28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

51. mál, vistunarvandi öryrkja

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég fagna orðum hæstv. ráðh. og þakka fyrir svörin og fagna því að hæstv. ráðh. upplýsir að lokatillögur nefndarinnar muni liggja fyrir í næsta mánuði. Þess bíð ég vitanlega fúslega að þær niðurstöður liggi fyrir.

Ekki síður ber að fagna því að hæstv. ráðh. hefur í hyggju að sjá svo til, ef mögulegt er, að fjárveitingar liggi fyrir til þessa verks þegar við næstu fjárlagagerð. Það er óneitanlega mikilvægt.

Ég veit fullvel að hér er ekki um auðleyst mál að ræða, en ég hlýt að benda á að hér er um tiltölulega fáa einstaklinga að ræða sem við vorum sérstaklega með tillögur um hér, að vísu mjög erfið tilfelli, og að því leyti til var sviðið þrengt eins og kostur var, einmitt til þess að þetta mál mætti fá skjótari úrlausn ef kostur væri. Það hefur hins vegar þvælst býsna lengi fyrir hjá okkur, bæði á Alþingi og eins í ráðuneyti, og er vissulega fagnaðarefni ef lokatillögur og framkvæmdir í kjölfarið fá nú loksins að sjá dagsins ljós og eftir því skal beðið. En á það verður líka knúið að við þessar yfirlýsingar verði staðið.