulegi forseti, vil ég gera athugasemd við þá innheimtuaðferð sem lögð er til í staðgreiðslufrumvarpinu. Þar er lagt til að innheimta tekjuskatts skuli alfarið vera í höndum vinnuveitenda. Ég leyfi mér að efast stórlega um að þetta sé heppilegt fyrirkomulag. Skil söluskatts, sem einnig er innheimtur að hluta til af sömu aðilum, hafa ekki verið með þeim hætti að þetta megi telja gulltrygga innheimtuaðferð. Á það ber einnig að líta að í núgildandi lögum hefur skattgreiðandi nokkurt val um það hvort hann greiðir sjálfur sinn skatt á tilskildum gjalddaga eða greiðir skattinn samkvæmt innheimtukerfi skattstofunnar, fyrir fram að hluta til og síðan 1. hvers mánaðar þar eftir. Þetta val, sem skattgreiðendur hafa hingað til haft, er afnumið í þessu frv.

Ég tel af báðum þessum ástæðum, þ.e. annars vegar valfrelsi skattgreiðenda og hins vegar efasemdum um það hversu skilvirk aðferð það er að fela vinnuveitendum að innheimta og skila tekjuskattinum, af báðum þessum ástæðum tel ég rétt að athuga aðrar leiðir í innheimtunni sjálfri. Til dæmis þá leið að skattgreiðendur standi sjálfir skil á skatti sínum, t.d. í gegnum bankakerfið sem flestir ef ekki allir hafa nokkuð stöðug samskipti við. Fleiri leiðir kunna einnig að vera fyrir hendi og þetta held ég að þurfi að athuga nánar.

Virðulegi forseti. Nú stytti ég mál mitt. Meginlínurnar í þessum nýju skattafrumvörpum eru: Í fyrsta lagi að fram er komin staðfesting á tekjuskatti launamanna í stað afnáms hans eða umtalsverðrar lækkunar eins og þessi ríkisstjórn hefur haft á stefnuskrá sinni. Í öðru lagi eru hér á ferðinni stórfelldar skattkerfisbreytingar í skjóli þess að taka upp staðgreiðslukerfi. Og í þriðja lagi hefur heildarendurskoðun skattkerfisins verið snúið í endurskoðun á skattkerfi launamanna án þess að létta skattbyrðar þeirra að verulegu leyti. Hér eru því á ferðinni nokkuð aðrar skattatillögur en við Kvennalistakonur hefðum viljað sjá. Ég hef í stórum dráttum lýst afstöðu okkar til þeirra og á grundvelli hennar mun ég vinna að þessu máli í hv. fjh.- og viðskn.