16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3070 í B-deild Alþingistíðinda. (2783)

340. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Stefán Benediktsson:

Frú forseti. Fyrir nokkrum vikum varð það allt í einu að tísku að skamma Alþfl. fyrir allt sem aflaga fór í þessu þjóðfélagi. Eitthvað raskaði þetta ró hæstv. fjmrh. sem annars hefur sýnt sig að vera mjög geðprúður maður. Hann hóf umræðuna um þau frv. sem hér eru á ferðinni, áður en þau höfðu sést, með frekar subbulegum hætti þegar hann fór að ásaka Alþfl. um það að ætla sér að standa í vegi fyrir afgreiðslu þessara frv. þegar allt og sumt sem á ferðinni var var það að formaður Alþfl. krafðist þess að fá að sjá þessi frv. og dró það að vísu eitthvað í efa að þau litu dagsins ljós eða tími ynnist til að afgreiða þau.

Ég fagna því að þessi frv. eru komin fram og andmæli því fyrir hönd þingflokksmanna okkar að Alþfl. ætli sér á nokkurn hátt að tefja fyrir eða koma í veg fyrir afgreiðslu þessara mála, enda ætla menn þá kannske þeim þingflokki meira afl en staðreyndir standa til. Hið sanna í þessu máli er að Alþfl. styður einföldun álagningar skatta og breikkun skattstofns. Alþfl. styður staðgreiðslu skatta. Alþfl. styður líka afnám tekjuskatts á almennar launatekjur og hefur gert um alllanga hríð, en um það er reyndar ekki að ræða í þessu frv., og Alþfl. styður líka endurskoðun skattkerfis eða skattheimtu í heild, en um það er heldur ekki að ræða í þessu frv.

Hvers vegna eru þessi frv. fram komin nú? Að nokkru leyti hlýtur það að vera fyrir góðan vilja, en þó skyldu menn samt sem áður minnast þess að þeir sem leggja þetta frv. fram núna hafa lofað því statt og stöðugt í hartnær fjögur ár að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum og innsigla nú vanefndir þeirra loforða með því að leggja þetta frv. fram, þar sem víðs fjarri fer að almennar launatekjur verði skattfrjálsar. Þetta frv. er þess vegna fram komið að aðilar vinnumarkaðarins, ASÍ og VSÍ, gerðu það að skilyrði í seinustu samningum sínum að komið yrði á staðgreiðslukerfi skatta. Ríkisstjórnin lofaði að koma því í framkvæmd, og það er það loforð sem nú er verið að efna. Sá böggull fylgir þó skammrifi að staðgreiðslukerfi skatta er örðugt að koma á öðruvísi en að einfalda innheimtu þeirra og þess vegna verður það að gerast a.m.k. samtímis. Gallinn á gjöf Njarðar að þessu sinni er sá að hér er ekki um heildarendurskoðun skattheimtu að ræða heldur eingöngu breytingar á álagningu og innheimtu skatta af launafólki. Engu að síður er það þó skref í rétta átt. Ég tel mjög nauðsynlegt að fram komi við frekari afgreiðslu og endanlega afgreiðslu þessa máls hver áform löggjafans eru í framhaldi af þeim breytingum sem þessi frv. munu skila. Ég held að löggjafinn geti ekki látið almenning vera í vafa um það hver hans endanlegu áform eru, hver hugur löggjafans til skattgreiðenda almennt er. Ekki bara þeirra sem þiggja laun heldur allra annarra sem skattskyldir eru.

Það er dálítið eftirtektarvert eins og ég áður lýsti hvernig þetta frv. er til komið, hverjir raunverulega mynda orðið þá samstöðu í þessu þjóðfélagi sem þarf til þess að ná fram jafnveigamiklum málum og hér er hreyft. Það er greinilegt að þjóðkjörnir fulltrúar telja sig ekki lengur hafa nægjanlegt umboð til þess að hrinda svona veigamiklum breytingum í framkvæmd öðruvísi en að fá til þess stuðning allt annarra aðila, sem allt öðruvísi umboð hafa, en að því er virðist það mikið greinilegra umboð að á þá er miklu frekar hlustað en áform þeirra manna sem kosnir hafa verið af þjóðinni til þess að efna þau loforð sem þeir hafa gefið. Eða hvernig er það, er umboð ASÍ og VSÍ virkilega svona miklu skýrara en stjórnvalda að þeir eiga miklu auðveldara með að koma breytingum sem þessum í framkvæmd en í raun og veru stjórnvöld sjálf? Ef svo er þá tel ég að stjórnarfari okkar sé orðið mjög ábótavant.

Eins og ég sagði áðan þá er það engin spurning að Alþfl. styður einföldun álagningar og einföldun innheimtu skatta. Stóra spurning launþegans, og þess vegna líka fulltrúa þeirra hér á þingi, hlýtur að vera sú: Hvaða breytingu hefur þetta í för með sér fyrir mig? Sjálfsagt spyrja menn flestir beint: Lækka skattarnir mínir? Eða: Hverra skattar lækka? Í fljótu bragði virðist réttarbótin ekki vera ýkja merkjanleg fyrir launþegann að öðru leyti en því að kerfið verður fyrir hann öllu skiljanlegra. Hann greiðir áfram skatta út þetta ár. Hann skilar sínu framtali. Hann fær endanlega álagningu núna á miðju sumri og ef um skattfríðindi eða frelsi er að ræða þá er það ekki nema þessi seinasti mánuður ársins, sem hingað til hefur verið skattlaus, seinasti dagur ársins í raun og veru, þ.e. fyrir þá sem laun hafa þegið fyrir fram.

Það er hægt að segja að erindisbréfið, sem fjmrh. afhenti þeirri nefnd sem hann skipaði til þess að endurskoða álagningu og innheimtu skatta, sé hinn raunverulegi lykill að réttarbótinni sem launþeginn horfir til. En hann veit ekki til hlítar hver hans réttarbót er fyrr en erindisbréfið allt saman hefur verið framkvæmt, þ.e. ekki fyrr en öll þau atriði sem farið er fram á í erindisbréfinu að unnin verði hafa verið unnin. Þá fyrst veit hann hver afstaða stjórnvalda til hans er. Og vegna þess að það mun ekki gerast á þessu þingi tel ég nauðsynlegt að löggjafinn láti í ljósi hver hin raunverulegu áform hans eru. Er það t.d. ætlunin að aflétta sköttum af almennum launatekjum? Við fréttum það hér fyrir stuttu síðan að meðaltekjur á Íslandi í dag muni vera um 63 000 kr. á mánuði. Þar hafa menn þá einhverja viðmiðun þegar ákveða verður hvar skattfrelsi endar. En ég tel mjög nauðsynlegt að í einhverju formi komi fram hver skoðun löggjafans er í því máli.

Frú forseti. Það er þó nokkur vinna sem núna er fram undan í fjh.- og viðskn. og mjög mörg atriði sem sjálfsagt þarf að skoða. Ég er ekki búinn að kynna mér þessi frv. sem hér liggja fyrir það ítarlega að ég geti farið út í efnislega umræðu um þau á þessu stigi. Það eru nokkur atriði sem maður hefur hnotið um við fljótlegan yfirlestur án þess að þau séu kannske ýkja merkileg miðað við heildarstærð þessa máls alls.

Manni verður t.d. hugsað til þess hvernig farið verður með framkvæmd 25% reglunnar svokölluðu, þ.e. ef menn auka tekjur sínar mikið á þessu ári þá er fyrirhugað að skoða þá tekjuaukningu á næsta ári með tilliti til þess hvort hún hafi farið fram úr einhverjum ákveðnum mörkum. Ef tekjuaukningin fer fram úr 25% af því sem áætla mátti að eðlilegt væri þá koma slík tilfelli til úrskurðar skattstjóra. Þetta þýðir t.d. að hafi maður það ýkta tilfelli að maður hafi haft 4 millj. kr. í tekjur og aukið þær upp í 5 millj. kr. þá er hann undir þessu tilskilda marki. Hann hefur ekki aukið tekjur sínar nema rétt sem því nemur sem menn telja athugunar vert en annar aðili, sem hefur haft 250 000 kr. í tekjur og eykur þær upp í 500 000 kr., fer það langt yfir markið að hann verður að mæta hjá skattstjóra þó að hver heilvita maður sjái náttúrlega að þarna er um tekjuaukningu að ræða sem ekki vegur eins þungt og það dæmi sem ég nefndi fyrst.

Í B-lið 11. gr. frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt er að finna ákvæði um húsnæðisbætur. Hv. 11. þm. Reykv. fjallaði reyndar nokkuð ítarlega um þessa grein og gerði athugasemd við fyrsta lið þeirra skilyrða sem menn verða að uppfylla, þ.e. að um sé að ræða fyrstu íbúð sem viðkomandi eignast. Þetta hlýtur að vera þeim erfitt sem eru að taka þátt í þeim sérkennum fasteignamarkaðar sem við búum við hér á Íslandi, þeim sem eru að vinna sig áfram eftir því sem fjölskyldan stækkar, og er að mínu mati alls ekki fyllilega hægt að réttlæta þetta sem skilyrði. Sjálfsagt skilyrði er það sem tilgreint er hér í 2. tölul., þ.e. að íbúðin sé byggð eða keypt til eigin nota. Aftur á móti er þriðja skilyrðið líka dálítið vafasamt þó að mönnum kunni að virðast það fyllilega eðlilegt svona við fyrstu sýn, þ.e. að íbúð sé lánshæf samkvæmt reglum Húsnæðisstofnunar ríkisins. Þetta atriði horfir fram hjá ömurlegri staðreynd sem við búum við, ekki hvað síst hér á höfuðborgarsvæðinu, að hér er enn þá á markaði mjög mikið af húsnæði sem ekki er lánshæft samkvæmt reglum Húsnæðisstofnunar ríkisins þó að það sé að öðru leyti fyllilega íbúðarhæft. Það er þetta húsnæði sem kannske einmitt það fólk leitar í sem mest þyrfti á svona aðstoð hins opinbera að halda, þ. e. efnaminnsta fólkið. Þess vegna kemur þetta þriðja skilyrði kannske harðast niður á þeim sem síst skyldi.

Það eru náttúrlega fleiri spurningar sem vakna en þeirra spurninga má spyrja í nefnd eins og þeirrar hvers vegna vextir af ofgreiddum sköttum greiðast ekki nema frá 1. júlí en ekki gildir sama regla um þá sem eru vangoldnir o.s.frv. En eins og ég sagði þá eru þetta spurningar sem má spyrja í nefnd og fá skýringar á og ekki ástæða til þess að tefja þá umræðu sem hér á sér stað núna með slíkum spurningum. Það má líka spyrja þeirrar spurningar hverjir tapa á þessari breytingu. Það virðist alls ekki ljóst af þeim gögnum sem við höfum fengið. Þykir manni þó ótrúlegt að enginn muni tapa á því. Betur væri náttúrlega ef svo væri. Það þýddi þá að þetta frv., ef að lögum yrði, yrði betra en maður þekkir víðast hvar annars staðar í veröldinni þar sem sambærileg álagning og innheimta fer fram. En þetta eru upplýsingar sem fást miklu betur og skýrar í nefndinni, frú forseti, og þess vegna ætla ég ekki að tefja umræðuna hér núna með eftirleitan eftir svörum við slíku.

Ég vil bara endurtaka það af gefnu tilefni að það stendur ekki á okkur Alþýðuflokksmönnum að greiða götu þessa frv. eins mikið og í okkar valdi stendur.