16.02.1987
Neðri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3112 í B-deild Alþingistíðinda. (2815)

336. mál, deilur menntamálaráðuneytisins og fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra

Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Út af þeim orðum sem tveir síðustu ræðumenn hafa látið falla vegna athugasemdar minnar áðan vil ég láta það koma skýrt fram að ég á að sjálfsögðu við seinni hluta 1. gr. þegar ég tala um að óeðlilegt kunni að vera að Hæstiréttur skipi nefnd, en þar segir:

„Hæstiréttur skipar nefnd fimm manna utan Alþingis til að rannsaka hvort menntmrh. hafi haft fullgildar ástæður til að víkja fræðslustjóra umdæmisins úr starfi.“

Ég veit að þetta er að sjálfsögðu það sem fræðslustjóri spyr núna dómstólana að eftir stefnu hans 12. febr., þ.e. daginn eftir að frv. er lagt fram. Ég ræddi núna við forseta Hæstaréttar sem sagði mér að mér væri heimilt að hafa það eftir honum að hann teldi þetta í fyllsta máta óeðlilegt eftir að málið er orðið dómsmál. Hann tók að vísu fram að hann talaði ekki fyrir hönd Hæstaréttar sem slíks.