17.02.1987
Sameinað þing: 50. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3164 í B-deild Alþingistíðinda. (2875)

333. mál, löggæslumál á Reyðarfirði

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svör hans og þá sérstaklega það sem hann undirstrikaði nú í lokin um að það væri hans ákveðin skoðun, sem ég ætla þá að vona að hann geti komið í framkvæmd sem allra fyrst, að annar löggæslumannanna verði búsettur á Reyðarfirði. Það er held ég tvímælalaust nauðsyn. Hér er ekki spurning um aukið fjármagn sem þarf til þess, síður en svo. Maðurinn er þarna í starfi. Samstarf á milli þessara aðila er vitanlega sjálfsagt, og ég hef aldrei haft á móti því, og það tel ég að hægt sé að gera alveg nákvæmlega eins þó að mennirnir séu sinn á hvorum staðnum. Þeir hafa náið og gott samstarf sín á milli eins og þeir höfðu reyndar áður en þessi skipan var tekin upp.

Reynslan hefur sjálfsagt verið góð af þessu varðandi vaktþjónustu og annað slíkt fyrir svæðið sem heild. Ég er ekkert að draga það út af fyrir sig í efa Ég er hins vegar jafnsannfærður um það að fyrir Reyðfirðinga hefur þetta verið mun bagalegra og erfiðara og í mörgum tilfellum, allt of mörgum tilfellum, hreinlega skapað óöryggi sem er óviðunandi á svo stórum stað.

Það er ástæðulaust að vera að rekja þetta nýlega atvik. Ég lagði engan dóm á þær fréttir sem voru af því atviki hversu áreiðanlegar þær væru. Ég hef hins vegar aðrar fréttir en hæstv. ráðh. hefur um tímalengdina sem þarna var um að ræða, en geri það vitanlega ekki að neinu aðalatriði í þessu efni.

Ég vil aðeins undirstrika fyrir hönd okkar fyrirspyrjenda að mönnum þykir þarna um illviðunnandi ástand að ræða þar sem öryggisþátturinn er stærstur. Við erum allir áreiðanlega á því að það séu sjálfsögð vinnubrögð að hagræða og spara, en ég held að það hafi alveg verið staðið öfugt að málum og í raun og veru engum til góðs sú breyting sem hér varð á. Ég held þess vegna að það hljóti að vera ótvíræð ósk okkar fyrirspyrjenda allra að lögregluþjónn verði ráðinn á Reyðarfjörð. Hæstv. ráðh. hefur lýst því yfir að hann hafi fullan vilja á því. Það er eðlileg og sanngjörn ósk, ekki síst í ljósi fenginnar reynslu og ýmissa vandkvæða sem skapast hafa. Ég ætla að vona að hæstv. ráðh. verði það ágengt með sína embættismenn að þeir verði ekki að fótakefli í þessum efnum og hindri það að þessi skipan komist á.