16.02.1987
Efri deild: 40. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3097 í B-deild Alþingistíðinda. (2801)

119. mál, umferðarlög

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, en það var aðeins vegna orða hv. 5. þm. Vesturl. Ég vil byrja á að þakka honum fyrir góðar undirtektir við brtt. okkar á þskj. 614, en hann gerði samt sem áður athugasemd og taldi að þessi brtt. gæti hugsanlega skarast við verkefni Umferðarráðs. Það held ég að sé á misskilningi byggt því að þessar brtt. báðar fjalla einmitt um að auðvelda Umferðarráði að sinna sínu hlutverki með því að afla upplýsinga annars vegar með samræmingu á slysaskráningu og hins vegar með rannsóknum á hinum ýmsu þáttum umferðarslysa, enda er síðasta setningin í brtt. á þá leið að Umferðarráð skuli hafa eftirlit með störfum nefndarinnar. Þessi nefnd á sem sagt að heyra undir Umferðarráð.