16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3073 í B-deild Alþingistíðinda. (2784)

340. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Hæstv. forseti. Það er sannarlega ánægjulegt að talsmenn allra þingflokka skuli í þessum umræðum nú í eftirmiðdag og í kvöld vera sammála um þá meginstefnu sem lögð er til með frv. þeim sem til umræðu eru. Það er auðvitað alveg sjálfsagt mál að menn hafi mismunandi skoðanir á einstökum ákvæðum þessara frv. Hitt er líka eðlilegt að menn hefðu viljað sjá þessi frv. eitthvað fyrr. En ég vil geta þess að það vinnst allgóður tími til þess að skoða frv. í hv. fjh.- og viðskn. Ég hafði raunar þegar boðað fundi í fyrramálið en að athuguðu máli og eftir viðræður við aðra nefndarmenn urðum við ásátt um að skynsamlegra væri að funda ekki fyrr en á miðvikudag, heldur að reyna að beina spurningum til embættismannanna sem væru þá betur færir um að svara þegar þeir mættu til fundar. Hér hafa í dag komið fram fjölmargar fsp. sem embættismennirnir hafa skrifað hjá sér og munu að sjálfsögðu reyna að greiða úr þeim. Hvort þeir geta greitt úr öllum spurningum strax á miðvikudag eða eitthvað síðar það verður að koma á daginn.

En þess er að gæta að í næstu viku verða fjölmargir þm. og raunar margir ráðherrar líka, ég hygg þó ekki hæstv. fjmrh., á Norðurlandaþingi. Þess vegna verða hér stuttir fundir eins og menn þekkja af reynslunni og ætti þess vegna að gefast gott tóm til að ræða málið í hv. fjh.- og viðskn., enda mun enginn af nefndarmönnum verða fjarverandi þá vikuna. Við ættum sem sagt að geta haft allgóðan tíma til þess að athuga málin og sjálfsagt að nota hann vel og ekki skal standa á mér að reyna að hjálpa til við að koma spurningum á framfæri, hvort heldur er frá nefndarmönnum eða öðrum hv. þingdeildarmönnum, og kalla til þá sem menn vilja hitta að máli.

Það hlýtur að vera svo að þegar menn eru sammála um meginatriðið þá náist sæmileg samstaða um að lögfesta þessi frv., að sjálfsögðu eitthvað breytt, og líka með hliðsjón af því að jafnvel þó að menn séu ekki alls kostar ánægðir með eitthvað, þá er kostur á nýju þingi á komandi hausti að breyta eitthvað framkvæmdaratriðum þó að meginstefnuna verði auðvitað að marka með löggjöf nú þannig að markvisst sé hægt að vinna að undirbúningi framkvæmdar þessarar byltingar. Ég hygg að það sé bylting. Og það væri ánægjulegt, eins og einhver hv. þm. komst hér að orði áðan, ég hygg hv. þm. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir, að það væri þjóðarsátt um meginstefnuna, staðgreiðsluna. Þá hljótum við að geta ráðið fram úr minni háttar atriðunum eða greitt um einstök atriði atkvæði eins og vera ber. Síðan er sumarið fram undan til skoðunar á öllum þessum málum og það væntanlega þing sem þá situr og væntanleg stjórnvöld, ríkisstjórn, hver sem hún verður, mun þá auðvitað geta breytt einhverjum atriðum.

En ég endurtek: Ánægjulegast er að við erum sammála um meginatriðið - staðgreiðsluna.