28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í B-deild Alþingistíðinda. (279)

47. mál, almenningsbókasöfn

Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir):

Herra forseti. 13. okt. 1983 barst þáv. hæstv. menntmrh. Ragnhildi Helgadóttur svohljóðandi bréf:

„Með bréfi dags. 13. febr. 1980 skipaði þáv. menntmrh. Ingvar Gíslason nefnd til að gera heildaráætlun um uppbyggingu og aðsetur almenningsbókasafna. Nefndin leggur hér með fram sameiginlegar niðurstöður sínar. Megintillögur nefndarinnar eru:

1. Skipting landsins í sjö bókasafnsumdæmi er fylgi þeirri svæðisskiptingu sem sveitarfélög hafa markað í samstarfi sínu. Í hverju umdæmi verði skipaður bókasafnsráðgjafi.

2. Hert verði á kröfum um menntun til starfa í bókasöfnum og þeir sem koma nýir til starfa uppfylli ákveðnar lágmarkskröfur áður en þeir fá ráðningu til starfa. Nefndin er á einu máli um að ofangreind atriði séu forsenda þess að hægt sé að gera heildaráætlun um uppbyggingu og aðsetur almenningsbókasafna og leggur því til að lög um almenningsbókasöfn verði endurskoðuð í samræmi við þær niðurstöður sem hér liggja fyrir.“

Undir þetta skrifuðu, með leyfi forseta, Kristín H. Pétursdóttir, fyrrv. bókafulltrúi ríkisins, Sigurgeir Sigurðsson, Ölvir Karlsson, Elfa Björk Gunnarsdóttir og Sigrún Magnúsdóttir.

Nefnd þessi var skipuð í samræmi við ákvæði til bráðabirgða í lögum um almenningsbókasöfn nr. 50/1976, en þar segir, með leyfi forseta:

"Menntmrn. og Samband ísl. sveitarfélaga skulu sameiginlega gangast fyrir gerð heildaráætlunar um uppbyggingu og aðsetur almenningsbókasafna.“

Hinn 8. maí 1984 bar ég fram svohljóðandi fsp.: „Hyggst menntmrh. leggja fram frv. til nýrra laga um almenningsbókasöfn á því þingi sem nú situr?"

Hæstv. þáv. ráðherra Ragnhildur Helgadóttir svaraði því til að tillögurnar væru til umsagnar hjá bókasafnsstjórnum og forstöðumönnum almenningsbókasafna, sveitarstjórnum og landshlutasamtökum sveitarfélaga og yrði ákvörðun tekin þegar þær hefðu borist.

Af ástæðum sem mér eru ókunnar, herra forseti, skipaði hæstv. núv. menntmrh. nýja nefnd s.l. haust, en í henni áttu sæti Páll Líndal lögfræðingur, formaður, Hrafn Harðarson bókasafnsfræðingur í Kópavogi og Ingimundur Einarsson bæjarlögmaður í Hafnarfirði, og áttu þeir að vinna drög að frv. Munu þeir hafa skilað þeim s.l. vor. Bókafulltrúi ríkisins, Stefanía Júlíusdóttir, fékk þau til umsagnar, en gerði margar athugasemdir við þau og taldi þau of langt frá hinum fyrri tillögum. Því hef ég nú leyft mér að bera fram að nýju fsp. á þskj. 47 sem hljóðar svo:

„1. Hvað líður athugun menntmrn. á tillögum nefndar sem skipuð var til að gera tillögur um uppbyggingu og aðsetur almenningsbókasafna 13. febr. 1980 og lauk störfum 12. okt. 1983?

2. Hyggst menntmrh. leggja fram frv. til l. um almenningsbókasöfn á þessu þingi?"