17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3138 í B-deild Alþingistíðinda. (2832)

328. mál, náms- og kennslugögn

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda var þál. samþykkt á hinu háa Alþingi 13. júní 1985 um að gerð yrði könnun á aðgangi að kennslugögnum. Sú könnun hófst með bréfi menntmrn. 27. sept. sama ár til fræðsluskrifstofa, fræðsluráða og Samtaka sveitarfélaga. Óskað var eftir greinargerð frá aðilum um það hvernig þeir teldu hagkvæmast að auðvelda öllum skólum aðgang að námsgögnum, kennslutækjum og hjálpargögnum eins og þetta var orðað í þál.

Í febrúar 1986, fyrir ári, höfðu borist svör frá öllum nema fræðslustjórum og fræðsluráðum Norðurlandsumdæmis eystra og Norðurlandsumdæmis vestra, fræðsluráði Suðurlandsumdæmis og stjórn Samtaka sveitarfélaga. Var beiðni til þeirra ítrekuð með bréfi 11. mars 1986, en þrátt fyrir það hefur enn ekki borist greinargerð frá neinum þessara aðila, endilöngu Norðurlandi, fræðsluráði Suðurlands og sjálfum Samtökum sveitarfélaga í landinu sem hljóta þó að teljast mikilvægur umsagnaraðili um málið. (Gripið fram í.) Ó nei, það er ekki svo, hv. fyrirspyrjandi. Svör hafa ekki borist frá öllum og meira að segja allt of stórum og veigamiklum aðilum til þess að viðhlítandi sé.

Umsagnir þeirra sem sent hafa svör eru nær allar á einn veg. Fræðslustjórar og fræðsluráð telja hagkvæmast að koma á fót gagnamiðstöðvum við fræðsluskrifstofur og í flestum umdæmum er undirbúningur þegar hafinn. Í mörgum umsagnanna er tekið fram að tryggja þyrfti starfseminni fé úr ríkissjóði, enda þurfi aukið starfslið og viðbótarhúsnæði.

Aðgangur að náms- og kennslugögnum var ræddur á fundi fræðsluráðs Reykjavíkur 25. nóv. 1985 og kom þar fram sú skoðun að skólum yrði best séð fyrir aðgangi að nægum kennslugögnum með því að hafa fjölbreytt úrval á boðstólum í einni öflugri stofnun á einum stað fyrir landið allt. Þetta var fræðsluráð Reykjavíkur.

Ljóst er að þörf er á að auka þjónustu við skóla sem ekki eiga greiðan aðgang að kennslumiðstöðinni sem Námsgagnastofnun starfrækir í Reykjavík. Ekki er þó ljóst hvort hagkvæmast er að stofnsetja sams konar miðstöðvar við allar fræðsluskrifstofur. Vera kann að efling dreifikerfis og efling útlána frá Námsgagnastofnun geti komið til móts við þörfina að einhverju leyti. Einnig má nefna að skólasöfn búin fjölbreyttum gögnum stuðla að því að efla hvern einstakan skóla og auka líkur á samfelldari vinnudegi nemenda og kennara.

Menntmrn. mun að sjálfsögðu freista þess að fá greinargerð frá öllum þeim sem hlut eiga að máli varðandi aðgang að náms- og kennslugögnum. Að því loknu verður tekin ákvörðun um aðgerðir til að koma til móts við dreifbýlið sérstaklega hvað þetta varðar.