17.02.1987
Sameinað þing: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3203 í B-deild Alþingistíðinda. (2887)

307. mál, álit milliþinganefndar um húsnæðismál

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Þegar frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins var til umræðu í apríl í fyrra, þá skilaði ég nál. þann 23. apríl 1986, þar sem ég mælti með því að frv. yrði ekki samþykkt óbreytt. Í framsögu minni þann sama dag koma að nokkru leyti fram þau sjónarmið sem því ollu að ég taldi mig ekki geta samþykkt frv. óbreytt og vil ég, með leyfi forseta, rifja þau upp að nokkru leyti, þó ekki í heild sinni, það tæki of langan tíma. Þar sagði ég, með leyfi hæstv. forseta:

„Því hefur verið haldið fram af ríkisstjórn og náttúrlega stjórnarliðum að það frv. sem við erum að tala um gjörbreyti uppbyggingu húsnæðiskerfisins. Ég byrja á því að andmæla þeirri skoðun þó að það hafi kannske ekki mikið upp á sig í sjálfu sér. Þessi fullyrðing er náttúrlega alröng því að það verður ekki nein gjörbreyting á neinu öðru en því hvernig einstaklingar ávinna sér lánsrétt. Sú breyting er að mínu mati síst til batnaðar því að áður höfðu landsmenn allir almenn réttindi hvað lánum úr þessum sjóði viðkom en núna eru það orðin sérréttindi sem menn verða að ávinna sér með ærinni fyrirhöfn og eftir mjög flóknum leiðum að verða hæfir til fullrar lántöku í þessum sjóði.

Það sem ég hef aðallega að þessu frv. að finna og kemur fram í þeim brtt. sem við hv. þm. Kolbrún Jónsdóttir höfum lagt fram við málið er að það er ekki um grundvallarstefnubreytingu að ræða, hér er haldið áfram þeirri byggingar- og útþenslustefnu með þeirri lánapólitík sem hér er rekin og við höfum kynnst undanfarin ár og áratugi. Í stað þess að nýta þær fjárfestingar sem við höfum á að ýta fólki áframhaldandi út í viðbótarfjárfestingar og offjárfestingu á þessum markaði sem er nú þegar staddur þannig að Íslendingar búa við stærstan húsakost allra þjóða í veröldinni. Séu teknir byggðir fermetrar í íbúðarhúsnæði og íbúafjöldi er engin þjóð í veröldinni sem býr við jafnstóran húsakost í fermetratölu á mann. Þess vegna tel ég að rökrétt afleiðing eigi að vera sú að leggja miklu meiri áherslu á lán til kaupa á notuðu húsnæði en nýju. Þetta hafa menn kallað í orðræðu undanfarin ár húsnýtingarstefnu og hún verður náttúrlega ekki að veruleika nema þess sjái stað í lögunum að lántakendur geti borgið hag sínum betur með kaupum á notuðu húsnæði en nýju. Húsnýtingarstefnan hefur líka það sér til ágætis að viðhald verðgildis notaðs húsnæðis helst betur með því að leggja áherslu á kaup á notuðu húsnæði, viðgerðir, viðhald og endurnýjun á notuðu húsnæði, frekar en síaukna áherslu á nýbyggingar og útþenslu í byggð.

Einnig er það öllum ljóst sem sjá vilja að hlutur landsbyggðarinnar er hraklega fyrir borð borinn með þessari nýbyggingar- og útþenslustefnu því að verðgildi eigna landsbyggðarfólks stendur náttúrulega í enn þá sterkara samhengi við áherslu stjórnvalda í húsnæðismálum en verðgildi eigna á höfuðborgarsvæðinu. Það má fullyrða það að þegar þetta frv. er fram komið, með þessari mismunun á milli þeirra sem byggja og kaupa nýtt og þeirra sem kaupa notað eða gera við notað, á það eftir að hafa áhrif til enn þá meiri lækkunar á verði fasteigna úti á landi, enn þá meiri verðmismunar milli eigna úti á landi og eigna hér á höfuðborgarsvæðinu. Og þeir sem halda því fram að þetta hafi ekki áhrif á byggðamál eru með lokur fyrir báðum augum. Ég held að svona aðgerðir hafi miklu meiri áhrif, miklu alvarlegri áhrif en margar þeirra aðgerða sem menn eru að efna til með annars konar löggjöf þegar menn eru að lýsa vilja sínum í byggðamálum.

Ég held að það liggi alveg í augum uppi hvernig gallarnir á þessu frv. eru til komnir. Þeir aðilar sem stóðu að því að semja grundvöll þessa frv. voru þar í hlutverki gæslumanna mjög sértækra hagsmuna, annars vegar vinnuveitenda og hins vegar launþega. Þeir sjá náttúrlega enga brýna ástæðu til þess að gæta neinna altækra hagsmuna þar sem þeirra umboð er miklu afmarkaðra en umboð þm. Það sem aftur á móti átti ekki að koma fyrir og var í raun og veru alveg ónauðsynlegt var að flytja þessa sértæku hagsmunagæslu inn í frv. með þeim hætti sem gert er.

Að síðustu vil ég eingöngu minna á það að vegna þess hversu afmarkaðra hagsmuna var gætt þegar grundvöllur þessa frv. var saminn er t.d. sá hópur sem verst hefur orðið úti vegna kjaraskerðingar ríkisstjórnarinnar enn þá skilinn eftir úti. Hann er ekki inni í þessu frv. Hann hefur ekkert upp á að hlaupa annað en loðin loforð manna um upphæðir og aðgerðir sem hann enn þá hefur lítið sem ekkert séð af. Þar held ég að hvað alvarlegast sé það loforð sem gefið var fyrir bráðlega hálfu ári síðan, um það að ríkisstjórnin mundi beita sér fyrir skuldbreytingum lána í bönkum, sparisjóðum og lífeyrissjóðum. Enn þá hafa þessar stofnanir ekki heyrt eitt einasta orð frá ríkisstjórninni um þetta mál og er þó margsinnis og ítrekað búið að reka á eftir því héðan úr báðum deildum þingsins.“

Það minnir mig á orð sem hæstv. ráðh. hafði hér undir lok málsins þar sem hann talaði um það að Húsnæðisstofnun ynni að því með bönkum, sparisjóðum og fasteignasölum að treysta kerfið. Ef treysta má orðum ráðherra jafnmikið í þessu tilviki eins og áður, þá gef ég ekki mikið fyrir slíkar yfirlýsingar.

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða um skýrslu félmrh. um álit milliþinganefndar um húsnæðismál. Það var mjög eftirtektarvert að hæstv. ráðh. sá ekki tilefni til þess að lesa eitt eða neitt upp úr þessari skýrslu eða á einn eða annan hátt láta álit sitt í ljós um innihald hennar og efni nema hvað hann las upp álit meiri hl. nefndarinnar eða stjórnarmeirihlutans í nefndinni, sem er að finna á bls. 16 og 17 í skýrslunni, og þar með búið.

Umræða sú sem hér á sér stað, herra forseti, er að nokkru leyti þannig til komin að strax og þessi skýrsla barst á borð þm., þá lagði ég fram fsp. til hæstv. ráðh., aðallega um það hvort hann teldi að milliþinganefndin hefði virkilega staðið við erindisbréf sitt með afhendingu þessarar skýrslu. Mér skilst að það hafi síðan orðið að samkomulagi milli forseta Sþ. og ráðherra að fsp. þessi skyldi ekki koma fyrir þar sem ráðherra lýsti sig reiðubúinn til þess að ræða efni þessarar skýrslu og setja hana á dagskrá til þess að svo mætti verða. Nú bregður svo við að þegar hann kemur hér og mælir fyrir þessari skýrslu þá sér hann ekki ástæðu til þess að ræða efni hennar með einum eða öðrum hætti.

Til þess að ekkert fari hér á milli mála má rifja upp að erindisbréf þeirrar nefndar, sem almennt hefur gengið undir nafninu „milliþinganefndin“, er að finna á bls. 2 í skýrslunni og þar er eftirfarandi atriðum vísað til þessarar nefndar til nánari athugunar:

„1. Reglur um veð og veðhæfni íbúða.

2. Kaupleiguíbúðir, húsnæðissamvinnufélög og leiguhúsnæði.

3. Fjármögnun húsnæðislánakerfisins til frambúðar.

4. Áhrif nýja húsnæðislánakerfisins á félagslegar íbúðabyggingar og verkamannabústaðakerfið yfirleitt.

5. Verndaðar þjónustuíbúðir fyrir öryrkja og/eða aldraða.

6. Staða og hlutverk ráðgjafarþjónustu Húsnæðisstofnunar.

7. Ráðstafanir til þess að koma enn frekar til móts við þá sem höfðu byggt eða keypt íbúð og lent í verulegum greiðsluerfiðleikum eftir 1980 og hið nýja húsnæðislánakerfi tekur ekki til.

8. Stærðarmörk íbúða verði athuguð sérstaklega og reglur opinberra stofnana þar að lútandi samræmdar.“

Enn fremur óskaði meiri hl. félmn. Nd. Alþingis eftir því að nefndin kannaði með hvaða hætti ætlunin sé að framkvæma ákvæði 12. gr. núgildandi laga um Húsnæðisstofnun ríkisins, en henni var breytt með 3. gr. laga nr. 54/1986, um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, nr. 60/1984, sbr. lög nr. 77/1985. Í þeirri grein er að finna ákvæði um það með hvaða hætti lánsréttur stofnast hjá Byggingarsjóði ríkisins. Einnig beindi félmn. Nd. því til nefndarinnar, þ.e. milliþinganefndarinnar, að kannað yrði hvernig farið skyldi með lánsrétt þeirra sem ekki geta nýtt sér lánsrétt sinn til fulls við kaup á fyrstu íbúð vegna þess að um ódýra eða litla íbúð er að ræða. Til skýringar er þess getið að haft sé í huga að viðkomandi þurfi á stærri íbúð að halda vegna breyttra aðstæðna.

Hérna er fjöldi atriða sem nefndur er í erindisbréfi þessarar milliþinganefndar og maður skyldi halda vegna þeirrar miklu þagnar sem verið hefur um innihald þessarar skýrslu að nefndin hefði í raun og veru ekki komist að neinni niðurstöðu. Samt sem áður er að lesa á bls. 8 og 9 í skýrslunni ýmis mjög athyglisverð atriði sem ég tel eðlilegt að komi fram. Þar segir - og er þá verið að vitna til umræðna um upplýsingar sem fram komu í nefndinni:

„Samkvæmt fjárlögum er gert ráð fyrir að samanlögð útlán sjóðanna nemi 5057 millj. kr. árið 1987 og að Húsnæðisstofnun taki að láni 3815 millj. kr., þar af 3765 millj. kr. hjá lífeyrissjóðum. Ef gert er ráð fyrir að meðalútlánsvextir Húsnæðisstofnunar séu 3% og að vextir af teknum lánum séu 6% kemur stofnunin til með að „tapa“ árlega í vaxtamun 77,2 millj. kr. Þetta þýðir að það fé sem ríkissjóður veitir í ár til sjóðanna dugar til niðurgreiðslu útlánsvaxta í tæp 17 ár. Með hliðsjón af því að útlán Húsnæðisstofnunar eru trúlega að meðaltali til 35-40 ára er ekki hægt að tala um að horfur kerfisins séu bjartar.“ - Þetta segir milliþinganefndin.

„Ef gert er ráð fyrir að beinn og óbeinn vaxtakostnaður hins opinbera vegna veittra húsnæðislána sé 6% á ári og að þær 5057 millj. kr. sem áætlaðar eru í útlán 1987 séu að meðaltali veittar til 40 ára og beri 3,5% vexti þýðir vaxtaniðurgreiðslan að bæði ríkissjóður og lántakendur gætu verið jafnsettir ef 1526 millj. kr. hefði verið veitt í óafturkræfan húsnæðisstyrk og 3531 millj. kr. lánuð til 40 ára með 6% vöxtum. Sú staðreynd að miðað við 6% ávöxtunarkröfu fela lán Húsnæðisstofnunar í sér að yfir 30% lánsfjárhæðarinnar er í raun styrkur til þeirra sem taka lánin kallar á eftirspurn sem seint verður hægt að fullnægja.“ - Með tilliti til þeirra upplýsinga sem fram eru komnar núna sýnist manni að þessi nefnd hafi vitandi eða óafvitandi verið að nálgast það vandamál sem nú er bersýnilegt allhröðum skrefum hvað sem síðar varð um tillögugerð í því máli. - „Margir sækja um lán þótt þeir gætu auðveldlega gert húsnæðiskaupin án hinnar opinberu fyrirgreiðslu og enn fleiri sækja um hærri lán en þeir í raun og veru þurfa. Að veita opinbera húsnæðisaðstoð í formi vaxtaniðurgreiðslu er ómarkviss og kostnaðarsöm leið.“

Síðan segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Í framhaldi af framangreindum sjónarmiðum komu eftirfarandi hugmyndir fram í nefndinni: Útlánsvextir allra nýrra lána Húsnæðisstofnunar (hvort sem um er að ræða Byggingarsjóð ríkisins eða Byggingarsjóð verkamanna) verði sambærilegir þeim vöxtum sem ríkissjóður býður almennt á fjármagnsmarkaði. Í stað þeirrar niðurgreiðslu sem nú á sér stað á vöxtum Húsnæðisstofnunar verði veitt óafturkræft húsnæðisframlag úr ríkissjóði, annars vegar húsnæðiskaupaframlag og hins vegar húsnæðisleiguframlag.

Varðandi húsnæðiskaupaframlagið má hugsa sér að það sé fyrst og fremst veitt þeim sem eru að kaupa eða byggja sína fyrstu íbúð (þeim sem ekki eiga íbúð fyrir) og komi almennt til útborgunar á ákveðnum árafjölda (t.d. á tíu árum) eftir undirritun kaupsamnings. Þetta framlag þyrfti ekki að vera háð því hvort verið væri að kaupa nýtt eða notað húsnæði eða hvort mikil eða lítil lán væru tekin til að fjármagna kaupin. Framlagið gæti hins vegar verið háð því hvort um hjón eða einstakling væri að ræða og árlegum tekjum hlutaðeigandi að teknu tilliti til fjölskyldustærðar.

Varðandi húsnæðisleiguframlag má hugsa sér að það sé fyrst og fremst veitt þeim (hjónum, sambýlisfólki, einstaklingum) sem eiga ekki íbúðarhúsnæði og hafa ekki fengið húsnæðiskaupaframlag eða aðra sambærilega húsnæðisaðstoð frá hinu opinbera. Árlegt leiguframlag gæti verið ótímabundið og að öðru óbreyttu 40-50% af árlegu húsnæðiskaupaframlagi. Leiguframlagið gæti verið háð árlegum tekjum hlutaðeigandi að teknu tilliti til fjölskyldustærðar og árlegrar eða mánaðarlegrar leigufjárhæðar.“

Í stuttu máli sagt: Með því að hverfa frá niðurgreiðslu útlánsvaxta Húsnæðisstofnunar mætti renna traustum stoðum undir núverandi húsnæðislánakerfi. Í stað vaxtaniðurgreiðslunnar gæti hið opinbera veitt húsnæðisframlag til þeirra íbúðakaupenda og íbúðaleigjenda sem ætla má að þurfi á aðstoð að halda umfram lánafyrirgreiðslu Húsnæðisstofnunar. Jafnvel þótt ríkissjóður notaði aðeins hluta þess fjár sem „sparaðist“ með því að hverfa frá vaxtaniðurgreiðslunni gæti hann tryggt umtalsvert meiri aðstoð en í dag öllum þeim sem byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð og öllum þeim íbúðaeigendum eða íbúðaleigjendum sem hafa lágar tekjur. Minni eftirspurn eftir lánum Húsnæðisstofnunar mundi að öðru óbreyttu geta leitt til umtalsverðrar lækkunar á halla ríkissjóðs og markaðsraunvöxtum og þar með leitt til aukinnar fjárfestingar og verðmætasköpunar í atvinnulífinu.“

Það er eftirtektarvert að hæstv. ráðh. fannst ekki tilefni til að fjalla um jafneftirtektarverðar skoðanir sem fram koma í skýrslu milliþinganefndarinnar.

„Álit nefndarinnar á opinbera íbúðalánakerfinu og starfsháttum Húsnæðisstofnunar ríkisins má draga saman á eftirfarandi hátt," segir hér í skýrslunni, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin telur nauðsyn bera til að sniðnir séu vankantar af núverandi löggjöf og verður nánar vikið að þeim atriðum síðar í þessari álitsgerð. Þó er rétt að undirstrika að varhugavert er að gera með skömmu millibili róttækar breytingar á húsnæðismálalöggjöfinni sem snerta hag þeirra sem eru að afla sér íbúðarhúsnæðis.“

„Nefndin er sammála um að nauðsynlegt sé að taka skipulag og starfshætti Húsnæðisstofnunar ríkisins til endurskoðunar með það að markmiði að bæta þjónustu hennar við einstaklinga, félagasamtök og stjórnvöld. Nefndin telur mikilvægt að stofnunin bæti upplýsingamiðlun til einstaklinga, félagasamtaka og stjórnvalda um lánamöguleika, lánskjör og greiðslubyrði.“

Þetta atriði verður mjög mikilvægt í ljósi þeirrar umræðu sem fram fer núna.

„Ráðgjafarstöð Húsnæðisstofnunar var komið á fót í tengslum við lánveitingar vegna greiðsluerfiðleika. Stöðin gegndi veigamiklu hlutverki við að aðstoða fólk í greiðsluvanda. Húsnæðismálastjórn ber að setja ráðgjafarstöðinni markmið og starfsreglur. Ráðgjafarstöðinni ber að leggja megináherslu á almenna upplýsingamiðlun um lánaflokka, lánakjör, greiðslubyrði og fleiri atriði sem varða þjónustu Húsnæðisstofnunar. Nýja lánakerfið gerir það nauðsynlegt að ráðgjöf sé veitt í beinum tengslum við lánsumsóknir. Aðskilja ber tæknilega ráðgjöf frá fjármálalegri.“

Enn fremur kemur fram að nefndin sé sammála um að eftirtalin atriði þurfi að lagfæra, - að nokkru leyti, hæstv. forseti, kom hv. 7. landsk. þm. inn á þessi atriði-þ.e. um lánsrétt námsmanna, lánskjör félagasamtaka, stærðarmat íbúða, lánsrétt aðfluttra, lánsrétt sem ekki er nýttur til fulls, takmörkun á lánsrétti þeirra sem eiga fullnægjandi húsnæði fyrir og lánsrétt elli- og örorkulífeyrisþega.

Ég hef hvergi séð þess stað að ráðherra eða ríkisstjórn hafi að einhverju leyti tekið þessi atriði, sem nefndin varð sammála um, til sín með þeim hætti að hún bregðist við og geri þá bragarbót á núverandi lögum um Húsnæðisstofnun sem þessi atriði gera ráð fyrir. Og tel ég þá til lítils að verið fyrir þessa nefnd ef ráðherra og ríkisstjórn ætla sér ekki með neinu móti að hlýða á skoðanir hennar eða taka tillit til þeirra.

Í niðurlagi nál. segir:

„Í þessu nefndaráliti er gerð grein fyrir tildrögum þess að félmrh. skipaði nefnd til að gera tillögur um nýtt húsnæðislánakerfi. Fjallað hefur verið um nefndarstarfið og þau áhrif sem kjarasamningarnir í febrúar 1986 höfðu á framvindu þess. Nefndin hefur ekki lagt til veigamiklar breytingar á núverandi húsnæðislánakerfi en starf hennar hefur haft áhrif á umræður um húsnæðismál og þróun þeirra. Benda má á tillögur nefndarinnar til lausnar á greiðsluvanda íbúðaeigenda og afstöðu hennar til einstakra atriða í frv. til laga nr. 54/1986, um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem kynnt var á sameiginlegum fundi nefndarinnar og húsnæðisnefndar ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins. Í álitinu er einnig lýst áhyggjum nefndarinnar varðandi fjármögnun nýja húsnæðislánakerfisins.“ - Ég endurtek þetta: „Í álitinu er einnig lýst áhyggjum nefndarinnar varðandi fjármögnun nýja húsnæðislánakerfisins. Bent er á nauðsyn þess að Húsnæðisstofnun ríkisins leggi meiri áherslu á upplýsingamiðlun um húsnæðis- og byggingarmál. Lagt er til að komið verði á fót innan stofnunarinnar upplýsinga- og áætlanadeild sem sinni þeim málum betur en nú er gert. Nefndin leggur áherslu á það meginhlutverk ráðgjafarstöðvar Húsnæðisstofnunar að veita almenna ráðgjöf í tengslum við lánveitingar stofnunarinnar. Hún hefur einnig fjallað um meginstefnu varðandi veð og veðhæfi íbúðarhúsnæðis. Fleiri atriði má benda á, t.d. varðandi lánsrétt námsmanna, stærðarmat íbúða o.fl.“

Nú hafa komið hér nokkuð til umræðu þær fullyrðingar sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur látið frá sér fara í fjölmiðlum og eins aðrar upplýsingar sem komið hafa fram í hinum ýmsu fjölmiðlum. Eitt var þó strax ljóst í máli hæstv. ráðh.: Hann staðfestir það að þær umsóknir, sem bárust til Húsnæðisstofnunar fyrir áramót, voru, ef ég hef tekið rétt eftir, 4260. Hann staðfestir það að meðallánsupphæð sé yfir 1,5 millj. kr., og hann sagði nánar, ef ég man rétt, 1600 þús. kr. Það þýðir það, ef við umreiknum þetta og skoðum þá upphæð sem stofnuninni stóð til reiðu á fjárlögum og lánsfjárlögum, að 12-15 hundruð af þessum umsækjendum, sem þegar hafa sótt um fyrir áramót, verða að bíða næsta árs. Það þýðir það í raun og veru að það er búið að ráðstafa framlagi næsta árs að nokkuð stórum hluta til.

Hvað sem menn vilja halda um þær fullyrðingar sem fram eru komnar um stöðu þessara mála í dag má minna á það að hv. 2. þm. Norðurl. e. skrifar grein í Morgunblaðið laugardaginn 14. febrúar þar sem hann tekur undir mál Jóhönnu Sigurðardóttur að mjög miklu leyti og virðast nokkuð stangast á viðhorf ráðherrans og þess manns sem þar ritar. Hann segir, með leyfi hæstv. forseta: „Hinn 10. febr. s.l. birtist í Morgunblaðinu grein eftir Jóhönnu Sigurðardóttur alþingismann undir þessari myndarlegu fyrirsögn: „Húsnæðiskerfið riðar til falls.“ Of langt mál yrði að rekja einstök efnisatriði. Sum þeirra hafa við rök að styðjast, önnur ekki.“ Hann segir enn fremur, með leyfi hæstv. forseta: „Ég er Jóhönnu Sigurðardóttur sammála um það að fleiri hafa sótt um fyrirgreiðslu úr Byggingarsjóði ríkisins en áður. Ég hygg t.d. að fjöldi lánsumsókna til kaupa á notuðum íbúðum hafi tvöfaldast eða svo.“ Enn fremur segir hann: „Ég tek undir með Jóhönnu Sigurðardóttur þegar hún segir: „Brýnt er einnig að skoða sérstaklega vanda þeirra hópa sem fengu lán á umliðnum árum og nú eru í miklum greiðsluerfiðleikum.“" Enn þá erum við, eftir allt það starf sem á undan er gengið allar götur eiginlega frá 1984, að tala um það að leysa vanda þessa hóps. Enn þá eru menn að hrópa á lausn til handa þessu fólki. Enn fremur segir þm.: „Nú kann það vel að vera að nauðsynlegt sé að auka það fjármagn sem Byggingarsjóður ríkisins hefur, jafnvel þegar á þessu ári. Sú mynd er smám saman að skýrast. Á hinn bóginn minni ég á að biðtími eftir lánum segir ekki alla sögu. Flestir vilja hafa vaðið fyrir neðan sig.“ En þá má kannske minna hv. þm. á það að þegar maður hefur sótt um lán og þegar maður hefur fengið tilkynningu um það hvenær lánið sé til reiðu eru mönnum settar alveg ákveðnar tímaskorður um það að ráða sínum málum, ákveða sínar fjárfestingar. Og þegar markaðurinn, svo maður orði það þannig, er sér meðvitaður um þessa tímapressu er það náttúrlega eðlilegt að það eitt út af fyrir sig leiði til ákveðinnar hækkunar á fasteignaverði.

Það má segja sem svo að afstaða ríkisstjórnarinnar í þessu máli hafi kannske komið hvað augljósast fram núna við gerð fjárlaga í haust. Þegar menn með öðru munnvikinu töluðu sem sagt um það að auka þyrfti lánsrétt og rétt manna í þessum málum drógu þeir um leið úr framlagi ríkisins til þeirra sömu mála. Ég tel sýnt, herra forseti, að þeir menn sem við getum kallað 80%-mennina, mennina sem lofuðu 80% húsnæðislánum í kosningunum 1983, og ekki bara í kosningunum 1983 heldur líka í stjórnarsáttmála sínum sem þeir gerðu í maí 1983, séu að verða að aldamótamönnum. Ekki í þeim sama skilningi sem við lögðum í hugtakið „aldamótamenn“ hérna einu sinni heldur einfaldlega vegna þess að þeir sem sækja undir handarjaðar þeirra og þurfa á hjálp og aðstoð ríkisins að halda við húsnæðisöflun verði innan skamms að bíða til aldamóta til þess að fá greitt úr sínum málum. Eða trúir hæstv. ráðh. því virkilega að það verði kominn jöfnuður á í þessum málum árið 1990? Með því að byrja með 3100 millj. kr. framlagi árið 1987 í heild og fara upp í 5,5 milljarða árið 1990? Eitt er víst að ég trúi því ekki og ég held að það séu æ færri sem trúa þeirri ótrúlegu sögu.

Eins verður maður að lýsa furðu sinni yfir þeirri skoðun manna að það sé einfaldlega hægt að leysa þann vanda sem við erum stödd í með því að lengja biðtímann og að það sé allt í lagi að lofa mönnum háum lánum, jafnvel þó að þeir þurfi að bíða eftir þeim í jafnvel tvö ár eða þrjú, halda að það sé raunverulega einhver úrlausn fyrir þá einstaklinga sem þurfa með einum eða öðrum hætti að leysa sinn húsnæðisvanda. Auðvitað vitum við það að hluti af þeim mikla stormi sem Húsnæðisstofnun varð fyrir þegar nýju lögin voru samþykkt var tilkominn vegna þess að fólk, og þá sérstaklega ungt fólk, hafði beinlínis haldið að sér höndum um nokkuð langt skeið vegna þess hvernig lánskjör og aðstæður voru orðnar. Það getur vel verið að þessi ríkisstjórn, sem greinilega ætlar næstu ríkisstjórn að leysa vandann, vonist til að þessi vandi leysist raunverulega aftur með þeim sama hætti að fólk hreint og beint gefist upp á því að leita aðstoðar og hjálpar ríkisins við öflun eigin húsnæðis og sæki einfaldlega ekki um lán. Það verði fyrst og fremst stærsta lausnin á fjárhagsvanda sjóðsins eins og hann er orðinn nú þegar.

Mig langar, hæstv. forseti, að spyrja hæstv. ráðh. nokkurra spurninga.

Í fyrsta lagi mundi ég vilja spyrja hann hvort hann telji það ekki sannað nú þegar að fjármögnun húsnæðisöflunar með þeim hætti sem við erum að standa að í dag sé orðin þjóðfélaginu hreint og beint ofviða og þurfi að gerast með allt öðrum hætti en nú er raunin. Svo að ég skýri þessa spurningu aðeins er ég kannske að fella inn í hana mjög marga þætti þar sem um er að ræða hin sterku séreinkenni íslensks fasteignamarkaðar, þar sem fólk þarf að reiða fram sex sinnum stærri upphæð yfirleitt við kaup eða nýbyggingu en þekkist annars staðar á Norðurlöndum og Vesturlöndum yfirleitt. Í stað þess að greiða 10-20% við kaup eða festingu á húsnæði greiðir fólk hér 60-75%, allt eftir efnum og ástæðum. Svo að ég umorði þá þessa spurningu þannig að hún skiljist betur: Telur ráðherrann ekki sannað að hér þurfi að leita allt annarra leiða en við höfum verið að nota hingað til?

Eins vegna margframkominna fullyrðinga leyfi ég mér að spyrja hæstv. ráðh. hvort það sé virkilega rétt að hann hafi haft upplýsingar í höndum í apríl í fyrra um það að fjármögnunaráform byggingarsjóðsins sem fram komu í grg. með frv. byggðu á röngum forsendum og að ástæða væri til að ætla að þau stæðust ekki dóm reynslunnar. Í samhengi við fyrstu spurningu mína má kannske spyrja hvort hæstv. ráðh. hafi þegar uppi einhver áform um að draga úr fjármagnsþörf fasteignamarkaðarins og þá er ég að tala um að stuðla að einhvers konar breyttum viðskiptaháttum á fasteignamarkaði.

Vegna orða hæstv. ráðh. hér áðan og þeirrar óeðlilegu bjartsýni sem mér fannst koma fram í máli hans langar mig til að spyrja hann, og vona að hann geti svarað því, hvort hann hafni því algjörlega að lögin sem við settum í apríl í fyrra hafi valdið hækkun á fasteignamarkaði og hvort hann mótmæli því þá líka algjörlega að þau hafi valdið þeirri hækkun sérstaklega á 3-4 herbergja íbúðum sem fullyrt er að hafi orðið, þ.e. um 30% á hálfu ári. Vegna þess að ég trúi því að fjárþörf Byggingarsjóðsins komi til með að aukast mjög ört á næstunni og að þegar sé fyrir hendi mikil þörf fyrir aukið fé til sjóðsins á þessu ári leyfi ég mér líka að spyrja hæstv. ráðh. hvort hann ætli að samþykkja það í þessari ríkisstjórn að halli ríkissjóðs verði fjármagnaður með auknum lántökum hjá lífeyrissjóðum og þar með verði eyðilagður sá möguleiki að leita til þeirra eftir auknu fé í húsbyggingarsjóðina.

Ég lék mér að því áðan að reyna að reikna á grundvelli þeirra fullyrðinga sem komu fram í máli hæstv. ráðh. hve miklu væri í raun og veru búið að ráðstafa af því fé sem veita þarf til sjóðsins á næsta ári. Ég vildi fá svar við því hjá hæstv. ráðh. hvað hann telur sjálfur að sé búið að ráðstafa fyrir fram miklu af því fé sem veita þarf til sjóðsins á næsta ári. Ég vil líka fá greinileg svör við því hjá ráðherra, eins og fleiri, hvort mögulegt sé - ef maður reiknar ekki með sama umsóknafjölda á þessu ári, við hljótum að verða að reikna með eitthvað minnkandi umsóknafjölda þó ekki væri nema vegna þess að það dregur úr bjartsýni hjá fólki eftir því sem lengra á líður að 1500-2000 umsækjendur á þessu ári fái ekki. lán úr Byggingarsjóðnum fyrr en árið 1989. Er það mögulegt að þeir sem sækja um seinni part þessa árs, ársins 1987, þá á ég við á seinasta ársfjórðungi þess, fái hugsanlega ekki lán fyrr en seinasti áratugur þessarar aldar er byrjaður, þ.e. 1990? Eins vildi ég fá svör við því hjá hæstv. ráðh., ef mögulegt væri, hvort þær fullyrðingar sem eru fram komnar, að biðtími eftir lánum sé nú þegar um 13 mánuðir hjá svokölluðum forgangshópum, þ.e. þeim sem eru að byggja eða kaupa í fyrsta sinn, og um 17 mánuðir hjá þeim sem eru að byggja eða kaupa í annað sinn, séu réttar.

Eins langar mig líka að spyrja að því hvort mér reiknist rétt til að fjárþörf þeirra sem sóttu um fyrir áramót 1986-1987 sé um 6 milljarðar. Miðað við það að u.þ.b. 1260 af þessum umsækjendum fái ekki úrlausn sinna mála, ef reiknað er með þeirri meðallánsupphæð sem ráðherrann nefndi, fæ ég ekki betur séð en svo sé.

Að síðustu væri kannske bara ein spurning. Henni má ráðherra láta ósvarað ef hann vill. Hún er einfaldlega um það hvort ráðherrann og ríkisstjórnin telji sinn hlut í húsnæðismálum vera orðinn svo slæman að hún þoli ekki málefnalega umræðu sem byggist á réttum upplýsingum. Það er mjög hart að standa hér og ræða þessi mál og hafa ekki annað til grundvallar en upplýsingar sem berast manni frá hinum og þessum misjöfnum aðilum og finna fyrir því að ráðherrann og þær stofnanir sem hann stýrir í þessu tilviki eru greinilega ekki reiðubúnar til að láta okkur í té þær upplýsingar sem þær hljóta þó að hafa, þannig að hægt sé að ræða þessi mál hér á sama grunni. Það vekur þá tilefni til seinustu spurningarinnar í þessu máli mínu: Hverjar eru og hvar er réttar upplýsingar að finna um ástand Byggingarsjóðs ríkisins í dag?

Umræðu frestað.