17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3144 í B-deild Alþingistíðinda. (2840)

343. mál, kennsla í útvegsfræðum við Háskóla Íslands

Menntamálaráðherra (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Þótt ég hafi að vísu ekki borið það saman þykir mér líklegt að svar mitt nú muni verða keimlíkt því sem ég gaf fyrir ári síðan enda leitað til sama aðila um upplýsingar, þ.e. kennslustjóra Háskóla Íslands, Halldórs Guðjónssonar.

Nefnd sem þáv. menntmrh. skipaði til að undirbúa og skipuleggja kennslu í útvegsfræðum við Háskóla Íslands, sbr. ályktun Alþingis frá 19. maí 1981, skilaði áliti í nóv. 1983. Var þar mælt með því að nám í útvegsfræðum yrði skipulagt í viðskiptadeild og verkfræði- og raunvísindadeild og byggt ofan á fyrstu þrjú ár náms í þessum deildum eins og það var fyrir. Við undirbúning fjárlaga fyrir árin 1985 og 1986 var leitað eftir fjárveitingu til kennarastarfa til að hefja mætti kennslu í útvegsfræðum á þessum grundvelli, en sérstakar fjárveitingar í því skyni fengust ekki.

Í fjórum deildum Háskóla Íslands fer nú fram kennsla í greinum sem nýtast mættu í útvegsfræðum. Er þar um að ræða viðskiptadeild, félagsvísindadeild, raunvísindadeild og verkfræðideild, en síðasttalda deildin hefur komið upp námskeiðum beinlínis vegna hugmynda um kennslu í sjávarútvegsfræði. Eru þar í verkfræðideild nú á kennsluskrá um það bil átta námskeið sem fallið gætu undir nám í útvegsfræðum, alls um 20 námseiningar eða sem svarar 2/3 hlutum heils námsárs.

Í rannsóknaskrá Háskólans sem út kom haustið 1986 er getið um hartnær 20 rannsóknaverkefni háskólastarfsmanna á sviði útvegsfræða og á nátengdum sviðum. Rannsóknir þessar eru einkum í þeim deildum sem að framan voru nefndar. Nýverið í janúar þessa árs hefur hópur 12 starfsmanna Háskólans sammælst um að halda saman verkefnum á sviði rannsókna er tengjast útvegsfræðum. Hópurinn er enn að vonum skammt kominn í starfi sínu.

Þetta er nú allt svarið sem ég er í færum um að gefa eins og sakir standa.