17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3155 í B-deild Alþingistíðinda. (2860)

323. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. um að það þarf að sjálfsögðu að vinna að þessu máli áfram. Ég vildi aðeins taka fram að það er ekki ráðrúm til þess á þeim stutta tíma sem eftir stendur að hugsa sér að koma fram lagabreytingum í því skyni.

Ég vil hins vegar taka fram að ég er þeirrar skoðunar að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins eigi að halda áfram. Ég minni á að 1983 skorti mikið fé til að standa undir eðlilegum rekstri í saltfiskverkun og ég bið hv, þm. að gleyma því ekki að það hafa oft verið sveiflur í okkar þjóðarbúskap og er nauðsynlegt að hafa einhverja sjóði, einhver tæki til að jafna þessar sveiflur. Þótt vel gangi núna má vera að það komi aðrir tímar síðar.