17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3155 í B-deild Alþingistíðinda. (2858)

323. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Við vorum í þessari sjóðanefnd ég og hv. 3. þm. Vesturl. svo og hv. 3. þm. Reykn. Kjartan Jóhannsson af þm. hálfu. Það var alveg rétt sem hæstv. sjútvrh. sagði um afgreiðslu þeirrar nefndar um Verðjöfnunarsjóðinn. En ég held að flestir nefndarmenn hafi um leið gert sér grein fyrir því, þó að þeir vísuðu þessu máli frá sér, að þarna voru vandamál sem þurfti að leysa. Mér finnst því miður að ekki skuli hafa verið tekið á þessum vandamálum að undanförnu og að það muni ekki vera gert á þessu þingi.

Það mun vera svo að miðað við verð á saltfiski núna fari 12 kr. á kg í Verðjöfnunarsjóð. Ef við reiknum með 40 þús. tonna lágmarki, sem áætlað er að saltfiskframleiðslan verði á árinu, verða það 480 millj. sem renna í sjóðinn.

Það er verið að tala um að stofnsetja hér markað. Það fellur engan veginn saman við hugmyndir um fiskmarkað að á einum vettvangi framleiðslunnar séu teknir ákveðnir peningar í slíkan verðjöfnunarsjóð sem hér er um að ræða.

Um þetta mál mætti vitaskuld tala mikið, en það er alls ekki tími til þess á þeim vettvangi sem við erum að ræða málið á.