16.02.1987
Neðri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3103 í B-deild Alþingistíðinda. (2810)

336. mál, deilur menntamálaráðuneytisins og fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra

Ólafur G. Einarsson:

Hæstvirtur forseti. Ég flyt nú þegar við 1. umr. þessa máls till. til rökstuddrar dagskrár. Till. hljóðar svo:

„Dómstólar eiga einir úrskurðarvald um það, hvort frávikning fyrrverandi fræðslustjóra Norðurlandsumdæmis eystra hafi verið réttmæt að lögum, sbr. 2. mgr. og 3. mgr. 11. gr. laga nr. 38/1954, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Fyrrverandi fræðslustjóri hefur þegar vísað máli þessu til meðferðar dómstóla í samræmi við þessa heimild, með stefnu útgefinni 12. febr. s.l. Menntmrn. hefur með bréfi dags. 5. febr. og ítrekað 9. febr. fallist í meginatriðum á hugmyndir fræðsluráðs Norðurlandsumdæmis eystra, er verða mættu til þess að bæta samskipti menntmrn. og fræðsluráðs. Í bréfum þessum lýsir ráðuneytið sig reiðubúið til þess að fallast á skipun nefndar, sem fjalla eigi um störf fræðsluráðs og fræðsluskrifstofu og samskipti þeirra aðila við menntmrn. Þá hefur ráðuneytið fallist á að umsóknarfrestur um stöðu fræðslustjóra Norðurlandsumdæmis eystra verði framlengdur að ósk fræðsluráðsins. Með vísan til framanritaðs telur deildin rétt að vísa máli þessu frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá.“

Í sjálfu sér er ekki þörf á að bæta hér miklu við. Till. skýrir sig sjálf. Nefnd eru þau atriði, sem ættu að duga til þess að hv. alþm. gætu greitt till. atkvæði sitt.

Í fyrsta lagi er nefnt að dómstólar eigi einir úrskurðarvald um það, hvort frávikning fræðslustjórans hafi verið réttmæt að lögum. Í því sambandi er vísað í 2. og 3. mgr. 11. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í 2. mgr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Rétt er þeim er vikið er úr stöðu að bera málið undir úrlausn dómstóla, enda fari rannsókn slíks máls að hætti opinberra mála. Stefna skal fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs.“

Fyrrverandi fræðslustjóri hefur þegar notað sér þennan rétt sinn með stefnu útgefinni 12. þ.m. eins og segir í rökstuddu dagskránni. Það sýnir, að hann hefur gleggri skilning á því en flm. þessa frv., hvaða leiðir eru eðlilegar fyrir hann að fara.

Ég les það líka út úr þessari ákvörðun fræðslustjórans fyrrverandi, að hann kærir sig ekki frekar um leiðsögn þeirra, sem nota nú hans nafn í keppninni um atkvæði kjósenda í Norðurlandskjördæmi eystra, um leið og þeir eru að reyna að koma höggi á hæstv. menntmrh.

Framangreindur skilningur, þ.e. að dómstólar einir eigi úrskurðarvald um réttmæti frávikningar, er áréttaður með ákvæðum 3. mgr. 11. gr. laganna en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú er stöðumissir úrskurðaður óréttmætur og fer þá um bætur til aðila eftir úrskurði dómstóla nema hlutaðeigendur hafi komið sér saman um annað.“

Af þessu lagaákvæði er ljóst að úrskurður um það, hvort frávikning fyrrverandi fræðslustjóra Norðurlandsumdæmis eystra hafi verið réttmæt að lögum, er einvörðungu í höndum dómstóla. Samkvæmt stjórnarskránni fara dómendur með dómsvaldið í landinu og þetta vald verður ekki af þeim tekið nema með stjórnarskrárbreytingu. Löggjafanum er því óheimilt að fara inn á svið dómstólanna t.d. með þeim hætti sem hér um ræðir, þ.e. með því að setja lög um tiltekið sakarefni sem dómstólum einum ber að úrskurða um á grundvelli þeirra réttarfarsreglna sem lög tiltaka.

Önnur meginástæða fyrir dagskrártillögu þessari er að menntmrn. hefur þegar með bréfi dags. 5. þ.m. og ítrekað þann 10. fallist í meginatriðum á hugmyndir fræðsluráðs Norðurlandsumdæmis eystra, er verða mættu til þess að bæta samskipti ráðuneytisins og fræðsluráðsins og fræðsluskrifstofunnar. Fræðsluráðið hefur ekki tekið efnislega afstöðu til þessara bréfa ráðuneytisins, en í þeim kemur fram vilji ráðuneytisins til að fallast á skipan nefndar sem fjalla eigi um störf fræðsluráðs, þar með talin störf fræðsluskrifstofu, og samskipti ráðsins við menntmrn. Starf þessarar nefndar skyldi við það miðað að gera tillögur til ráðuneytis og fræðsluráðs um það hvernig samskiptum þessara aðila verði best hagað í framtíðinni. Þá hefur ráðuneytið einnig fallist á að umsóknarfrestur um stöðu fræðslustjóra Norðurlandsumdæmis eystra verði framlengdur að ósk fræðsluráðsins.

Þetta eru þau rök sem dagskrártillagan byggir á. Fleira mætti auðvitað nefna, svo sem það að samkvæmt gildandi lögum hefur ráðherra vald til að víkja embættismanni frá störfum að fullu, án þess á undan sé gengin frávikning um stundarsakir. Þetta eru staðreyndir. Og þetta vald verður ekki tekið af ráðherra nema með breytingu á þeim lögum sem hér um ræðir, þ.e. lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Herra forseti. Ég þarf ekki að fara um þetta mál mikið fleiri orðum. Ég ræði ekki um ástæður þær sem lágu að baki þeirri ákvörðun hæstv. menntmrh. að víkja fræðslustjóranum úr starfi. Ég ræði heldur ekki hvort flm. frv. úr þingflokki framsóknarmanna séu að fremja einhver meiri háttar afglöp með flutningi þessa frv. sem stuðningsmenn núverandi hæstv. ríkisstjórnar. Á þessu stigi, og úr því sem komið er, kemur það ekki málinu við. Varnarræða hv. 1. flm. frv. áðan vegna þess að hann hefur glapist til að flytja þetta mál í frumvarpsformi inn á Alþingi breytir heldur ekki þeirri skoðun minni að flutningur þessa frv. er í hæsta máta óskynsamleg athöfn ef ekki hreinlega óþingleg.

Dagskrártillaga mín er flutt með þeim rökum sem ég hef hér greint frá og þessi rök koma fram í till. sjálfri. Mér sýnist að Alþingi hafi þarfari málum að sinna en þessu. Auk þess er óþarft og óviðeigandi að ræða þetta mál hér frekar, þegar af þeirri ástæðu, að fræðslustjórinn fyrrverandi hefur valið máli sínu þann farveg sem eðlilegur er og lög segja til um, þ.e. hann hefur þegar stefnt hæstv. fjmrh. vegna málsins. Sérstök lagasetning er þess vegna misskilningur svo ekki sé fastar kveðið að orði. Því er þessi dagskrártillaga flutt, hæstv. forseti. Hún er skrifleg og afhendist hér með.