28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í B-deild Alþingistíðinda. (284)

51. mál, vistunarvandi öryrkja

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 51 hef ég leyft mér að bera fram svohljóðandi fsp. til hæstv. heilbr.- og trmrh.:

„Hvenær má vænta tillagna frá stjórnskipaðri nefnd um vistunarvanda verst settra öryrkja sem komið var á laggirnar s.l. vetur? Hefur ráðherra eða nefndin einhverjar ákveðnar úrlausnir sem stefnt skal að?"

Á þingi hefur sem kunnugt er verið flutt tvívegis þáltill. um vistunarvanda verst settu öryrkjanna.

Hið fyrra sinni, vorið 1984, var till. vísað frá með rökstuddri dagskrá þar sem beinlínis sagði, í þeirri rökstuddu dagskrá, að lausn væri í sjónmáli. Ég efa ekki að menn hafi þá trúað því að svo væri. Þegar ekkert bólaði á efndum á s.l. vetri og ástandið hafði síst batnað var till. endurflutt, en rétt áður en hún skyldi afgreidd í nefnd skipaði hæstv. heilbr.- og trmrh. sérstaka nefnd til að gera tillögur um úrbætur í þessum efnum og var það af hinu góða og vel til vals vandað um nefndarmenn.

Nú hef ég heyrt að nefndin hafi tekið til við athugun þessa máls í mjög víðu samhengi og er ekkert nema gott um það að segja að þessi mál séu öll skoðuð. Hins vegar er þá spurning um hvort sá afmarkaði þáttur, sem till. laut að og krefst skjótrastrar úrlausnar, hefur verið tekin sérstaklega út úr og hvort hæstv. ráðh. eða nefndin hefur á takteinum nú eða er með á döfinni ákveðna úrlausn þessa tiltölulega afmarkaða þáttar. Um það er því spurt í ljósi þess hversu aðkallandi vandamál hér er á ferðinni og hefur of lengi óleyst legið.