17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3163 í B-deild Alþingistíðinda. (2874)

333. mál, löggæslumál á Reyðarfirði

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. 2. þm. Austurl. um áform dómsmrn. um úrbætur í löggæslumálum á Reyðarfirði vil ég skýra frá því að fulltrúi frá ráðuneytinu hefur farið til viðræðna við aðila þar eystra, sveitarstjórn á Reyðarfirði og sýslumann Suður-Múlasýslu. En vegna fréttar sem kom um atburð þar fyrir skömmu vil ég leiðrétta það, sem því miður var missagt þar, að það hafi verið beðið í tvo klukkutíma eftir lögreglu meðan ölvaður ökumaður lék lausum hala í bænum. Hið rétta var að sá tími sem tók að ná til lögreglumanns sem átti gæsluvakt þennan dag var 25-30 mínútur, en hann hafði verið utan dyra og ekki heyrt í síma. Vinnuskýrslur sem borist hafa ráðuneytinu bera með sér að báðir fastráðnu lögreglumennirnir á Eskifirði og tveir héraðslögreglumenn á Reyðarfirði hefjast handa 30 mínútum eftir að heimildarmaður þess sem sendi fréttina reyndi fyrst að ná sambandi við lögreglu.

Frá því að lögreglan fær vitneskju um þennan akstur líða ekki yfir 30 mínútur þar til ökumaður er færður í fangageymslu lögreglustöðvar á Eskifirði. En vissulega má segja að 25 eða 30 mínútur eru of langur tími og því, eftir fund fulltrúa frá dómsmrn. með sýslumanni Suður-Múlasýslu og þremur sveitarstjórnarmönnum á Reyðarfirði þann 11. þ.m. þar sem þessi mál voru rædd, komu til álita eftirfarandi úrræði sem ég vil þá leggja áherslu á:

1. Að skipuleggja meiri viðveru lögreglunnar á Reyðarfirði.

2. Að efla fjarskipti og símakost lögreglunnar þannig að hún hafi síma í sínum bíl og geti því svarað hvenær sem er. En að sjálfsögðu má búast við að lögreglumaður þurfi eitthvað að fara út úr húsi.

3. Að efla samstarf héraðslögreglumanna á Reyðarfirði.

4. Að stuðla að því að nýskipaður rannsóknarlögreglumaður í Suður-Múlasýslu hefði búsetu á Reyðarfirði og gæti hann, ef ekki næðist til annarra lögreglumanna, gripið inn í þegar brýna nauðsyn ber til.

5. Að finna hentugt húsnæði á Reyðarfirði í stað þess sem lögreglan hefur haft, en því hefur nú verið sagt upp.

Á fyrrgreindum fundi kom fram áhugi heimamanna á því að fastur lögreglumaður yrði að staðaldri á Reyðarfirði. Ráðuneytið telur að það samstarf lögreglumannanna tveggja sem upp var tekið fyrir tveimur árum haldi áfram, en ég vil leggja áherslu á það, sem ég sagði hér fyrir tveimur árum, að ég tel að það sé æskilegt að annar þessara manna sé búsettur á Reyðarfirði. Reynslan af nýtingu og samstarfi er að öðru leyti góð. Hér er að sjálfsögðu alltaf spurning um það fjármagn sem Alþingi skammtar í því skyni að halda uppi löggæslu, hversu margir menn er hægt að ætla að starfi á hverjum stað, en að sjálfsögðu er æskilegra að hafa mann á vakt sem lengst þó að hann sé í 10-12 km fjarlægð en vera með mann aðeins stuttan tíma.

Ég vil undirstrika það að ég tel að það sé tvímælalaust æskilegt að annar lögreglumaðurinn sé búsettur á Reyðarfirði og jafnframt að bætt sé sú aðstaða sem þar þarf að vera fyrir hendi fyrir lögreglu á þeim stað.