17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3140 í B-deild Alþingistíðinda. (2835)

329. mál, Skriðuklaustur

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj . 572 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. menntmrh. ásamt hv. 4. þm. Austurl. Jóni Kristjánssyni:

„Hvað líður störfum nefndar sem ráðherra skipaði á s.l. ári og fjalla átti um framtíð Skriðuklausturs í Fljótsdal?

Hvaða áform eru uppi af hálfu ráðherra um að minnast þess 1989 að þá eru 100 ár liðin frá fæðingu Gunnars Gunnarssonar skálds?"

Á Alþingi í fyrra fluttum við fyrirspyrjendur till. til þál. um málefni Skriðuklausturs. Till. var svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að minnast þess að 100 ár eru liðin frá fæðingu Gunnars Gunnarssonar skálds 1989 með því að gera Skriðuklaustur, gjöf skáldsins til íslenska ríkisins, að menningar- og fræðasetri, griða- og vinnustað listamanna og vísindamanna. Samstarf verði haft við heimaaðila, félagasamtök lista- og vísindamanna og afkomendur skáldsins um framkvæmd þessa svo að tryggt verði að aldarafmælis skáldsins verði minnst á veglegan og verðugan hátt.“

Af einhverjum ástæðum fékkst þessi till. ekki afgreidd þó eftir væri mjög leitað og eindreginn stuðningur virtist vera við hana bæði hér á þingi og ekki síður heima í héraði, en látum það vera nú. Hins vegar kom það fram í sumar að hæstv. menntmrh. hafði skipað nefnd í málið og því er eðlilegt að nú sé spurt um starf þessarar nefndar og ekki síður hverjar áætlanir séu uppi á vegum ráðuneytisins varðandi það merkisár, sem tengist Skriðuklaustri óneitanlega, árið 1989, þegar 100 ár verða liðin frá fæðingu þess merkismanns og mikla rithöfundar, Gunnars Gunnarssonar skálds. Um það er því einnig spurt hér í leiðinni.