17.02.1987
Sameinað þing: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3182 í B-deild Alþingistíðinda. (2885)

307. mál, álit milliþinganefndar um húsnæðismál

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þegar til umræðu var fyrir skömmu frv. um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins kom fram í máli mínu að ég efaðist um fjárhagslegar forsendur og útlánaþörf sem nýja húsnæðislöggjöfin byggði á, ég efaðist um að þær stæðust og ég færði þar rök fyrir mínu máli. Þetta er í raun ekki eina gagnrýnin sem hefur komið fram á fjárhagslegar forsendur og útlánaþörf, en strax í september s.l. benti til að mynda Helgarpósturinn á þessar staðreyndir sem nú blasa við.

Ég tel nauðsynlegt í upphafi míns máls að rifja upp nokkur meginatriði í röksemdum mínum fyrir því að fjárhagslegar forsendur og útlánaþörf standast hvergi. Ég hef haldið því fram að 1200-1700 millj. kr. vantaði á þessu ári í Byggingarsjóð ríkisins til þess að hægt sé að fullnægja útlánaþörf vegna umsókna sem bárust fyrir s.l. áramót. Ég hef einnig haldið því fram að tvöfalda þurfi fjármagn til húsnæðiskerfisins á næsta ári ef meðalbiðtími, eins og hann var í desember eða 15 mánuðir, þurfi ekki að lengjast. Þessar röksemdir byggja á því að fyrir áramótin bárust 4000 umsóknir eða um 1000 umsóknir á hverjum mánuði frá september til desemberloka. Í janúarmánuði bárust 500-600 umsóknir en forsendur þær sem ég byggi á um að tvöfalda þurfi fjármagn til húsnæðiskerfisins á næsta ári eru reistar á mjög varlegri áætlun eða þeirri að að jafnaði berist um 375 umsóknir á mánuði á þessu ári.

Miðað við þessar forsendur er ljóst að á þessu ári vantar um 1200-1700 millj. kr. en upphæðin ræðst af því hve margar umsóknir falla út og eru ekki lánshæfar skv. ákvæðum laganna og að mati Húsnæðisstofnunarinnar. Í annan stað er ljóst að þó að um varlega áætlun sé að ræða af fjölda umsókna á þessu ári er engu að síður ljóst að tvöfalda þarf fjármagn í húsnæðiskerfið á næsta ári ef biðtími á ekki að lengjast frá því sem nú er og er þá fjármagnsþörf næsta árs varlega áætluð um 8 milljarðar kr. Fyrir liggur að biðtími vegna desemberumsókna er á þann veg að flestir verða að bíða fram á næsta ár. Forgangshópar fá sinn fyrsta hluta í nóvember 1987 en seinni hluta í maí 1988. Aðrir fá sinn fyrsta hluta í febrúar 1988 og síðari hluta í ágúst 1988. Út frá þessum forsendum og að því gefnu að fjármagn frá lífeyrissjóðunum aukist um 700 millj. kr., og þá hef ég gert ráð fyrir í þeim áætlunum sem ég byggi á að fjármagn frá lífeyrissjóðunum aukist um 700 millj. kr. á næsta ári en ríkisframlag verði óbreytt, er ljóst að í árslok stefnir í að biðtími verði á þriðja ár. Ekkert af því sem fram kom í máli ráðherra áðan hrekur það sem ég hef sagt. Þvert á móti, það sem fram kom í máli ráðherrans staðfestir það sem ég hef haldið fram.

Hæstv. ráðh. talar um að 4260 umsóknir hafi borist fyrir áramót. Það er gott betur en ég hef haldið fram. Ég hef talað um að 4000 umsóknir hafi borist frá september til desemberloka. En hvers vegna, hæstv. ráðh., segir ráðherrann ekki eitt einasta orð um hve biðtíminn er langur? Ætlar til að mynda hæstv. ráðh. - og ég óska eftir að hann svari því hér og nú - að neita því að meðalbiðtíminn nú í desember sé orðinn að meðaltali um 15 mánuðir? Ég spyr hæstv. ráðh.: Hefur hann ekkert kynnt sér það hve biðtíminn er orðinn langur? Hefur ekkert verið fjallað um það í stjórn Húsnæðisstofnunar? Hefur ráðherrann ekki fengið neinar skýrslur um það á sín borð hve biðtíminn er langur? Það hlýtur að liggja fyrir núna hve biðtíminn er langur vegna desemberumsókna og janúarumsókna og ég trúi ekki öðru en að hæstv. ráðh. hafi þær upplýsingar á sínu borði.

Hæstv. ráðh. kýs, frekar en að byggja á þeirri reynslu sem þegar er fengin af nýju húsnæðislöggjöfinni, að hefja hér langan lestur úr grg. með frv. að nýrri húsnæðislöggjöf til rökstuðnings sínu máli. Þar tíundar ráðherrann m.a., áðan í sínum lestri, áætlanir sem húsnæðislöggjöfin var reist á og það er vitað þegar að þær áætlanir eru brostnar.

Hæstv. ráðh. sagði að það væri vitað að eftirspurnin yrði mikil fyrstu 2-3 árin. En á hverju byggði áætlunin um útlánaþörf í frv.? Við skulum líta aðeins nánar á það. Hér segir í frv., sem ráðherra vitnaði svo mikið í í stað þess að horfa frekar til reynslunnar sem þegar er fengin af nýja húsnæðiskerfinu, með leyfi forseta:

„Eðlileg eftirspurn eftir lánum til kaupa á nýjum íbúðum er talin svara til 1400 íbúða á ári. Fyrstu tvö árin verður eftirspurnin þó meiri eða sem nemur láni til 1600 íbúða. Þar af verða um 800 lántakendur sem ekki eiga íbúð fyrir og njóta því forgangs.“ Síðan kemur: „Eðlileg eftirspurn eftir lánum til kaupa á notuðum íbúðum er talin vera 2000 en jafnframt er bætt við 200 tvö fyrstu árin. Þar af er gert ráð fyrir að um 1100 lán gangi til þeirra sem ekki eiga íbúð fyrir.“

Hér er sem sagt í áætlunum sem húsnæðislöggjöfin byggði á gert ráð fyrir að það berist 3800 umsóknir fyrstu tvö árin, hvort árið um sig. En hvað liggur fyrir, hæstv. ráðh.? Það liggur fyrir að það hafa borist 4260 umsóknir á fjórum mánuðum eða 400 fleiri umsóknir en gert var ráð fyrir á heilu ári. Og í janúnarmánuði hafa borist tæplega 600 umsóknir og áætlun sem ég byggi á um fjárskort í húsnæðiskerfinu byggist á því að það berist 375 íbúðir að jafnaði á mánuði á öllu þessu ári. Hér er um mjög varlega áætlun að ræða.

Hæstv. ráðh. talar um að það megi gera ráð fyrir 15% afföllum af þeim umsóknum sem hafa borist fyrir áramót. En af hverju eru þessi afföll, hæstv. ráðh.? Ég tel hiklaust, hvað sem þessum afföllum líður, að umsóknirnar séu mælikvarði á fjármagnsþörfina. Ef stór hluti þeirra sem sækja um lán í almenna kerfinu dettur út, af því að þeir standa ekki fjárhagslega undir greiðslubyrði til að mynda, er fjármagnsþörfin færð yfir í félagslega hlutann þannig að þær umsóknir sem fyrir liggja eru mælikvarði á þörfina.

Ég spyr til að mynda: Hefur komið í ljós að einhver fjöldi þeirra á fimmta þúsund umsækjenda sem sóttu um fyrir áramót eigi ekki rétt í nýja lánakerfinu vegna þess að tekjur þeirra eru of lágar eða þeir ráða ekki við greiðslubyrði lána? Ef það er rétt sýnir það fyrst og fremst að það verður að fjölga félagslegum íbúðabyggingum en ekki skilja félagslega hluta íbúðakerfisins eftir eins og í raun er lagt til í nefndaráliti milliþinganefndar.

Og ég spyr hæstv. ráðh.: Getur það verið rétt, sem fram kom í Helgarpóstinum síðasta, að fjögurra manna fjölskyldu, sem er að stækka við sig úr 60 fermetrum í 80 fermetra, hafi verið synjað á þeirri forsendu að hún standi ekki fjárhagslega undir greiðslubyrði lána? Og það kemur fram í Helgarpóstinum að þessi fjölskylda hefur í tekjur á mánuði 90 þús. kr. Ég hef fengið hér í hendur þessa synjun á þessari ákveðnu umsókn sem talað er um og þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Samkvæmt þessu skortir heimild til að veita yður umbeðið lán og er umsókninni því hér með synjað.“ Nánar tilgreint eru synjunarástæður: „Umsækjandi getur ekki staðið fjárhagslega undir þeim íbúðakaupum sem ráðgerð eru.“ Síðan kemur fram: „Jafnframt þessu skal yður tilkynnt að ráðgjafarstöðin er að sjálfsögðu reiðubúin til viðræðna við yður um þau íbúðarkaup sem ætla má að samræmist greiðslugetu yðar og unnt væri að mæla með lánveitingu til.“

Ég spyr hæstv. ráðh. hvort hann hafi kynnt sér þetta ákveðna dæmi, hvort það geti verið að umsóknum sé synjað hjá fjölskyldum sem eru kannske með 60, 70, 80, 90 þús. kr. í mánaðartekjur af því að þær standi ekki fjárhagslega undir greiðslubyrði. Ef þetta er staðreynd þá stöndum við frammi fyrir nýju vandamáli í húsnæðiskerfinu.

Ég tel, herra forseti, að fjármagnsþörfin, sem ég hef greint frá, sé til staðar þó að umsækjendum sé vísað frá og hafi ekki rétt skv. nýju húsnæðislöggjöfinni. Ég tel að engu hafi verið haggað í mínum málflutningi um að allt að 1700 millj. vanti í húsnæðiskerfið á þessu ári og að fjármagnsþörfin verði a.m.k. 8 milljarðar á næsta ári. Ég hef farið varlega í mínar áætlanir. Hér í Helgarpóstinum er talað um að það vanti 10 milljarða á næsta ári og að biðtíminn geti farið í þrjú ár.

Það er alveg ljóst, herra forseti, að þau afföll sem hér er talað um styðja það sem ég og fleiri höfum haldið fram að það þurfi að styrkja félagslega íbúðakerfið miklu frekar en gert hefur verið. Og það er kjarni þessa máls að umsóknir sem fyrir liggja eru mælikvarði á þörfina.

Reyndar er það svo að milliþinganefnd tekur að nokkru leyti undir það sem ég hef haldið fram varðandi fjármögnun húsnæðiskerfisins. Þar kemur fram, með leyfi forseta, „að horfur kerfisins varðandi fjárhagsstöðuna séu ekki bjartar“. Ég minnist þess ekki að ráðherra hafi í máli sínu hér áðan sagt eitt einasta orð um þetta álit milliþinganefndar, að fjárhagshorfurnar séu ekki bjartar.

Ég held, herra forseti, að við þurfum að gera okkur grein fyrir í hvað stefnir ef stórum hluta fólks er úthýst, ef það til að mynda stendur ekki fjárhagslega undir greiðslubyrði af lánum. Hvaða hópar eru það þá sem er úthýst? Eru það til að mynda láglaunahóparnir? Við skulum lita á það að húsnæðiskerfið er að stórum hluta fjármagnað með fjármagni úr lífeyriskerfinu eða að 75% hluta til. Við skulum líta á það að fjármagn úr lífeyrissjóðunum til Byggingarsjóðs ríkisins er um 3,3 milljarðar meðan fjármagn úr lífeyrissjóðunum í Byggingarsjóð verkamanna er ekki nema 400-500 millj. kr. Ef til að mynda láglaunafólk hefur ekki aðgang að almenna kerfinu af því að það stendur ekki fjárhagslega undir greiðslubyrði lána og það getur heldur ekki fengið aðgang að félagslega kerfinu af því að það er fjárhagslega svelt spyr ég: Hvað segja aðilar vinnumarkaðarins, t.d. verkalýðshreyfingin, við þeirri stöðu?

Við skulum horfa á þetta mál út frá annarri hlið. Það eru nýir hópar sem fengu rétt með nýju húsnæðislöggjöfinni sem þeir höfðu ekki áður. Það eru þeir hópar sem eiga stórar skuldlausar eignir og eru til að mynda að minnka við sig. Þeir geta fengið í milligjöf 2, 3, 4 millj. kr. þegar þeir eru að minnka við sig húsnæði og engu að síður fengið niðurgreitt lán úr húsnæðiskerfinu upp á 1200 þús. kr. með niðurgreiddum vöxtum sem þetta fólk getur þá ávaxtað í hagstæðum skuldabréfum. Og hvað er þetta stór hópur? Það er áætlað að þetta geti verið um 15% af heildinni sem eigi rétt á um 500 millj. kr. úr húsnæðiskerfinu. Og á meðan við höfum efni á að veita þessum hópum 500 millj. kr. af því takmarkaða fjármagni sem er til ráðstöfunar getum við staðið frammi fyrir því að fjölda fólks sé úthýst úr húsnæðiskerfinu. Og hvað með greiðsluerfiðleika hópanna sem mikið er talað um, sem byggði á umliðnum árum? Sérstakt fjármagn sem ætlað var til þessa hóps er þrotið. Þessir hópar standa uppi með eignir sínar mikið veðsettar og þær eru erfiðar í sölu. Á meðan höfum við efni á að veita nokkur hundruð millj. kr. til fólks sem ekki þarf á því að halda. Er ekki eitthvað gallað í þessari húsnæðislöggjöf sem nauðsynlegt er að endurskoða núna í ljósi reynslunnar?

Við getum líka horft á þetta mál út frá annarri hlið. Ef það er niðurstaðan að fólk standi ekki fjárhagslega undir greiðslubyrði lána, hagstæðra lána sem eru til 40 ára með 3,5% vöxtum, og hafi ekki tekjur til þess að standa undir greiðslubyrði, af hverju er það? Má ekki rekja það að einhverju leyti til vaxtafrelsisins, til hárra raunvaxta, minnkandi kaupgetu?

Í fyrsta lagi er alveg ljóst að sú röksemd er fallin sem margir hafa haldið fram, talið að nýja kerfið mundi létta verulega á félagslegum íbúðabyggingum. Skilyrðin sem uppfylla þarf virðast þvert á móti auka á þörf fyrir félagslegar íbúðabyggingar. Í öðru lagi er rétt að skoða málið í því ljósi hvers vegna svo mörgum, ef til vill um 15% af þeim umsóknum sem bárust fyrir áramót, er vísað frá t.d. vegna ónógra tekna. Það sem hefur ekki síst áhrif á greiðslubyrðina eru háir raunvextir. Benda má á að frá árinu 1980 til 1986 hafa raunvextir á fasteignaveðlánum hækkað um a.m.k. 3,5% Þessi hækkun á raunvöxtum jafngildir 47% minnkun kaupmáttar. Kannske er hér komin meginskýring þess hvers vegna fólk stendur ekki undir greiðslubyrði lána, að það megi rekja beint til hárra raunvaxta og kjaraskerðingar. Í þessu sambandi vil ég benda á að Stefán Ingólfsson, sem starfaði hjá Fasteignamati ríkisins hefur haldið því fram að fyrir hvert 1% sem raunvextir af fasteignaveðlánum hækki minnki kaupgeta fólks sem er að kaupa sína fyrstu íbúð um sem svarar einu herbergi í íbúð. Þetta þýðir m.ö.o. að fyrir hvert 1% sem raunvextir lækka og miðað við kaup á meðalíbúð getur þetta fólk keypt íbúð sem er hálfri millj. kr. dýrari með sömu greiðslubyrði og áður. Kannanir sem gerðar voru á vegum félmrn. og birtar voru 1985 benda til þess að yngstu kaupendum fasteigna hafi fækkað um 10% 1980-1984. Enn fremur hafi íbúðir þær sem fólkið keypti minnkað. Árið 1980 keyptu t.d. 24% fólks á aldrinum 22-26 ára fjögurra herbergja íbúð eða stærri, en 1984 voru það einungis um 8%. Ég tel nokkuð ljóst að þessa þróun, sem orðið hefur og mun halda áfram, megi rekja til hárra vaxta og kjaraskerðingar á umliðnum árum.

Ég ræddi hér áður, þegar húsnæðismálin voru til umfjöllunar, um verðhækkun sem orðið hefur á íbúðum. Ég hef haldið því fram að á s.l. 5-6 mánuðum hafi hækkun á 3-4 herbergja íbúðum orðið um 30% og það jafngildi 60% verðbólgu á fasteignamarkaðnum á ári. Ég hef bent á að 3 herbergja íbúð sem kostaði í ágúst 2,2 millj. kosti nú um 2,8-2,9 millj. kr. Hún hafi hækkað um 6-700 þús. og þriðjungur af 1700 i.ús. kr. láni forgangshópa hafi horfið í verðhækkanir. Ég hef einnig haldið því fram að útborgun hafi hækkað úr 71% í 75%. Það þýðir að útborgun í 3 herbergja íbúð, sem var í ágúst s.l. 1560 þús. kr., er nú komin í 2,1 millj. kr. Útborgunin hefur m.ö.o. hækkað um 500 þús. kr. vegna verðhækkunar og meiri útborgunar í íbúð.

Hæstv. félmrh. dró í efa það sem ég hafði talað um varðandi verðhækkanirnar, en ég held að einmitt það sem hefur komið fram að undanförnu, m.a. í fjölmiðlum, staðfesti þetta. Mig minnir að það hafi verið í gær eða fyrradag í sjónvarpi sem formaður Félags fasteignasala staðfesti þessar miklu hækkanir sem orðið hafa og einnig Stefán Ingólfsson sem þar tjáði sig um þessi mál. (HBl: Hver er aftur Stefán Ingólfsson?) Ég held að hv. þm. Halldóri Blöndal ætti að vera kunnugt um það og ég tel að hann hefði átt að taka meira tillit til sjónarmiða Stefáns Ingólfssonar sem fram hafa komið um húsnæðismál. (HBI: Er það maðurinn sem vann hjá Fasteignamatinu?) Það mun rétt vera.

Í þessari sjónvarpsumfjöllun kom fram að verðhækkun á fasteignum á s.l. tíu mánuðum hefði orðið um 40%. Bull, segir hæstv. ráðh. Ég veit ekki hvort hæstv. ráðh. hefur talað við fólk sem hefur á umliðnum mánuðum verið að leita sér að íbúðum. Það getur staðfest allt þetta sem fram hefur komið, að slík verðhækkun hafi orðið. Við getum spurt hvaða áhrif þessi mikla verðþensla á íbúðum hefur. Við getum spurt hvort t.d. allur ávinningurinn af nýju húsnæðislögunum sé horfinn í verðhækkanir og við getum líka spurt hvaða áhrif þessi verðhækkun hafi á greiðsluáætlanir fólks. Þegar fólk sækir um lán þarf það að leggja fyrir áætlanir t.a.m. um greiðslugetu. En þessar áætlanir eru orðnar hrein markleysa þegar viðkomandi fær sín lán vegna þess að það hefur orðið svo mikil verðhækkun á íbúðum.

Og hvað getur skeð, ég spyr hæstv. ráðh., ef greiðsluáætlun og greiðslugeta viðkomandi sem sækir um í september er fullnægjandi þá en þegar hann fær sitt lán afgreitt, guð má vita hvenær, hefur komið í ljós að verðhækkanirnar hafa orðið svo miklar að hann getur ekki staðið fjárhagslega undir greiðslubyrði lánanna? Kannske hefur hann þá gert kaupsamning. Á hann þá á hættu að áætlanir hans varðandi greiðslubyrði verði endurskoðaðar og þá verði sagt að þó að hann hafi getað staðið undir greiðslubyrðinni í september muni hann ekki, þegar kemur að því að afgreiða lánið, geta staðið undir greiðslubyrðinni, t.d. vegna þessara verðhækkana á íbúðum? Ég spyr hæstv. ráðh.: Er það til í dæminu að þetta geti komið upp?

Varðandi verðhækkanirnar hefur reynslan sýnt að þegar lán hækka í húsnæðiskerfinu fylgir því hækkun á fasteignaverði. En þetta er ekki meginskýringin á þeirri verðþenslu sem hefur orðið á fasteignamarkaðnum. Það hefur m.a. komið fram hjá Félagi fasteignasala. Ákvæði laganna gera ráð fyrir að þeir sem eru að kaupa og byggja í fyrsta skipti hafi forgang, aðrir verði að bíða. Það getur þýtt að þeir sem eiga íbúðir fyrir og vilja stækka við sig þurfi meira og minna að halda að sér höndunum vegna þess að biðtíminn er svo langur eftir lánum. Það eru kannske þeir hópar sem eiga íbúðirnar sem forgangshóparnir sem fá lánin eru að leita eftir. Og framboðið er lítið. Það hefur komið fram. Hæstv. ráðh. ætlar kannske að neita því líka að framboðið er lítið af t.a.m. 3 og 4 herbergja íbúðum og það spennir upp verðið.

Það er alveg ljóst að ef fjármagni er stýrt eins og gert hefur verið í ákveðinn í farveg, eins og til forgangshópa, án þess að að því sé gætt að eðlilegt samræmi sé einnig á stýringu lánsfjár til þeirra sem þurfa að stækka við sig, leiðir það til óeðlilegra verðhækkana fasteigna. Ég hef haldið því fram að það hafi verið verulega ofmetin sú aukning á fjármagni sem áætlað var með nýju lögunum að kæmi á fasteignamarkaðinn. Skýring þess er m.a. sú að lífeyrissjóðirnir beina nú miklu af ráðstöfunarfé sínu í húsnæðiskerfið og í það stefnir að sjóðfélagar hafi takmarkaðan eða engan aðgang að láni frá lífeyrissjóðunum til íbúðakaupa. Í mörgum tilfellum hefðu t.a.m. hjón áður fengið tvö lífeyrissjóðslán og G-lán frá Húsnæðisstofnun sem samtals má áætla að hafi verið fast að 2/3 af því sem nú er frá Húsnæðisstofnun. Nettóaukning fjármagns í húsnæðiskerfið í heild virðist því vera mjög ofmetin. Því hefur verið haldið fram að nettóaukning fjármagns með tilkomu nýju laganna hafi mest orðið 4% af veltu fasteignamarkaðarins eða 5-600 millj. (GJG: Það var ekki nema hluti af lífeyrissjóðunum sem keypti áður bréf.) Já, það má rétt vera. Auðvitað gerðu þeir mikið minna af því en með tilkomu nýju laganna. Það er alveg rétt.

En vegna þess, sem ég sagði, að nettóaukningin hefði orðið mikið minni vil ég vitna í nál. sem ég lagði fram þegar nýja húsnæðislöggjöfin var til afgreiðslu hér á Alþingi. Þar kom fram, með leyfi forseta, og þar er vitnað aftur í Stefán Ingólfsson sem starfaði hjá Fasteignamati ríkisins:

„Frumvarpið mun ekki auka fjármagn á fasteignamarkaði eins mikið og gefið hefur verið til kynna. Kannanir félmrn. sýna að lífeyrissjóðslán sem sjóðirnir veita beint til íbúðakaupenda eru nú jafnhá og G-lánin. Bankalán sem látið er liggja að í grg. að verði óþörf nema um 60% af G-lánum. Með hinu nýja fyrirkomulagi mun draga úr lánum lífeyrissjóðanna beint til kaupenda og e.t.v. bankanna einnig. Mesta nettóaukning á lánsfé sem sýnilegt er að lögin hafi í för með sér er um 4% af veltu fasteignamarkaðarins.“

30% hækkun á verði fasteigna á hálfu ári þýðir að sá hópur sem keypti á þessu tímabili hafi þurft að leggja fram rúmlega 7 millj. kr. meira í reiðufé en ella vegna þessara hækkana. Því spyr maður auðvitað: Getur það verið að nettóaukning á fjármagni í húsnæðiskerfið með tilkomu nýju laganna sé horfin í verðhækkanir?

Herra forseti. Það sem liggur fyrir og hæstv. ráðh. hefur ekki hrakið, fremur staðfest í sínu máli, er að fjármagns- og útlánaþörf er stórlega vanáætluð. Útlánaáætlun, sem þessi nýju lög byggja á, gerði ráð fyrir 3800 íbúðum á ári sem er um 400 íbúðum færra en umsóknir bárust um fyrstu fjóra mánuðina, eða frá september til desemberloka. Varleg áætlun um útlánaþörf sýnir að tvöfalda þarf fjármagn í húsnæðislánakerfið að óbreyttu á næsta ári. Ég ítreka að hér er um varlega áætlun að ræða. Biðtíminn sem hæstv. félmrh. vill helst ekki nefna, hann vill ekki ræða það á hv. Alþingi hvað biðtíminn er orðinn langur, en það er það sem skiptir kannske helst máli fyrir fólkið, hvað lengi það þurfi að bíða eftir þessum lánum, biðtíminn stefnir í að verða á þriðja ár í árslok. Ég skora á hæstv. ráðh. að standa upp og mótmæla því, ef hann telur sig geta það, að meðalbiðtími í desember hafi verið 15 mánuðir og þeir sem sóttu um í janúar, febrúar þurfi margir hverjir að bíða fram til ársins 1989 til að fá sín lán afgreidd. Ég trúi ekki öðru en hæstv. ráðh. hafi kynnt sér þessi mál og beðið Húsnæðisstofnun um að athuga þetta fyrir sig. Þetta skiptir meginmáli vegna þess að það er í það óendanlega hægt að lengja lánstímann ef menn eru ekki tilbúnir að setja það fjármagn inn í húsnæðiskerfið sem þarf.

Það liggur fyrir líka, hverju sem ráðherrann reynir að halda fram, að verðhækkanirnar hafa orðið miklar á fasteignamarkaðnum hér á höfuðborgarsvæðinu og það er hætta á, t.d. miðað við það sem hæstv. ráðh. upplýsti, að ef það eru 15% afföll umsókna af stórum hluta íbúðakaupenda og þeirra sem hafa lagt inn umsóknir, sé þeim úthýst úr húsnæðiskerfinu. Ég held að ráðherra verði að gera Alþingi nánari grein fyrir því af hvaða ástæðum þessi afföll eru, þessi 15% afföll. Ég óska eftir því við hæstv. ráðh. að hann geri Alþingi grein fyrir því þannig að við getum gert okkur grein fyrir þessum vanda.

Ég held, herra forseti, að þessi niðurstaða sýni okkur að þegar í stað þurfi að endurmeta að nýju alla fjármagns- og útlánaþörf. Það er út í hött að það þurfi að bíða eftir því að fá reynslu af nýja kerfinu og ekki þurfi að taka á félagslega hluta húsnæðiskerfisins fyrr en sú reynsla er fengin. Eftir hverju eru menn að bíða? Ég tel, herra forseti, að það sé hægt að byggja á þeirri reynslu sem þegar er fengin, þeim umsóknum sem liggja fyrir. Ætlar hæstv. ráðh. kannske að bíða eftir því að hann standi á rústum húsnæðislánakerfisins í apríl, maí eða júní?

Það kemur fram í áliti milliþinganefndar og dregnir eru til vitnis ekki ómerkari aðilar en aðilar vinnumarkaðarins að það eigi að bíða eftir að reynsla sé fengin. Ég vitna í þessa setningu, með leyfi herra forseta:

„Í umræðunum kom skýrt fram að fulltrúar aðila vinnumarkaðarins, húsnæðismálastjórnar og Húsnæðisstofnunar töldu nauðsynlegt að fá reynslu af nýja lánakerfinu áður en farið væri út í veigamiklar breytingar á félagslega hluta þess.“

Það væri fróðlegt að vita t.a.m. hvort Guðmundur J. Guðmundsson, sem nú er horfinn úr salnum, skrifi undir þessa niðurstöðu, að það verði að fá frekari reynslu af nýja húsnæðislánakerfinu áður en tekið er á félagslega hluta þess. Ég spyr hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson: Ætlar hann að taka undir þessi sjónarmið, þetta álit, með þögninni? Hvert er mat hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar? Telur hann ekki að það liggi fyrir nægileg vísbending um að það þurfi að endurmeta alla stöðuna og það þurfi að veita meira fjármagni inn í félagslega hluta húsnæðiskerfisins? Ég spyr t.a.m. varðandi láglaunafélögin, Iðju, Sókn, Framsókn, Dagsbrún, sem veita stórum hluta af sínu fjármagni inn í húsnæðiskerfið. Ef það kemur í ljós að þeirra félagar fá ekki aðgang að almenna kerfinu af því að þeir geta ekki staðið fjárhagslega undir greiðslubyrði lána og síðan er félagslega kerfið svelt og þeir fá heldur ekki aðgang þar, hvað ætla aðilar vinnumarkaðarins að gera í því máli og verkalýðshreyfingin? Ég tel að það sé ábyrgðarhluti af verkalýðshreyfingunni ef hún ætlar að skrifa undir það sem hér kemur fram, að það eigi að bíða og fá frekari reynslu af því sem þegar liggur fyrir. Það er einsýnt hvert stefnir í þessu máli.

Mér kemur að vísu ekki á óvart það sem fram kemur í séráliti undirrituðu af Halldóri Blöndal, Birni Þórhallssyni, Guðmundi Bjarnasyni, Jóni Sveinssyni og Steingrími Ara Arasyni: „Það er skoðun fulltrúa stjórnarflokkanna að rétt sé að fá nokkra reynslu af hinu nýja lánakerfi áður en lagt er til að því verði breytt í veigamiklum atriðum.“ Ég skil vel að þessir menn vilja bíða eftir reynslunni. Þeir vilja ekki standa frammi fyrir því að taka á þeim vanda sem við blasir. Þeir ætla nýrri ríkisstjórn að leysa þann vanda sem þegar er fyrir hendi, velta honum á undan sér. En verkalýðshreyfingin, aðilar vinnumarkaðarins, ég trúi því ekki að þeir ætli að skrifa undir það sem fram kemur hér.

Hæstv. félmrh. ætlar að gera það. Það er alveg augljóst. Hann hefur haldið því fram að það þurfi að fá reynslu á þessu kerfi. Eftir hverju vill hæstv. ráðh. bíða? Hæstv. ráðh. sagði í sjónvarpi fyrir nokkrum vikum að ef í ljós kæmi að það vantaði fjármagn í nýja húsnæðiskerfið mundi ríkissjóður að sjálfsögðu leggja fram það fjármagn. Það blasir við að þegar á þessu ári vanti fjármagn í húsnæðiskerfið. En hæstv. félmrh. ætlar ekki að leysa það fjárhagsdæmi. Hann ætlar nýrri ríkisstjórn að gera það.

Ég spyr hv. þm. Guðmund J. Guðmundsson og raunar aðila vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfinguna: Er ekkert að því húsnæðiskerfi sem úthýsir kannske stórum hluta fólks af því að það standi ekki fjárhagslega undir greiðslubyrði lána og veiti ekki meiri fyrirgreiðslu til greiðsluerfiðleikahópanna, en síðan veitir það hópum rétt sem ekki höfðu lánsrétt áður, þ.e. þeim hópum sem eiga stórar skuldlausar eignir og eru að minnka við sig? (Félmrh.: Hvar liggur þetta fyrir?) Ætlar hæstv. ráðh. að mótmæla því að nýja húsnæðislöggjöfin hafi opnað fyrir það? (Félmrh.: Hvar liggur fyrir að það sé búið að útiloka fólk?) Ég var að lesa bréf fyrir hæstv. ráðh. áðan þar sem er t.d. synjun. (HBl: Það væri rétt að endurtaka það.) Þar er t.a.m. um synjun að ræða vegna þess að viðkomandi getur ekki staðið fjárhagslega undir þessu. Þetta er undirritað af Húsnæðisstofnun. (Félmrh.: Það er ekki rétt að fara að blanda þessu inn í þessa umræðu.) Getur hæstv. félinrh. staðfest að hér sé um eitt einasta tilfelli að ræða? Ef svo er er það mjög gott og ég óska eftir því að hæstv. félmrh. staðfesti það þá hér og nú að hér sé um eitt einasta tilfelli að ræða. Hann hlýtur þá að hafa kynnt sér þetta mál og hann staðfestir það þá að hér sé um hreina undantekningu að ræða. (GJG: Þm. má ekki spyrja aðra þm. og hleypa þeim svo ekki að, tala í allt kvöld.) Ég hygg að þegar við erum að ræða svo mikilvægt mál getum við fundið okkur nægan tíma til að ræða þetta fram eftir kvöldi ef þarf. (HBI: Mér finnst endilega að þm. eigi að halda áfram.)

Já, ég tel að aðilar vinnumarkaðarins, verkalýðshreyfingin sem fjármagnar þetta húsnæðiskerfi að stórum hluta, eigi að athuga sinn gang, hvort þeir eigi ekki að beita sér fyrir því að meira af fjármagni lífeyrissjóðanna fari í félagslega hluta kerfisins. Ég veit að hv. þm. Halldór Blöndal er á móti því, en ég veit að aðilar vinnumarkaðarins geta haft þau áhrif að meira fjármagni verði beint í félagslega hluta húsnæðiskerfisins. Við getum spurt um annað varðandi íbúðir úti á landi. Þar hafa ekki orðið verðhækkanir, fremur verðfall á íbúðum. Hvernig getur landsbyggðarfólk nýtt sér nýja húsnæðiskerfið? Nú er vitað að 55% af ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna úti á landi renna í húsnæðiskerfið og ef það er ljóst að landsbyggðarfólk getur í litlum mæli nýtt sér lánsrétt í húsnæðiskerfinu, jafnvel þó að stór hluti af fjármagni í þeirra eigin lífeyrissjóði renni í húsnæðiskerfið, þarf auðvitað að athuga það mál sérstaklega. Spurning er hvort fjármagn úr lífeyrissjóðum fólksins úti á landi renni í það að fjármagna verðþensluna á höfuðborgarsvæðinu. Hvað segja þm. stjórnarflokkanna í kjördæmunum úti á landi t.a.m. um það?

Herra forseti. Ég get hvað úr hverju farið að ljúka máli mínu. Ég tel einsýnt að það þurfi að taka félagslega hluta íbúðakerfisins til gagngerðrar endurskoðunar þegar í stað og ég harma það álit, sem fram kemur í skýrslu félmrh. um álit milliþinganefndar, að það eigi að fresta því að taka ákvörðun eða afstöðu í því máli að því er varðar félagslega hlutann. Það liggur fyrir í könnun, sem var lögð fram á Alþingi, að það vantar á næstu árum fast að 3000 félagslegar íbúðir. Það liggur fyrir. Og hvað kemur fram í áliti milliþinganefndar um þetta mál þó hún skili auðu að því er varðar félagslega hluta íbúðakerfisins? Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Fram kom að mikil þörf virðist vera á íbúðum í verkamannabústöðum. Eftirspurn er langt umfram það fjármagn sem Byggingarsjóður verkamanna hefur til ráðstöfunar.“ - Langt umfram það fjármagn sem Byggingarsjóður verkamanna hefur til ráðstöfunar. Samt á ekkert að gera í málinu. Bara skila auðu og sagt að eigi að bíða þangað til komin er reynsla á kerfið.

Það kemur hér fram líka, með leyfi forseta: „Framkvæmdastjóri Sambands ísl. sveitarfélaga hefur á fundum með nefndinni og með bréfi til hennar bent á að það fólk sem verst er statt í þjóðfélaginu getur ekki risið undir vöxtum og afborgunum af lánum til kaupa á íbúðum í verkamannabústað.“ Samt á að bíða, samt er skilað auðu að því er varðar félagslega hlutann.

Í áliti milliþinganefndar hefur t.a.m. Magnús H. Magnússon skilað séráliti og hann leggur áherslu á byggingu kaupleiguíbúða. Ég held að allt sem hefur komið fram og fram kemur í áliti milliþinganefndar og af þeirri reynslu sem þegar er fengin styðji að það eigi að koma á kaupleiguíbúðum. Það leysir t.a.m. þann vanda, sem fram kemur hjá framkvæmdastjóra Sambands ísl. sveitarfélaga í nál., að það fólk sem verst er statt í þjóðfélaginu geti ekki risið undir vöxtum og afborgunum af lánum til kaupa á íbúð í verkamannabústað. Hv. þm. Halldór Blöndal, sem er einn þeirra sem hafa haldið því fram að nýja húsnæðislánakerfið mundi létta verulega á félagslegum íbúðabyggingum og hann má helst ekki heyra þær nefndar, það eigi að bíða þangað til reynsla er fengin, hvað segir hann um það sem fram kom í Morgunblaðinu, hans blaði, að leiguíbúðaskortur standi atvinnulífinu fyrir þrifum? Samt á ekkert að gera í málinu, bara bíða.

Herra forseti. Formaður milliþinganefndarinnar var hv. þm. Guðmundur Bjarnason. Ég spyr hvort hv. þm. Guðmundur Bjarnason sé hér einhvers staðar nærstaddur eða hvort það sé hægt að ná til hans. (Forseti: Það skal verða gerð gangskör að því að athuga um hv. þm. Guðmund Bjarnason, hvort hann er hér.)

Hæstv. félmrh. nefndi það hér og fullyrti að ég væri andvíg kjarasamningum aðila vinnumarkaðarins. Hann hefur sennilega meint að ég væri og hefði verið andvíg nýju húsnæðislöggjöfinni. Ég hygg að hæstv. ráðh. sé kunnugt um að ég skilaði sérnál. þegar húsnæðislöggjöfin var til umræðu á síðasta þingi. Og hver var ástæðan til þess? Var ástæðan sú að ég var á móti nýju húsnæðislöggjöfinni? Ég vitna til þess, með leyfi hæstv. forseta.

Það kom fram í þessu nál. að þó að nokkrir ágallar væru á frv. að því er takmörkun á lánsrétti varðar sem og að fjármögnunarþáttur ríkissjóðs til að tryggja að við ákvæði frv. væri hægt að standa væru þau í mikilli óvissu. Það hefur komið í ljós. Þetta var ein ástæða þess að ég skilaði séráliti. Ég skilaði einnig séráliti vegna þess að ég taldi að það þyrfti að auka miklu meira en ráð var fyrir gert fjármagn til félagslegra íbúðabygginga. En þrátt fyrir að ég taldi þessa annmarka vera á frv. kom fram í nál.Alþfl. styður frv. og þar með það samkomulag sem gert var í nýgerðum kjarasamningum um húsnæðismál. Alþfl. telur þó rétt að flytja brtt. um nokkur atriði húsnæðiskerfisins, m.a. það að koma á kaupleiguíbúðum. En þær voru auðvitað felldar.

Ég óskaði eftir nærveru formanns milliþinganefndar. Ég spyr hann og hæstv. félmrh. að því, af því að við erum að ræða hér félagslega hluta íbúðarkerfisins, hvort hæstv. ráðh. og milliþinganefndin hafi, meðan á störfum milliþinganefndarinnar stóð, fengið bréf undirritað af verkakvennafélaginu Framsókn, starfsmannafélaginu Sókn og verkakvennafélaginu Framtíðinni í Hafnarfirði, þar sem skorað er á þessa aðila, milliþinganefndina og hæstv. félmrh., að beita sér fyrir því að kaupleiguíbúðir komist til framkvæmda. Ég hef haft fregnir af því að þetta bréf, sem nefndinni barst í september, hafi ekki einu sinni verið kynnt nefndarmönnum. Ég vil, með leyfi forseta, því fá að lesa þetta bréf, en það hljóðar svo:

„Starfsmannafélagið Sókn, verkakvennafélagið Framsókn og Framtíðin í Hafnarfirði beina þeirri áskorun til félmrh. að staðið verði við ákvæði laga um Húsnæðisstofnun ríkisins sem kveður á um að félagslegar íbúðir verði 1/3 hluti af árlegri íbúðaþörf landsmanna. Ljóst er að stór hluti láglaunafólks getur ekki nýtt sér ákvæði nýju húsnæðislaganna þar sem það þarf sjálft að leggja fram 30% af kaupverði íbúðar. Miðað við 3-4 herbergja íbúð gæti verið um að ræða 6-900 þús. kr. sem láglaunafólki er um megn að standa undir, ekki síst þar sem hætta er á að lánafyrirgreiðsla utan húsnæðislánakerfisins verði mjög takmörkuð.

Ofangreind félög benda á að kaupleiguíbúðir sé sá kostur sem best muni henta hagsmunum láglaunafólks við íbúðaröflun. Kostir þess eru augljósir þar sem láglaunafólk getur valið um leigu eða kaup eftir aðstæðum hvers og eins og eingöngu er gert ráð fyrir hóflegum föstum mánaðargreiðslum, hvort sem um kaup eða leigu er að ræða.

Því skorum við á félmrh. að hann beiti sér fyrir að opnað verði fyrir lagaheimild sem tryggi að hægt sé að koma á kaupleigufyrirkomulagi við íbúðaröflun. Jafnframt er bent á að kannað verði hvort kaupleigufyrirkomulag geti hentað til að tryggja öldruðum og öryrkjum í stórauknum mæli aðgang að þjónustuíbúðum sem henta þörfum þess gegn hóflegum mánaðargreiðslum með vali um leigu eða kaup á slíkum íbúðum.

Starfsmannafélagið Sókn, verkakvennafélagið Framsókn og Framtíðin í Hafnarfirði hvetja heildarsamtök launafólks til að beita afli sínu og samtakamætti til að kaupleigufyrirkomulagið verði að veruleika. Skorum við jafnframt á milliþinganefnd sem nú starfar í húsnæðismálum að leggja til við félmrh. að kaupleigufyrirkomulagið verði tekið upp því að það er augljóslega lausn á húsnæðisvanda láglaunafólks.“

Ég spyr formann milliþinganefndar og hæstv. félmrh.: Hverju sætir að ekki hefur verið tekið á þessu máli, að það hefur ekki einu sinni verið kynnt í milliþinganefndinni?

Ég tel mig, herra forseti, hafa sýnt fram á hér í máli mínu að það þurfi að endurmeta alla stöðuna í húsnæðiskerfinu og ég tel að hæstv. félmrh. verði að gera sér grein fyrir því að ef vísa á fólki frá úr almenna kerfinu er komið upp nýtt og alvarlegt vandamál. Það þýðir það að ef vísa á 5 eða 10% umsækjenda frá sökum lágra tekna, þá jafngildir það sennilega 20-30% aukningu á þörf fyrir félagslegar íbúðir og leiguíbúðir. Þá má spyrja ráðherra hvað hann ætti að gera til þess að koma í veg fyrir óeðlilega verðþenslu á fasteignum. Og ég spyr hæstv. ráðh. enn fremur hvort hann hafi skoðað þá hugmynd, sem ég veit að hefur verið rædd í stjórn Húsnæðisstofnunar, að vísu áður en nýju húsnæðislögin voru sett, eða leið til þess að lækka útborgun á fasteignamarkaðnum að tengja lánsloforð því að útborgun fari ekki yfir 50% af kaupverði íbúðar.

Hefur til að mynda hæstv. félmrh. skoðað þessa leið?

Ég get nú farið að ljúka máli mínu, en mig langar samt sem áður áður en ég lýk máli mínu til að spyrja hæstv. ráðh. um það sem fram kemur í frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins sem var rædd á síðasta þingi. Þar kemur eftirfarandi fram í athugasemdum með lagafrv., og þar er vitnað til samkomulags milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar, með leyfi forseta:

„Aðgerðir til lausnar á greiðsluerfiðleikum þeirra sem byggðu eða keyptu húsnæði á árunum 1980 og síðar. Nú þegar verði varið 300 millj. kr. til viðbótar þeim 200 millj. kr. sem fyrir stuttu var ákveðið að verja til þeirra sem eiga í greiðsluerfiðleikum.“

Nú vil ég spyrja varðandi þessar 300 millj., hæstv. ráðh., sem renna áttu til þeirra sem voru í greiðsluerfiðleikum: Hefur ríkissjóður látið þessar 300 millj. af hendi? Hefur ríkissjóður lagt fram inn í húsnæðiskerfið þessar 300 millj.? Ráðherra gæti svarað mér úr sæti sínu ef hann vildi. Hann gæti svarað því með jái eða neii. Eða hafa þessar 300 millj. verið teknar af fjármagni til að mynda Byggingarsjóðs ríkisins? Getur verið að ríkissjóður standi í skuld við Byggingarsjóð ríkisins um þessar 300 millj. kr.? Hvernig var staðið að því að greiða þessar 300 millj. inn í Byggingarsjóð ríkisins? Ég óska eftir því, hæstv. félmrh., að það verði upplýst við umræðuna hvort þessar 300 millj. kr. hafi þegar verið greiddar inn í húsnæðiskerfið eða hvort ríkissjóður skuldi enn þá Byggingarsjóðnum þessa upphæð?

Mig langar líka að spyrja hæstv. ráðh. varðandi það loforð og samkomulag sem varð milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar: Hvað með húsnæðisafsláttinn sem fram kom í samkomulagi aðila vinnumarkaðarins við ríkisstjórnina? Hér stendur með leyfi forseta: „Frá og með árinu 1986 verður þeim sem kaupa eða byggja í fyrsta sinn veittur húsnæðisafsláttur, x kr. á ári í 10 ár miðað við núgildandi verðlag.“ Hefur verið við þetta staðið? Hefur fólk fengið þennan húsnæðisafslátt? Hvað líður því að standa við þetta loforð?

Ég spyr hæstv. ráðh. í lokin hvort það sé rétt sem fram kemur í nýjum Helgarpósti frá s.l. viku. Þar segir, með leyfi forseta:

„Það sem e.t.v. er alvarlegast í málinu - þar eru þeir að ræða hrun húsnæðiskerfisins - er sú staðreynd að allt bendir til þess að félmrh. hafi átt aðgang að upplýsingum eða haft undir höndum upplýsingar sem gáfu allt þetta til kynna án þess að láta þær koma fram þegar nýtt lánakerfi var samþykkt a Alþingi s.l. vor.“

Þetta eru alvarlegar ásakanir sem hér koma fram, ef það er rétt að hæstv. félmrh. hafi legið á þessum upplýsingum um að um vanáætlun væri að ræða sem fram kom í grg. með frv.

Herra forseti. Í lokin beini ég þeirri spurningu til ráðherra, og ég ætlast til að hæstv. ráðh. svari henni hér við umræðuna, hvort honum sé ekki kunnugt um hvort um það hafi verið rætt í húsnæðisstjórn, hvort fyrir liggi skýrsla um það, hver sé áætlaður biðtími núna? Hvað má áætla að hann verði langur á janúar-, febrúar- og marsumsóknum og hvað áætlar húsnæðisstjórn að berist margar umsóknir á þessu ári? Liggur ekkert fyrir um þetta mál? Ég spyr hæstv. ráðh. Ég tel það mjög alvarlegt mál ef yfirmaður húsnæðismála, hæstv. félmrh., ætlar að taka undir þau sjónarmið sem fram koma í áliti milliþinganefndar, og ég ætla gegn betri vitund, að það þurfi að fást reynsla af þessu nýja húsnæðislánakerfi áður en það verður endurmetið, áður en verður tekið á félagslega hluta þess. Ætlar hæstv. félmrh. virkilega að taka undir þau sjónarmið? Ef hann gerir það er alveg augljóst hver meining hæstv. félmrh. er. Hann hefur ekki burði eða getu til þess að standa við þau loforð sem fram komu í nýju húsnæðislöggjöfinni. Hann ætlar nýrri ríkisstjórn að leysa vandann. Það er málið.