16.02.1987
Neðri deild: 43. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3112 í B-deild Alþingistíðinda. (2816)

336. mál, deilur menntamálaráðuneytisins og fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu er tvíþætt. Annars vegar er það viðkvæmt persónulegt mál gagnvart þeim einstaklingum sem í hlut eiga. Hins vegar snertir þetta mál uppbyggingu fræðslumála hér á landi. Það er til að mynda athyglisvert að nú, þrem árum eftir að fyrrv. hæstv. menntmrh. Ingvar Gíslason, sem var á árunum 1971-1974 einn helsti hvatamaður þess að upp yrði tekin nýskipan fræðslumála í því formi sem þau eru nú með fræðsluskrifstofunum úti á landi, skuli með frv. leggja til að sérstaklega skuli skipuð fimm manna nefnd eftir tilnefningu Hæstaréttar til að athuga hvernig háttað sé aðstöðu einstakra fræðsluumdæma til að framfylgja ákvæðum laga og reglugerða um sérkennslu og önnur atriði er snerta framkvæmd gildandi skólamálastefnu eftir því sem við verður komið. Ég álít að það sé engin tilviljun að einmitt þessi orð skuli vera í því frv. sem hér liggur fyrir. 1. flm. þessa frv. þekkir það mjög náið af starfi sínu sem menntmrh. að það komu upp á þeim tíma ýmsir framkvæmda- og sambúðarerfiðleikar milli menntmrn. og hinna einstöku fræðsluskrifstofa vegna þess tvíeðlis fræðslustjórans að eiga fyrst og fremst að vera trúnaðarmaður menntmrh. bæði varðandi undirbúning fjárlaga fyrst og síðan átti hann að fylgjast með framkvæmd fjárlaganna, framkvæmd skólastarfsins og vera á hverjum tíma úrskurðaraðili einstakra skólastjóra og skólanefnda um það hvort viðkomandi embættismenn hefðu haldið sig innan þess ramma sem lög, reglugerðir og fjárlög heimiluðu á hverjum tíma eða hvort þessir skólamenn ráku sínar stofnanir á ábyrgð sveitarfélaganna.

Ég veit það að þessi fyrrv. hæstv. menntmrh. átti í vissum sambúðarerfiðleikum sem hljóta að valda því að hann gerir sér gleggri grein fyrir því en aðrir að þessi löggjöf, eins og frá henni var gengið, var meingölluð strax í upphafi. Og ég held að við getum öll, sem höfum kynnt okkur þessi mál náið, sannfærst um að eðli deilunnar milli fræðsluráðs Norðurlandsumdæmis eystra, ekki aðeins í tíð þessa menntmrh. heldur einnig í tíð fyrri menntmrh., eigi rætur sínar að rekja til þess að sá fræðslustjóri sem þar hefur verið nú um mörg undanfarin ár hefur fremur viljað líta á sig sem fulltrúa fræðsluráðsins en menntmrh. í þeirra skiptum.

Það er enginn vafi á því að þessi einstaklingur er mikill hugsjónamaður um einstaka þætti kennslumála. Ég vil sérstaklega taka fram að hann hefur verið mikill baráttumaður fyrir því að sérkennsla sé aukin og komið sé til móts við ýmsa þá sem sérstakrar hjálpar eru þurfi í skólastarfi. Þessi starfsemi er mjög ný af nálinni. Þegar ég hætti að kenna á Akureyri á árinu 1976 var þessi starfsemi rétt að hefjast. Hún var í burðarliðnum. Þó voru þess þá nokkur dæmi að einstakir nemendur í gagnfræðaskóla væru teknir til sérstakrar meðhöndlunar, fengu sérstaka aðstoð, en eins og hæstv. menntmrh. hefur gert ítarlega grein fyrir og eins og við munum sem sátum á vorþinginu 1974 var einmitt þetta atriði sérstaklega rætt og niðurstaðan varð þá sú hér í sölum Alþingis að inn í lagabókstafinn sjálfan skyldi tekið að við stuðnings- og hjálparkennslu, við sálfræði- og ráðgjafarþjónustu bæri fræðsluumdæmunum að halda sig nákvæmlega innan þeirra marka sem fjárlög ákvæðu á hverjum tíma og auðvitað aukafjárveitingar ef réttilega er að þeim staðið.

Ég vil sérstaklega taka fram í þessu samhengi, eftir að hafa kynnt mér rækilega þau gögn sem lúta að sérkennslunni, nota þetta sérstaka tækifæri til að þakka hv. 10. landsk. þm. Guðrúnu Helgadóttur fyrir ég vil segja þarfa áminningu í minn garð í Þjóðviljanum ekki alls fyrir löngu um það að ég hafi ekki staðið mig sem skyldi í sambandi við sérkennsluna og ég eigi að líta til hv. þm. Steingríms Sigfússonar til að sækja mér fyrirmynd í þeim efnum. (GHelg: Það er rétt.) Það hafði dottið úr minni mínu hvert hefði verið hans sérstaka framlag svo að ég spurði hann að því áðan hvernig brtt. hans við fjárlög hefði aftur verið varðandi sérkennsluna. Hann mundi það ekki heldur, en kannske hv. þm. geti minnt okkur Steingrím á hvert sé hans sérstaka framlag til sérkennslumálanna. Ég mun svo sannarlega reyna eftir megni að afla mér upplýsingar um hans mikla starf. Ég hef rætt það við nokkra skólamenn fyrir norðan að ef þeir séu óánægðir með það sem ég hef um þetta mál að segja skuli þeir snúa sér til Steingríms.

Það er auðvitað öldungis ljóst að við getum lengi aukið persónulega aðstoð við þá sem eru hjálparþurfi í skólastarfi. Fyrrv. hæstv. menntmrh. Ragnhildur Helgadóttir lagði sig fram um að auka þennan þátt og má kannske finna að því að hún skyldi á þeim tíma heimila frekari kennslu en í fjárlögum voru veittar heimildir til. Þessi kennsla hefur vaxið mjög á undanförnum árum. Ég veit auðvitað vegna kunnugleika míns á hv. 1. þm. Norðurl. e. Ingvari Gíslasyni að hann var líka mikill áhugamaður um sérkennsluna þegar hann var menntmrh. Og kannske er það einmitt af þeim sökum, þegar hann lítur yfir farinn veg og sér sín sjaldan getið í sambandi við sérkennslumálið, að hann biður sérstaklega um að Hæstiréttur geri úttekt á því hverjir hafi þar sérstaklega komið við sögu.

Ég held að staðreyndin sé sú að öll viljum við, sem á Alþingi sitjum hverju sinni, leggja fram miklu meira fé en raun hefur orðið á til margvíslegra mála, líknarmála, til þess að koma til móts við þá sem verr eru settir en við höfum treyst okkur til. Og þetta á ekki einungis við um þennan þátt skólastarfsins. Ég vil taka undir með hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrími J. Sigfússyni þegar hann segir að þau svör sem menntmrn. gaf varðandi fsp. hans um sérkennsluna segi ekki alla sögu, enda er ég ekki alveg viss um að spurt hafi verið þannig að svarið gæfi tilefni til þess að öll sagan yrði sögð.

Sérkennsla, stuðningskennsla, við vitum að í eðli sínu er um kannske hliðstætt en þó ekki hið sama að ræða og við vitum að í sumum tilvikum eru möguleikar á því að taka kvóta frá almennri kennslu þar sein sérstaklega stendur á, vegna þess kannske að hæfa kennara vantar t.d. í tónlist, hússtjórnarfræðum eða einhverju öðru. Þá er kannske hægt að nýta almennan kennslukvóta til hjálparkennslunnar.

Við vitum líka að þær mörgu sérstofnanir sem í Reykjavík eru skekkja þessa mynd. Það er augljóst að hér eru stofnanir sem ekki eru til annars staðar á landinu. Það er jafnframt augljóst að þar sem læknisþjónusta er almennt meiri en annars staðar, við getum tekið Reykjavík sem dæmi, skapast sjálfkrafa meiri þörf fyrir hjálparkennslu en á öðrum stöðum þar sem um slíka heilbrigðisþjónustu er ekki að tefla. Með sama hætti er augljóst að á stöðum eins og Akureyri með þá fjölþættu sjúkraþjónustu, heilbrigðisþjónustu sem þar er, með þeim mörgu menntuðu sérkennurum sem þar eru, eru auðvitað sjálfu sér samkvæmt líkur til að meiri þörf sé sérkennslu en annars staðar. Allt þetta vitum við.

Við vitum líka að ekki gefur raunhæfa mynd að líta einungis á tölur varðandi sérkennsluna vegna þess að foreldrar sem eiga mjög veik börn geta neyðst til að flytja á milli staða af þeim sökum. En ég vil að það komi alveg skýrt fram að eftir því sem ég hef kynnt mér betur þessa sérstöku starfsemi er ég meiri áhugamaður um að hún verði vel látin í té, þó ég geri mér um leið grein fyrir að við munum seint hér á Alþingi hafa nægilega fjármuni til þess að við getum svarað öllum þeim kröfum og öllum þeim óskum sem það fólk setur fram sem er sérstaklega menntað og vinnur daglega við að sinna þeim börnum og unglingum sem á slíkri þjónustu þurfa að halda. Þetta vil ég að komi skýrt fram.

Auðvitað hlýtur skólastarfið hér að þróast og vaxa að þessu leyti og alveg á sama hátt og við hljótum nú að endurskoða þau markmið sem við höfum sett okkur í sérkennslunni hljótum við um leið að endurskoða markmið okkar varðandi ýmsa aðra þætti fræðslumálanna. Ég hef orðið var við það í þessu sérstaka máli að menn hafa talað um það sem þeir kalla norðlenska skólastefnu. Í mínum huga er norðlensk skólastefna það að við eflum skólastarfið og fræðslustarfið ekki eingöngu í grunnskólanum heldur eflum það líka í framhaldsskólunum. Og ég vil þakka sérstaklega hæstv. menntmrh. fyrir það hversu duglega hann hefur tekið undir þær óskir og kröfur sem við Norðlendingar höfum borið fram bæði varðandi háskóla á Akureyri og eins varðandi það að treysta og efla grunn þeirrar framhaldsmenntunar sem þar er. Þetta er einn mjög ríkur þáttur í hinni norðlensku skólastefnu sem við viljum berjast fyrir. Og ég vil segja að hann er ekki ómerkilegasti þátturinn, því þegar við lítum á þá skýrslu sem nú hefur verið lögð fram varðandi byggðaþróun í landinu og þegar við virðum fyrir okkur þær tölur hversu það er á Eyjafjarðarsvæðinu, því eina svæði sem ég vil segja að geti keppt við Reykjavíkursvæðið að því marki að geta veitt alhliða þjónustu í menningarlegu, atvinnulegu og skólalegu tilliti, þá er það okkur mikið áhyggjuefni að á þessu svæði skuli nokkuð hafa fækkað einstaklingum nú hin síðustu árin. Þegar við veltum fyrir okkur hvernig við viljum bregðast við þessu komum við einmitt fyrst eða mjög fljótlega að skólamálunum, eflingu framhaldsskólans, við komum þá að háskólamálinu og við komum líka að fjórðungssjúkrahúsinu. Við komum líka að því að hægt sé að veita ungum og öldnum þá heilbrigðisþjónustu og kennslu, líka sérkennslu, sem þörf er á. Þetta vil ég að sérstaklega komi fram.

Ég hef lengi haft áhyggjur af því hvernig samstarfsörðugleikar hafa vaxið milli fræðsluskrifstofunnar í Norðurlandsumdæmi eystra og menntmrn. (Menntmrh.: Hversu lengi?) Þetta er ekki ný saga. Ef við mundum setjast niður, við hv. 1. þm. Norðurl. e., kvöldstund og rifja ýmislegt upp kæmi kannske margt upp í hugann. (Menntmrh.: Lát heyra.) Og þessar deilur hafa vaxið. Ég fékk í umslagi áðan þykkan bunka af skjölum og blöðum sem öll bera þess vott hvernig samstarf og trúnaður hefur verið milli fræðsluskrifstofunnar og menntmrn. Við vitum líka að þeir menn sem talað hafa um þessi mál, bæði á opinberum vettvangi og líka í einkasamtölum, hafa ekki verið á eitt sáttir um hvar ástæðurnar liggi. Það sagði við mig merkur skólamaður á Akureyri um daginn að í allri þessari opinberu umræðu forðuðust menn kannske að tala um það sem undir lægi af persónulegum ástæðum, og nú er ég einungis að tala um það hversu mönnum fellur illa, sem ekki eru beinlínis flæktir í málin, að koma fram í opinbera umræðu og ræða sérstaklega um einstaklinga, aðrar persónur í þjóðfélaginu. Það er auðvitað mun auðveldara í hinni opinberu umræðu að skamma ráðherrann. Ég tala nú ekki um þegar hann er þrekinn og mikill fyrir sér. Ég segi nú stundum um hann, þegar kvartað er undan því að hæstv. ráðh. taki djúpt í árinni, að hann sé orðvarastur sinna bræðra.

Þarna hefur orðið nokkur deila og við vitum að henni hefur nú lyktað með því að hæstv. menntmrh. treystir sér ekki til annars samvisku sinnar vegna sem æðsti trúnaðarmaður menntamála í landinu en segja fræðslustjóra upp sínu starfi. Auðvitað hlýtur ákvörðun eins og þessi að vera umdeild, auðvitað vegna þess að fræðslustjóra hefur ekki verið borið á brýn neitt það sem refsivert getur heitið. Á hinn bóginn liggur það fyrir og ég held að ég geri fræðslustjóra ekki rangt til þegar ég segi: Það liggur fyrir í störfum hans, í hans málflutningi að hann vildi heldur vera trúnaðarmaður fræðsluráðsins og sveitarfélaganna, sóknaraðili gegn Alþingi og menntmrh., en taka á sig þá skyldu, sem embættismaður ráðuneytis hlýtur að gera á hverjum tíma, að túlka stefnu, skoðanir og fyrirmæli ráðherrans og koma hlutlaus fram með öðrum hætti, koma fram með þeim hætti að það sem hann sagði vissum við um leið að var stefna ráðherrans, skoðun ráðherrans. Það er þessi staða sem þessi ágæti einstaklingur kunni ekki við sig í. Sumir menn vilja segja að minn skilningur á fræðslustjóraembættinu sé ekki réttur, að fræðslustjóraembættið hafi ekki verið hugsað með þeim hætti að hann ætti að vera trúnaðarmaður ráðherra í þeim skilningi að við værum að færa menntmrn. út í byggðirnar. Þó fullyrði ég að þeir menn sem mest beittu sér fyrir hinni nýju skipan fræðslumálanna hafi einmitt haft þau rök við orð að með þessu værum við að færa menntmrn. út í byggðirnar.

Ég man líka eftir því er við vorum á fundi, stjórn Byggðastofnunar, á Ísafirði nú í sumar og hittum sveitarstjórnarmenn þar að þeir kvörtuðu undan því að fræðsluskrifstofan á þeim stað rækti það verkefni ekki sem skyldi að vera rödd ráðherrans. Þetta er málið í hnotskurn.

Nú geta menn um það deilt hvort þeir telji að fulltrúar stjórnvaldsins, fulltrúar ráðuneytis, fulltrúar ráðherra eigi endilega að rækja það hlutverk sitt að vera fulltrúi ráðherra og ráðuneytis, hvort þeir eigi að láta annað sitja fyrir, það aukastarf sem þeir gegna. Þessu hlýt ég samvisku minnar vegna að svara á þann veg að nauðsynlegt er að fræðslustjórar skilji það eðli síns starfs að þeir eru fulltrúar síns ráðuneytis, sinnar ríkisstjórnar sem hann sendir undirbúningsgögn varðandi fjárlög og sem skólastjórar eiga að geta snúið sér til.

Ég get ekki skilið hvernig á því stendur að hv. 1. þm. Norðurl. e. skuli hafa langt mál um að hann hafi einhvern sérstakan rétt til að gagnrýna ráðherra Sjálfstfl. og að við höfum farið fram á að hann megi ekki gagnrýna ráðherra Sjálfstfl. Þessi hv. þm. veit ekkert um það nema okkur falli það bara betur, sjálfstæðismönnum, að hann gagnrýni okkur heldur en hann hrósi, þannig að ég vil segja við hann í fullri vinsemd að ef ég ætti kost á því tvennu að þú færir um kjördæmið með okkur Guðmundi Bjarnasyni og legðir á mig sérstakt lof eða reyndir að gagnrýna mig og skamma veit ég bara hreint ekki hvort ég mundi heldur kjósa mér. Ég held að við eigum ekki að tala um alvörumál eins og þessi, hv. þm., í þeim dúr og tón að einhver hér hafi bannað einhverjum að tala fullum hálsi hér á Alþingi. Það er einmitt sá mikli réttur sem hver þm. hefur og það hefur enginn maður fundið að því. Mér finnst einmitt sjálfsagt að þm. tali hér fullum hálsi og mér finnst líka sjálfsagt, þó svo að menn í upphafi hafi lýst því yfir að þeir vilji verja ríkisstjórn vantrausti, að þeir eigi hiklaust að hverfa frá þeirri ætlan sinni, gömlu ætlan, ef eitthvað það gerist sem sannfærir þá um að þetta traust til ríkisstjórnarinnar sé á röngum forsendum byggt. Í stjórnmálum getum við því ekki talað um að skuldbinding um stuðning eins stjórnmálamanns til annars vari að eilífu. Það getum við ekki gert.

Nú hefur þessi deila sem sagt harðnað og mig tekur það mjög sárt. Ég reyndi að beita mér fyrir því strax í septembermánuði, þegar upp kom sérkennslumálið, að reyna að setja niður þessar deilur. En þessi deila harðnaði og endaði með þeim hætti sem við vitum, að hæstv. ráðh. treystir sér ekki til annars en segja lausu þessu starfi.

Ég geri ráð fyrir því að allir sem hér eru inni vilji vinna að því af einurð og festu að viðunandi lausn náist sem menn séu sæmilega sáttir við. Ég vil, herra forseti, leyfa mér að lesa úr bréfi sem hæstv. menntmrh. skrifaði fræðsluráði Norðurlandsumdæmis eystra hinn 5. febr. s.l. Ég bað hæstv. ráðh. um að fá að lesa þessi orð. Ég held að það sé nauðsynlegt að þau verði gerð opinber, verði innlegg í þessa umræðu ef þau hafa þá ekki birst áður, en það hefur þá farið fram hjá mér. Í þessu bréfi segir svo, herra forseti:

„Vísað er til bréfs yðar til menntmrh. dags. 30. jan. s.l. Í bréfinu er fjallað um samskiptaörðugleika milli menntmrn. og fræðsluskrifstofu Norðurlandsumdæmis eystra. Í bréfinu segir að þessir samskiptaörðugleikar virðist vera sá vandi sem taka þurfi á og ekki sé nýr af nálinni. Í framhaldi af því er gerð tillaga um skipun nefndar er hafi það markmið að gera úttekt á störfum fræðsluráðs, fræðslustjóra og fræðsluskrifstofu og samskiptum þessara aðila við menntmrn., einkum er varðar fjármálaleg samskipti.

Hér verður ekki tekin afstaða til þeirra atriða í bréfi yðar er varða fyrri samskipti menntmrn. og fræðsluráðs. Vegna bréfs yðar skal hins vegar tekið fram að hugmynd fræðsluráðs um skipun nefndar er þess eðlis að á hana er unnt að fallast í meginatriðum. Á henni eru þó ákveðnir annmarkar að því er varðar verksvið nefndarinnar og skipun hennar sem bæta þarf úr. Ráðuneytið er reiðubúið að fallast á að skipuð verði nefnd tveggja manna þar sem aðilar, þ.e. fræðsluráð og menntmrn., tilnefni hvor sinn nefndarmann. Hlutverk nefndarinnar verði að fjalla um störf fræðsluráðs, þar með talin störf fræðsluskrifstofu og samskipti fræðsluráðsins við menntmrn. Starf nefndarinnar miði að því að gera tillögur til menntmrn. og fræðsluráðs um hvernig samskiptum þessara aðila verði best hagað í framtíðinni. Nefndin skal vinna störf sín sem trúnaðarmál fyrir aðila. Skýrsla hennar verði ekki gerð opinber nema báðir aðilar samþykki. Fallist fræðsluráð á ofangreind sjónarmið mun ráðuneytið tafarlaust tilnefna sinn fulltrúa í nefndina og væntir þess að fræðsluráð tilnefni sinn fulltrúa svo starf nefndarinnar geti hafist hið fyrsta.

Að gefnu tilefni í niðurlagi bréfs yðar skal tekið fram að menntmrh. er reiðubúinn að framlengja umsóknarfrest um stöðu fræðslustjóra Norðurlandsumdæmis eystra.“

Svo mörg voru þau orð. Þessu bréfi hafnaði fræðsluráð. Síðan ítrekaði hæstv. menntmrh. með bréfi 10. febr. sitt fyrra boð og fór fram á viðræður. Ég veit ekki betur en fræðsluráð Norðurlandsumdæmis eystra hafi hist á fundi s.l. föstudag og ég veit ekki betur en niðurstaðan á þeim fundi hafi orðið sú að þeir fræðsluráðsmenn vildu koma suður til móts við hæstv. menntmrh. og þar mundu þeir ræða um með hvaða hætti þeir gætu náð því fram sem segir í þessu bréfi. Það er öldungis ljóst að þeir menn sem hæfastir eru til þess að grafast fyrir um rætur þessarar deilu eru annars vegar fulltrúar fræðsluráðsins fyrir norðan og hins vegar fulltrúar menntmrn. Ég get ekki hugsað mér neina aðra aðila í þessu þjóðfélagi sem betur séu færir um að komast til botns í þessari deilu sem við verðum að ýta til hliðar til þess að eyða þeirri tortryggni sem grafið hefur um sig í skólastarfi fyrir norðan til þess að það geti færst í hæfilegt horf og til þess að menn hafi um annað að hugsa á næstu mánuðum, misserum og árum í skólum þar og annars staðar á landinu. Þetta held ég að sé kjarni málsins.

Sumir segja: En af hverju á ekki að vera oddamaður sem sé dómari í þessu máli? Við erum ekki á þessu stigi að biðja um dóminn. Þarna erum við að fara fram á rannsóknina, athugunina, hvað er rétt í þessu máli, og hæstv. menntmrh. hefur lagt sitt lóð á vogarskálina til þess að þessi rannsókn geti farið fram og ég vil persónulega þakka honum fyrir það. Við erum engu bættari þó að einhverjum einum manni í viðbót yrði bætt þarna við vegna þess að þeir aðilar sem eru að deila, fræðsluráð og menntmrn., fá með þessum hætti aðstöðu til að túlka sín sjónarmið, bæði til fortíðar og framtíðar. En að fortíð skal hyggja ef á framtíð skal byggja. Og það boð hæstv. ráðh. að hann sé reiðubúinn að framlengja umsóknarfrest um stöðu fræðslustjóra Norðurlandsumdæmis eystra er með þeim hætti að ég hygg að menn eigi að geta skilið það sem sáttaboð, a.m.k. hlýt ég að gera það og vil vænta þess að þær viðræður sem nú fara í gang milli norðanmanna og ráðuneytismanna megi skila góðum árangri.

Fræðslustjórinn fyrrv. hefur þegar tekið sjálfur afstöðu um hvaða leið hann vilji fara í sambandi við úrskurð eða dóm á sínu máli. Hann kaus að bíða þess ekki hver yrðu afdrif þessa frv. hér. Það mál er komið til dómstóla og við skulum halda þeim þætti utan við, en auðvitað yrði það starf sem við erum að tala um hér til þess að upplýsa ýmsa þætti þessa máls frekar en gert hefur verið.

Ég vil að síðustu vekja athygli á því í sambandi við þetta mál og tel að það sé mjög þýðingarmikið að menn geri sér grein fyrir því að þó skoðanir séu mjög skiptar um hvort hæstv. ráðh. hafi á þessum tíma haft fullnægjandi ástæður til að vísa fræðslustjóra úr starfi hefur engin rödd heyrst um að hér sé um pólitíska valdbeitingu að tefla. Og menn gera sér grein fyrir því og vita að þarna var einungis um að ræða að samskiptaörðugleikar þessara tveggja stofnana voru orðnir slíkir að við þá varð ekki lengur unað að mati ráðherra.

Að síðustu vil ég aðeins segja að ég er öldungis sammála flm. þessa frv., hv. þm. Ingvari Gíslasyni, Steingrími J. Sigfússyni, Guðmundi Bjarnasyni og Kristínu Halldórsdóttur, um að ástæða sé til að ætla að fræðsluskrifstofurnar, uppbygging þeirra, verksvið, starfssvið séu úrelt og hafi gengið sér til húðar. Þessi orð í lagaparagraffinu: „Enn fremur skal nefndin athuga hvernig háttað er aðstöðu einstakra fræðsluumdæma til að framfylgja ákvæðum laga og reglugerða um sérkennslu og önnur atriði er snerta framkvæmd gildandi skólamálastefnu eftir því sem við verður komið“ - þessi orð hljóta auðvitað að skiljast sem mikil gagnrýni, a.m.k. miklar efasemdir um að uppbygging og starfssvið fræðsluskrifstofanna sé með réttum hætti. Ég hygg að það sé einsdæmi að þm. hafi falið nefnd skipaðri af Hæstarétti verksvið af þessu tagi sem er auðvitað af pólitískum toga. Þetta er pólitískt verkefni og erfitt að gera sér grein fyrir hvernig menn hugsi sér að dómstólarnir skipti sér af því.

Ég held að ýmsir skólamenn séu líka sammála mér um að nauðsynlegt sé kannske að gera fræðsluskrifstofurnar sjálfstæðari gagnvart menntmrn. Ég held að það sé enginn vafi á að fræðsluskrifstofurnar hafa smátt og smátt verið að þróast upp í það að vera ég veit ekki hvort ég á að leyfa mér að hafa það eftir sem einn sagði við mig: „sveitarstjórnarapparat“. Ég verð þá að biðja þá sem skrá þessi orð að setja það orð innan gæsalappa. En hann kallaði þetta „sveitarstjórnarapparat“ í þeirri merkingu að þeir sem á þeim ynnu teldu sig fremur þeirrar ættar en ráðuneytisins. Þessi mál hljótum við öll að verða að íhuga rækilega. Við hljótum að taka uppbyggingu fræðsluumdæmanna úti á landi til gagngerðrar endurskoðunar. Við hljótum að læra af þeirri reynslu - ég vil segja dapurlegri reynslu - sem við höfum þarna fengið og vil vænta þess að sú ríkisstjórn sem við tekur muni taka það mál sérstaklega til athugunar.

Ég veit ekki, herra forseti, hvort það er útúrdúr ef ég aðeins segi um þáltill. hv. 3. þm. Norðurl. e. Stefáns Valgeirssonar að hún er flutt af góðum hug eins og öll þessi mál, en verð að bíða með að ræða hana sérstaklega þar sem hann er ekki viðlátinn og af sérstökum ástæðum get ég ekki litið svo á að hv. 1. þm. Norðurl. e. sé í færum um að svara fyrir hann.