14.10.1986
Sameinað þing: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í B-deild Alþingistíðinda. (28)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Utanríkisráðherra (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það sem hæstv. iðnrh. sagði varðandi framkvæmd varnarsamningsins annars vegar og svo varðandi uppsögn hans, sem hér hefur aðeins borið á góma, sem hann undirstrikaði að hann væri andvígur, þá er að sjálfsögðu við hvert tækifæri sem mögulegt er endurskoðuð öll framkvæmd eftir því sem hún á sér stað. Það verður að sjálfsögðu ævinlega svo að vera, einfaldlega vegna þess að það eru breyttar aðstæður, það eru breyttir tímar og það verður ævinlega að skoða málin með tilliti til þess hvaða breytingar hafa átt sér stað.

Auðvitað viljum við vinna þannig að málum á alþjóðavettvangi að herseta á Íslandi þurfi ekki að vera til eilífðar. En það liggur ljóst fyrir, eins og kom fram hjá hæstv. iðnrh., hvað snertir það varnar- og öryggissamstarf sem við erum og höfum verið í síðan 1949 að það er því miður ekki ástæða til annars en sinna því og ef til vill sinna því nú fremur en nokkru sinni áður.

Þessi samningur, eins og hæstv. iðnrh. sagði, er samningur þar sem báðir hafa, eins og hann orðaði það, sigrað. Jafnvel íþróttakempan talaði um að báðir sigruðu sem alltaf vildi og hefur viljað sigra sjálfur og var gjarnan með þau úrslit þar sem hann tók þátt í leikjum. En það er vissulega rétt, sem hann sagði, að það var gengið til þess að leysa þessi mál þannig að báðir gætu vel við unað. Ég vonast til þess að þeir, sem eru þess sinnis að þessi samningur eigi að öðlast gildi, séu þeirrar skoðunar að við höfum verið að gera samning þar sem báðir aðilar geti staðið upp keikir.

Við erum að vísu, eins og hæstv. iðnrh. sagði, að gera samning þar sem verið er að semja undan bandarískum lögum. Við höfum óskað eftir því að við gætum gert fríverslunarsamning við Bandaríkin. Alþingi samþykkti það í fyrra. Til hvers er það? Það er til þess að fá samning sem undanþágu frá ákveðnum einokunarlögum Bandaríkjanna í sambandi við viðskipti. Það er það sem við höfum verið að gera og erum að gera þegar við erum að gera tvíhliða samninga. En það er vissulega rétt að þessi samningur er samningur um undanþágu frá bandarískum lögum en ekki, eins og hv. 5. þm. Austurl. var að ræða um, samningur um gin- og klaufaveiki. Hv. 3. þm. Reykn. benti réttilega á um hvað hér væri verið að semja og hversu samlíkingin sem hv. 5. þm. Austurl. gerði væri víðs fjarri öllum þeim raunveruleika sem um ræðir. (SvG: Það verður að skýra nánar 4. gr.) Hún skýrir sig sjálf, 4. greinin, og liggur ljóst fyrir að hér eru engin þau lög eða þær reglur sem hindra framkvæmd þessa samnings og ég trúi ekki að hv. þm. geti bent á eitt eða neitt í þeim efnum. Hins vegar, fyrir alla þá sem vilja skoða málið, hefur málið legið fyrir um langan tíma og þegar það yrði skoðað í utanrmn. er að sjálfsögðu auðvelt þar sem einhvers staðar leikur vafi á að aðilar komi fram með sínar athugasemdir. Hér er verið að semja um að undanþága sé gerð hjá Bandaríkjastjórn um lögin frá 1904.

Um ræðu hv. 5. þm. Austurl. langar mig að fara nokkrum orðum þó að ég vilji ekki tefja umræður mjög. Ég gat þess þegar þessi samningur var gerður að í honum væri ekkert sem krefðist þess að hann væri lagður fyrir Alþingi. Það liggur ljóst fyrir einfaldlega vegna þess að um lagasetningu er ekki að ræða. Ég gerði ráðstafanir til að fá umsögn virts lögfræðings um málið og sú varð niðurstaðan og það mun verða lagt fram á utanríkismálanefndarfundi þegar um tillöguna verður fjallað. Niðurstaða þessa lögfræðings, sem er Baldur Möller, fyrrverandi ráðuneytisstjóri, er sú að óþarfi sé að leggja samninginn fyrir Alþingi undir þessum kringumstæðum. Síðan er vikið að því að það hafi oft verið gert, að leggja slíka samninga fyrir Alþingi til staðfestingar, og út frá því sjónarmiði er þessi samningur lagður fram á Alþingi.

Í ræðu hv. þm. kom fram að eitthvað hefði verið gefið í skyn. Mér er ekki ljóst hvaðan þessi hv. þm. hefur það að eitthvað hafi verið gefið í skyn í sambandi við varnarsamninginn. Það má vel vera að hann hafi góð sambönd, en ég segi: þau sambönd sem hann hefur eru slæm. Það var hvergi og aldrei gefið í skyn neitt það sem hann vildi dylgja með í sinni ræðu.

Síðan vék hann að forustu Sjálfstfl. sem einu sinni var og grét hana nú á þingi. Öðruvísi mér áður brá í þeim efnum þegar þeir ágætu menn sátu á þingi og töluðu í sambandi við öryggis- og varnarmálin. En mitt sjónarmið er ljóst. (HG: Lengi getur vont versnað.) Lengi getur vont versnað, sagði hv. þm., og það er alveg rétt. Ég kem að því á eftir, þegar ég vík að 30 milljörðunum hans og öllu því, að þar gæti kannske eitthvað verið sem hv. þm. gleymdi og kunni þá ekki söguna nógu vel eða a.m.k. vildi ekki rifja hana upp nógu langt aftur. Það liggur alveg ljóst fyrir að við erum ekki með varnarlið til þess að bindast því einum eða öðrum böndum efnahagslega séð, síður en svo, og að sjálfsögðu viljum við halda þeirri stefnu. Það eru hins vegar ýmsir hlutir sem eru eðlilegir fyrir íslensku þjóðina, eins og að hafa frjálsar siglingar. Það er okkur nauðsynlegt og á þeim grundvelli er slíkur samningur gerður. Ég er alveg sama sinnis og forveri minn í þessum málum. Einmitt það að hér væru frjálsar siglingar, hér væru menn í þeirri aðstöðu að það væri samkeppni sem réði því, var sjónarmið hans í þessum efnum. Það er sjónarmið mitt. Í sambandi við svokallaða aronsku, eins og hv. þm. nefndi, höfum við verið og erum sammála í þeim efnum, fyrrv. utanrrh. og ég.

Hv. 3. þm. Reykn. er búinn að lýsa snilldarlega fyrir þingheimi þegar hv. 5. þm. Austurl. brá sér út í himingeiminn og þeirri samlíkingu sem hann gerði og þá var komið að dollurunum sem hv. þm. talaði um. Þá var vikið að því að allt væri gert fyrir dollara og þá var vikið að ákveðnum málum. Þá var talað um geimvarnaáætlun, talað um 30 milljarða dollara o.s.frv. Það sem menn væru að gera væri allt gert fyrir dollara. Ég kannast ekki við að hér sé verið að sinna málefnum á þeim grundvelli, en þessi hv. þm. virtist ekkert muna eftir því sem gerðist hér á árunum 1956-58 þegar 30 silfurpeningarnir voru nefndir og ýmislegt var látið niður falla af því að það voru dollarar. Hverjir voru þá hér við stjórnvöl? Var það ekki flokkur hv. þm. sem sat í ríkisstjórn þá? Það var ekki verið að stugga við varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Nei, takk fyrir. Það var hótað. Og hvað þýddi hótunin? Það fengust dollarar og það var tekið við þeim af flokksbræðrum þessa hv. þm. Mér finnst skörin vera farin að færast upp í bekkinn þegar þeir menn, sem þannig hafa hagað sér, eru farnir að brigsla öðrum um mútur og þegar verið er að ganga til samkomulags um eðlileg viðskipti sé það gert á mútur forsendum.

Hv. þm. lýsti miklum vonbrigðum sínum með þennan samning og sagðist ekki mundu greiða honum atkvæði. Það kom mér að vísu ekki á óvart, en allt í einu var hann farinn að bera hagsmuni skipafélagsins bandaríska fyrir brjósti og vildi að ég stæði honum reikningsskil á einhverri umsögn forustumanna skipafélagsins. Ég met svo að það sé ekki í mínum verkahring að útskýra það, en hv. þm. reynir að sjálfsögðu að afla sér upplýsinga hjá þeim aðilum sem það sögðu til þess að hann geti metið þá umsögn.

Hv. þm. ræddi um óhugnanlega auðhyggju sem tengdi herinn hér við land og á forsendum þess m.a. væri þessi samningur gerður. Ég vísa því alfarið á bug og tel ekki að hér sé verið að fá fram samþykkt á samningi undir neinum öðrum kringumstæðum en að siglingar til og frá landinu séu í höndum Íslendinga sem er eðlilegt. Þær voru það. Það er verið að leiðrétta það, en það hefur þurft að gera það með þessum hætti.

Hv. þm. spurði m.a. um hvað yrði um uppskipunina og sú spurning kom enn fremur frá hv. 3. þm. Reykn. Kjartani Jóhannssyni. Hv. 3. þm. Reykn. vék að bréfi sem hann og hv. 6. landsk. þm. Karl Steinar Guðnason rituðu forvera mínum þess efnis að þess væri gætt í sambandi við samning varðandi siglingarnar að Njarðvíkurhöfn yrði ekki látin líða fyrir það. Við höfum í sameiningu, þm. þess kjördæmis, reynt að gera einmitt höfnina í Njarðvík færa um að sinna þessum málum, hvort heldur það hefur verið með því að gera hana þannig trygga fyrir skipum eða þá aðstöðu í þeim efnum og ég get fullvissað hv. 5. þm. Austurl., eins þá félaga mína í Reykjaneskjördæmi, að ég er fyrir löngu búinn að gera þeim aðilum sem koma til með að sigla með vörur hingað grein fyrir því að þar sé að sjálfsögðu eðlilegasta uppskipunarhöfn vegna varnarsvæðisins. Undirtektir þessara manna við það sem ég hef sagt hafa verið jákvæðar. Þetta hefur komið fram í blöðum þar syðra einfaldlega vegna þess að það eru ekki bara þm. sem hafa haft af þessu vissar áhyggjur heldur og sveitarstjórnarmenn þar syðra sem hafa látið frá sér heyra. Að sjálfsögðu koma þessi mál til með að verða með þeim hætti sem ég sagði áðan.

Hv. 9. þm. Reykv. vék einmitt að því að hv. 5. þm. Austurl. var með dylgjur um hótun. Það er vissulega rétt að undirstrika það sem kom fram hjá honum. Hér var aldrei um neina hótun að ræða heldur samstöðu Íslendinga gegn því með hvaða hætti haldið hafði verið á málinu af hálfu Bandaríkjamanna. Það var sú samstaða sem vissulega ýtti á að þessi mál voru skilin með öðrum hætti en hafði verið.

Ég tel ekki að það sé ástæða fyrir mig að fara fleiri orðum um þessa þáltill. Ég vænti þess að utanrmn. fjalli um hana að þessari umræðu lokinni. Það er ljóst mál af því sem hér er komið fram að fyrir málinu er mikill meiri hluti í þinginu. Þó eru einhverjir þeir til sem ekki vilja stuðla að því að íslensk skipafélög og, eins og fram kom hjá 3. þm. Reykn., íslenskir sjómenn fái tækifæri til að auka siglingar sínar á milli landa. Að rugla þessum samningi saman við geimvarnaáætlun eða öryggis og varnarmál Vestur-Evrópu kemur að sjálfsögðu aldrei til greina.