17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3156 í B-deild Alþingistíðinda. (2861)

327. mál, Landhelgisgæslan

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Að undanförnu hafa átt sér stað úti í þjóðfélaginu allmiklar umræður um starfshætti Landhelgisgæslunnar og starfsemi hennar. Það er út af fyrir sig ekkert nýtt þótt sú starfsemi sé rædd, eins miklu hlutverki og Gæslan gegnir í okkar þjóðfélagi. Mér finnst hins vegar að undanfarið hafi gætt meiri gagnrýni í umræðum um Gæsluna en verið hefur áður. Ekki ætla ég að setjast í dómarasæti í þessum efnum. Ég er fyrst og fremst að vekja máls á þessu vegna þess að mér finnst að Alþingi, löggjafinn, hafi skapað eitthvert tómarúm gagnvart Gæslunni.

Menn muna gömlu góðu dagana, ef svo má orða það, í þorskastríðunum, hvernig Gæslan stóð sig þar. Frá því að því lauk hefur mér fundist Gæslan vera eins og nokkurs konar olnbogabarn í fjárveitingum frá Alþingi. Þessi mál hafa að vísu verið rædd. Öryggismálanefnd sjómanna, sem skipuð var af Alþingi, ræddi þessi mál, gerði sínar tillögur, en lítið sem ekkert hefur gerst.

Nú er svo komið, að því er okkur sýnist sem út í frá stöndum og lítum til Gæslunnar, þegar heilu áhafnirnar segja upp og ganga í land, að eitthvað hljóti að vera að. Og menn spyrja: Hvað er að? Og ef eitthvað er að, hvernig skal bregðast við því?

Fyrir nær sex árum var kosin á Alþingi laganefnd um landhelgisgæslu og var skipuð þann 25. maí 1981. Lítið sem ekkert, það ég best veit, hefur heyrst frá starfi þessarar nefndar og er kominn æðilangur tími sem hún hefur haft til að vinna að þessum málum. Í þessari nefnd voru og er trúlega a.m.k. meginhlutinn af eftirtöldum: Guðmundur Bjarnason alþm., Matthías Bjarnason, sem vék úr nefndinni, ég veit ekki hvenær, en mér er ekki kunnugt um að nokkur hafi tekið sæti hans þar, Þröstur Sigtryggsson skipherra, Pétur Sigurðsson alþm., Benedikt Gröndal, sem trúlega hefur horfið úr nefndinni á einhverju þessara ára og líklega enginn tekið sæti hans þar, Garðar Sigurðsson alþm. og Valdimar Indriðason framkvæmdastjóri.

Í ljósi þessa finnst mér orðið tímabært að koma umræðum af stað um þetta mál. Þess vegna hef ég leyft mér að leggja fram á þskj. 570 eftirfarandi fsp. til hæstv. dómsmrh. um starfsemi Landhelgisgæslunnar:

„1. Hvað líður störfum endurskoðunarnefndar um starfsemi Landhelgisgæslunnar?

2. Er von á niðurstöðum af störfum hennar og þá hvenær?"