17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3154 í B-deild Alþingistíðinda. (2857)

323. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Ég vil staðfesta það sem hæstv. ráðh. sagði áðan um störf nefndarinnar sem vann að því að endurskoða og leggja niður sjóðakerfið s.l. vor. Það tókst að taka þá sjóði í burtu alla nema Verðjöfnunarsjóðinn. Það voru skiptar skoðanir, en samt held ég, án þess að fara ofan í það neitt frekar, að það sé orðið mjög tímabært núna að taka þetta mál upp aftur vegna þeirrar þróunar sem orðið hefur í sambandi við ferskfiskútflutning og þá miklu mismunun sem orðin er t.d. með rækjuvinnsluna og saltfiskinn. Ég held því að það væri tímabært að þetta mál yrði skoðað nánar og fundin lausn því að menn una því ekki öllu lengur að á þann veg gangi sem nú gengur með framleiðendur rækju og saltfisks.