17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3146 í B-deild Alþingistíðinda. (2844)

343. mál, kennsla í útvegsfræðum við Háskóla Íslands

Guðmundur J. Guðmundsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt athugasemd. Ég skal ekki blanda mér í kennslu í háskóla í útvegsfræðum. Hitt vil ég minna á og ég held að þingheimur hefði gott af að vita að á vegum Verkamannasambandsins, Vinnuveitendasambandsins og undir forustu sjútvrn. hafa 3-4 þús. manns verið á 40 tíma námskeiði sem er sennilega umfangsmesta fullorðinsfræðsla sem átt hefur sér stað á landinu lengi. Mér er ekkert um að hafa nein lýsingarorð um hæstv. sjútvrh. en í þessum efnum hefur hann beitt sér af fullum heilindum, og á engan hátt hefur staðið upp á hans ráðuneyti, heldur hefur hann lagt þar verulegan kraft í og ég held að áframhald á þessari starfsemi, sem kemur til með að verða til þess að fimm þúsund manns, hið almenna verkafólk í fiskiðnaðinum, fái fræðslu og starf þeirra sé viðurkennt, sé besta tryggingin fyrir gæðum og mannvirðingum í þessum störfum.