16.02.1987
Neðri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3110 í B-deild Alþingistíðinda. (2814)

336. mál, deilur menntamálaráðuneytisins og fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um skipun nefndar utanþingsmanna er rannsaki deilur menntmrn. og fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra. Hv. þm. Ólafur G. Einarsson hefur borið fram till. til rökstuddrar dagskrár í málinu. Sú till. er fyrst og fremst um málsmeðferð, þ.e. að frv. verði vísað frá með þeim rökstuðningi sem fram kemur með þessari till. til rökstuddrar dagskrár. Meginrökstuðningurinn í frávísunartillögunni er að málinu hafi þegar verið vísað til meðferðar hjá dómstólunum, en á það ber að líta í því sambandi að dómstólarnir muni einungis fjalla um einn þátt þessa máls, þ.e. fyrst og fremst réttmæti brottvikningar fræðslustjórans úr starfi og valdsvið ráðherra að lögum til að víkja manni úr starfi, en á það eru ekki bornar brigður í þeim till. sem fram hafa verið lagðar hér á Alþingi í þessu máli. Till. sem liggja fyrir Alþingi vefengja ekki formlega vald ráðherra, en aftur á móti taka þessar till., þar á meðal það frv. sem hér er til umfjöllunar, á öðrum mikilvægum þáttum þessa máls sem ég tel að dómstólar muni ekki fjalla um. Það eru í fyrsta lagi samskiptaörðugleikar sem verið hafa á milli fræðsluyfirvalda Norðurlandsumdæmis eystra og menntmrn. og í annan stað framkvæmd grunnskólalaganna, einkum sérkennslunnar, og í þriðja lagi kannske ástæðurnar fyrir brottvikningu fræðslustjóra. Þó lögmæti brottvikningarinnar sé fyrir dómstólunum er það ekki ásættanleg niðurstaða að mínu mati fyrir Alþingi og ekki efnisleg niðurstaða, sem menn geta sæst á, að vísa málinu einungis til dómstólanna.

Ég tel að í ljósi þess sem ég hef hér sagt séu engin rök fyrir að samþykkja þá frávísun sem hér hefur verið borin fram. Ég tel að þetta frv. eigi að fá umfjöllun í nefnd og fyrir því eigi að greiða hér í deildinni. Þó ég segi þetta er ég þar með ekki að taka efnislega afstöðu til einstakra atriða í frv. sem hér er til umfjöllunar. Ég tel að það séu margir gallar á frv. því sem fram hefur komið og hér er til umræðu.

Í fyrsta lagi tel ég að miðað við stöðu og gang mála hefði tillöguflutningur á Alþingi átt að taka mið af sjónarmiðum og hugmyndum beggja deiluaðila í málinu. Við skulum athuga að hæstv. menntmrh. hafði lengst af staðið mjög fast á þeirri afstöðu sinni að málið yrði ekki rannsakað eða athugað í nefnd. Ég tel að þegar fyrir lá hjá hæstv. ráðh. það sem ég vil kalla opnun í málinu, að hann lagði til skipan tveggja manna nefndar sem fjallaði um málið, einn frá menntmrn. og einn frá fræðsluyfirvöldum, ásamt því að hann féllst á að framlengja umsóknarfrest um stöðu fræðslustjórans, þá hafi verið alveg ný viðhorf uppi í málinu, sem ég tel að fræðsluyfirvöld í Norðurlandi eystra og þm. á hv. Alþingi, sem hugðu á tillöguflutning í málinu, hefðu átt að fylgja vel eftir. Hugmyndir ráðherra í þessu máli um skipan nefndar og að framlengja umsóknarfrestinn voru hvergi nægjanlegar. En það var þó opnun í málinu.

Till. sem ég hef ásamt fleiri þm. Alþfl. lagt fram í þessu máli taka einmitt mið af þeirri stöðu sem uppi var og þeirri opnun sem ráðherra gaf í málinu. Ég tel að menn verði, svo lengi sem þetta mál hefur verið hér til umræðu á Alþingi, að horfa á stöðuna og hvernig hægt væri að ná árangri í þessu máli, hvernig hægt er að ná fram niðurstöðu sem líkur eru á að hafi framgang hér á hv. Alþingi. Ég tel að það frv. sem hér er til umræðu nái ekki þeim tilgangi sem ég hef lýst, en tel aftur á móti að sú till. til þál. sem ég hef borið fram ásamt tveimur öðrum þm. Alþfl. um úttekt á samskiptum menntmrn. og fræðsluumdæmis Norðurlands eystra nái þeim tilgangi. Hún tekur í fyrsta lagi á því að það verði skipuð þriggja manna nefnd, það verði einn oddamaður í nefndinni, tilnefndur verði fulltrúi frá fræðsluráði Norðurlandsumdæmis eystra, frá menntmrn. og síðan verði formaður nefndarinnar tilnefndur af Ríkisendurskoðun. Nefndin hafi það hlutverk að kanna alla þætti þessa máls er varða þá deilu sem upp er komin milli fræðsluráðs og menntmrn. eftir því sem henni þykir ástæða til, þar á meðal réttmæti brottvikningar fræðslustjóra umdæmisins úr starfi. Nefndin hafi fullan rétt til allra upplýsinga frá opinberum aðilum og einstaklingum eftir því sem nauðsynlegt reynist til að skýra málið í heild sinni og einstök atvik þess og semji skýrslu um störf sín og verði hún birt opinberlega.

Það lá fyrir að menntmrh. hafði þegar fallist á nefndarskipun. Það lá fyrir að hann hafði þegar fallist á að framlengja uppsagnarfrestinn. Um hvað er þá ágreiningurinn milli fræðsluyfirvalda Norðurlandsumdæmis eystra og menntmrh. eða menntmrn.? Ég tel að ágreiningurinn sé nú fyrst og fremst um hlutverk nefndarinnar og hvort nefndin eigi að kanna ástæður og réttmæti brottvikningarinnar. Einnig hvort birta eigi skýrsluna opinberlega. Um þessi atriði hefur ekki náðst samkomulag. Ég tel að Alþingi gæti tekið einmitt á því máli. Þess vegna tel ég til að mynda að þetta mál eigi að fá þá umfjöllun að það eigi að skoðast í nefnd ásamt öðrum þeim tillögum sem fyrir liggja í þessu máli. Ég er til að mynda ekki sammála því, sem fram kemur í því frv. sem hér er til umfjöllunar, að Hæstiréttur tilnefni í þessa nefnd vegna þess að ég tel óheppilegt að Hæstiréttur gerist óbeinn aðili málsins þar sem málinu kann að verða vísað til Hæstaréttar á síðari stigum.

Ég tel að það sé ekkert meginatriði í þessu máli hvort það sé frv. eða þáltill. sem verður samþykkt í þessu efni, en ég tel að það þurfi að sníða af ýmsa agnúa sem eru á þessu frv. ef þm. á annað borð hallast að því að sú leið sé rétt að samþykkja frv. eða lög í þessu efni. Þó teldi ég heppilegra að fara þá leið sem fram kemur í þáltill. um að það verði gerð úttekt á samskiptum menntmrn. og fræðsluumdæmis Norðurlands eystra eins og í till. sem ég hef greint frá kveður á um.

Mín lokaniðurstaða er sú að þó lögmæti brottvikningar fræðslustjórans sé nú fyrir dómstólunum sé það aðeins einn þáttur þessa máls og það er kannske kjarni þessa máls sem þm. verða að hafa í huga. Þess vegna tel ég ekki nægileg rök eins og til að mynda hæstv. forsrh. hér áðan að þar sem málinu hafi verið vísað til dómstólanna þurfi Alþingi í raun ekki að fjalla um það. Ég tel að miðað við gang mála þurfi að skoða þetta mál í miklu víðara samhengi, skoða þá samskiptaörðugleika sem hafa verið fyrir hendi milli menntmrn. og fræðsluyfirvalda og á því máli muni dómstólarnir ekki taka.

Ég tel því að það séu engin rök fyrir þeirri frávísun sem hér hefur verið borin fram og ég mun greiða atkvæði gegn henni.