17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3157 í B-deild Alþingistíðinda. (2862)

327. mál, Landhelgisgæslan

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda, hv. 3. þm. Vestf., samþykkti Alþingi 2. apríl 1981 ályktun þess efnis að kjósa skyldi milliþinganefnd til þess, eins og segir í þáltill., „að kanna á hvern hátt nauðsynlegt sé að efla Landhelgisgæsluna svo að hún geti haft sem best eftirlit með 200 mílna lögsögusvæðinu og gegnt öðrum hlutverkum sínum á fullnægjandi hátt“. Nefndin er því kosin af Alþingi og skipuð að meiri hluta alþm. Hún tók þegar til starfa og skilaði áfangaskýrslu 15. okt. 1981. Sú skýrsla fjallaði að mestum hluta um skipakost Gæslunnar og endurbætur á honum.

Samkvæmt tilmælum mínum sem dómsmrh. samdi milliþinganefndin aðra áfangaskýrslu um flugrekstur Landhelgisgæslunnar og þá einkum kaup og rekstur eftirlits-, leitar- og björgunarþyrlu fyrir stofnunina. Sú skýrsla er dags. 9. apríl 1984. Það má taka fram að niðurstöður og tillögur nefndarinnar voru að öllu leyti samþykktar og lagðar til grundvallar þeirri endurnýjun á þyrlukosti Landhelgisgæslunnar sem síðar varð.

Síðari hluti fsp. hljóðar svo: „Er von á niðurstöðum nefndarinnar og þá hvenær?" Samkvæmt upplýsingum formanns nefndarinnar hefur nefndin nú samið drög að lokaskýrslu og lagafrv. um Landhelgisgæslu Íslands og mun nefndin skila því af sér á næstu vikum.