16.02.1987
Neðri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3110 í B-deild Alþingistíðinda. (2813)

336. mál, deilur menntamálaráðuneytisins og fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Mig langar til að láta nokkur atriði koma skýrt fram í þessari i. umr. Þingflokkur Kvennalistans var sammála um að eiga aðild að flutningi þessa frv. og gerðist hv. þm. Kristín Halldórsdóttir meðflm. Hv. 1. flm. frv. sagði í framsöguræðu sinni að flm. væru þeirrar skoðunar að hæstv. menntmrh. hefði ekki haft ástæðu til að víkja fræðslustjóra í Norðurlandsumdæmi eystra úr starfi. Kvennalistakonur hafa ekki haldið því fram. Við höfum sagt að við tækjum ekki afstöðu til þess. Það væri í raun ekki unnt því um málsatvik stæði fullyrðing gegn fullyrðingu. Þess vegna viljum við láta fara fram hlutlausa rannsókn málsins og teljum þann hátt sem hér er hafður á heppilegan. Hins vegar höfum við mikið við vinnubrögð hæstv. menntmrh. að athuga í þessu máli. Af þessum ástæðum og á þessum forsendum tökum við þátt í flutningi þess frv. sem hér er til umræðu og mér finnst fráleitt að því verði vísað frá.