16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3085 í B-deild Alþingistíðinda. (2791)

341. mál, gildistaka staðgreiðslu opinberra gjalda

Fjármálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um gildistöku staðgreiðslulaga, þetta er 341. mál á þskj. 595.

Í framhaldi af framsögu fyrir frv. um staðgreiðslu opinberra gjalda annars vegar og breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt hins vegar er hér mælt fyrir frv. til laga um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í gildistökuákvæði staðgreiðslufrv. segir að þau lög komi eigi til framkvæmda fyrr en Alþingi hafi sett sérstök lög um gildistöku þeirra. Er frv. sem hér er til umræðu flutt til samræmis við þetta ákvæði.

Það er að sönnu nýmæli við lagasetningu hérlendis að setja sérstök lög um gildistöku annarra laga, en hefur tíðkast nokkuð í nágrannalöndum okkar þegar sérstaklega hefur staðið á og um viðamikla og vandasama löggjöf er að ræða. Við setningu laga um staðgreiðslu opinberra gjalda háttar mjög óvenjulega til þar sem til úrlausnar koma ýmis tímabundin atriði sem heyra munu sögunni til þegar breytingin úr núverandi innheimtuformi skatta yfir í staðgreiðslu verður um garð gengin. Með vísan til þess svo og hins að þessari breytingu tengjast tímabundin ákvæði í breyttum lögum um tekjuskatt og eignarskatt og tekjustofna sveitarfélaga þótti rétt að hafa þann hátt á að setja sérstök lög um gildistöku staðgreiðslulaganna þar sem tekið yrði á öllum atriðum sem tengjast breytingunni sem slíkri.

Þess má geta að í frv. til laga um staðgreiðslu skatta, sem lagt var fram á 104. löggjafarþingi 1981 og hæstv. þáv. fjmrh. mælti fyrir, var gert ráð fyrir sams konar tilhögun varðandi gildistökuna. Þar var einnig gert ráð fyrir sérstökum lögum um gildistöku staðgreiðslulaganna.

Það er ástæðulaust að hafa mörg orð um þetta frv. efnislega, það skýrir sig að flestu leyti sjálft. Í því kemur fram að almenna reglan varðandi launatekjur ársins 1987 verður sú að skattlagning á þær fellur alveg niður, sbr. 2. gr. frv. Þetta þýðir að öll venjuleg og eðlileg laun ársins 1987, sem eru tilkomin vegna vinnuframlags gjaldanda, verða skattfrjáls þótt þau verði að sjálfsögðu framtalsskyld við framtal í ársbyrjun 1988. Þó skal leggja á menn tekjuskatt og útsvar ef auknar launatekjur manns á árinu 1987 verða að mati skattstjóra ekki raktar til aukins vinnuframlags, aukinnar starfsábyrgðar eða stöðuhækkunar, eins og fram kemur í 3. gr. frv. Þetta ákvæði er hugsað sem varúðarráðstöfun gagnvart þeim sem hyggjast reyna að færa tekjur sem laun með óeðlilegum hætti án þess að vinnuframlag eða aðrar eðlilegar ástæður liggi að baki. Tekjur aðila í sjálfstæðum rekstri, svokallað reiknað endurgjald, geta aukist að raungildi um 25% á milli áranna 1986 og 1987 án þess að til skattlagningar komi, sbr. 4. gr. frv. Aukist þær meira eða fari fram úr viðmiðunartekjum samkvæmt viðmiðunarreglum ríkisskattstjóra í viðkomandi starfsgrein fyrir árið 1987 telst sú fjárhæð sem umfram er til yfirfærðra launatekna og skal þá skattleggjast. Sama gildir um launagreiðslur til manna frá lögaðila sem maðurinn er eigandi að ef hann getur með eignarhlutdeild sinni haft áhrif á fjárhæð launagreiðslna til sín, maka síns eða barna á árinu 1987.

Tekjuskatts- og eignarskattsálagningin 1988 verður í aðalatriðum framkvæmd eftir sömu reglum og gilda um álagningu á árinu 1987 að teknu tilliti til hugsanlegra breytinga á skattvísitölum í fjárlögum fyrir árið 1988 eða annarra breytinga sem gerðar kunna að verða í tengslum við gerð fjárlaga fyrir það ár. Þegar álagningin 1988 hefur farið fram með þessum hætti verður innheimta álagðs útsvars á launatekjur manna felld niður í samræmi við ákvæði í 2. gr. frv. Önnur álagning kæmi hins vegar til innheimtu með staðgreiðslu skatts af launatekjum manna á síðari hluta árs 1988, en gildistaka að öðru leyti miðast við að staðgreiðsla hefjist í ársbyrjun 1988.

Ég legg svo til, frú forseti, að þessu frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.og viðskn.