17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3153 í B-deild Alþingistíðinda. (2855)

323. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála núv. ríkisstjórnar stendur að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins skuli efldur og hefur það verið gert eftir því sem tök hafa verið á, en í janúar 1985 var skipuð nefnd til að endurskoða gildandi lög og reglur um sjóði sjávarútvegsins og hinn 17. febr. 1986 var sömu nefnd falið að fjalla sérstaklega um hlut fiskvinnslunnar í skiptum við sjóði sjávarútvegsins, þar með Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins.

Þessi nefnd skilaði af sér s.l. haust til sjútvrn. þann 10. okt. Þar kemur eftirfarandi fram í áliti hennar að því er varðar Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins:

„Nefndarmenn urðu ekki sammála um hvort þess skuli freistað að láta verðjöfnun ná til ísfisks sem settur er óunninn á markað erlendis. Fulltrúar sjómanna og útvegsmanna lögðust eindregið gegn því að verðjöfnun tæki til ísfisks og töldu reyndar ekki unnt að koma henni við með skynsamlegu móti. Fulltrúar fiskvinnslunnar vildu, ef á annað borð væri um verðjöfnun að ræða, að reynt yrði að finna leiðir til þess að láta ísfisk sæta sömu verðjöfnun og freðfiskur og saltfiskur á hverjum tíma, t.d. á þann hátt að af honum verði greitt jöfnunargjald eða til hans jöfnunaruppbót sem samsvarar ríkjandi verðjöfnun á unnum fiski en byggði ekki beinlínis á söluverði ísfisks. Aðrir nefndarmenn skiptust í afstöðu sinni til þessa máls. Nefndin gerir því ekki ákveðnar tillögur um það.“

Hér er að sjálfsögðu um fremur viðkvæmt mál að ræða sem snertir skipti innan sjávarútvegsins og um þessar mundir fóru í hönd samningar milli sjómanna og útvegsmanna þar sem m. a. lá fyrir að tekist yrði á um með hvaða hætti skiptin yrðu milli útgerðar og sjómanna. Niðurstaða fékkst í það mál og tekur hin nýja regla gildi n.k. vor.

Það er alveg rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að hér er um nokkurt ósamræmi að ræða, en hins vegar er ljóst að lögin um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins ná ekki til sölu á ísfiski eða óunnum fiski heldur eingöngu til fiskiðnaðarins sjálfs, þannig að ef hér ætti að verða breyting á og jöfnunargjald yrði tekið af óunnum fiski yrði að koma til lagabreyting. Það er ekki fyrirhugað að leggja slíkt frv. fyrir það þing sem nú stendur yfir og verður því að taka á máli þessu síðar.

Ég vil einnig benda á að 10% álag er að því er varðar kvóta þeirra skipa sem flytja slíkan fisk úr landi, en þetta álag var áður 25%. Hér var um mismunandi áherslur að ræða og menn voru ekki sammála um hvert þetta álag skyldi vera. Fulltrúar sjómanna og útvegsmanna vildu að það væri ekkert, en vinnslurnar vildu að það væri hærra, þannig að hér var um málamiðlun að ræða á sínum tíma. Vissulega kemur jafnframt til greina að hækka þetta álag að nýju þannig að eðlilegra samræmi sé hér á.

Ég vænti þess, herra forseti, að ég hafi með þessu svarað þessari fsp.