14.10.1986
Sameinað þing: 3. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í B-deild Alþingistíðinda. (29)

20. mál, samningur milli Íslands og Bandaríkjanna

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það hefur sitthvað athyglisvert komið fram í þessari umræðu og það var kannske að vonum að orð mín hér áðan yrðu til þess aðeins að kveikja í stöku manni. Einhver kaun eru þarna undir niðri og hafa nálgast yfirborðið. Það er alveg ljóst.

Hér kom upp í ræðustólinn næstur á eftir mér hv. 3. þm. Reykn. og tók nánast ómakið af hæstv. utanrrh. Hann reyndi a.m.k. að gera það. Ekki vantaði viljann. Og þegar hann fór nú að tala um músina sem öskraði komu ákveðnar hugleiðingar upp í sambandi við frammistöðu hans hér í stólnum. Að einhver væri að reyna að öskra. . . Ég hef aldrei heyrt í músum sem öskra, en hv. þm. reyndi að koma sinni vörn fyrir hæstv. utanrrh. rækilega til skila héðan úr ræðustólnum. Það þarf engan að undra. Hér er á ferðinni málflutningur þar sem þess er gætt að ekkert skilji á milli núv. hæstv. utanrrh., núverandi ríkisstjórnar í utanríkismálum og Alþfl. Það var kannske einn úr skuggaráðuneyti þess, sem ætlar að erfa ríkið sem forsrh., sem var að tala hér. Og hver veit nema hann stefni ekki á forsrn., því að það er þegar setið. Eins og menn vita, er BJ búið að falla frá kröfum sínum um þjóðaratkvæði um forsætisráðherra, út á það að sjálfsögðu að það er þegar setið, en það gæti verið að þarna væri skuggaráðherrann í utanríkisráðherrastólinn sem var að tala hér og þá er nú betra að móðga engan, hvorki stóra flokkinn eða stóra bróður í vestri.

Já, þeir töluðu um það báðir, því að svo kom hæstv. utanrrh. og þakkaði fyrir vörnina, og sögðu: Hér eru engir dollarar á ferðinni. Það er ósæmilegt að vera að tala um geimvarnaáætlun Bandaríkjanna og stjörnustríðsáformin í samhengi við þennan samning, engin tengsl á milli. Hvað er maðurinn að rugla? Já, er ekki von að þeir segi þetta? Hvað sagði hæstv. utanrrh. í skýrslu sinni í fyrra um stjörnustríðsáætlun Reagans og áhuga sinn á því að tengjast þeirri áætlun þar sem 30 milljarðar dollara hanga á spýtunni á fimm ára tímabili til að þróa þetta vopnakerfi? Hæstv. ráðherra sagði þá, með leyfi forseta, og stendur það skrifað í skýrslu hans frá apríl í ár:

„Vert er að hafa í huga að geimvarnaáætlun Bandaríkjamanna gerir ráð fyrir stórstígum framförum á sviði tækni og vísinda og má þar nefna upplýsinga-, efna-, orku-, leysigeisla- og kerfistækni. Geri Bandaríkjamenn öðrum þjóðum kleift að taka þátt í áætluninni er ljóst að Íslendingar geta ekki síður en aðrir notið góðs af samvinnunni.“

Annar hv. þm. sama flokks sem hér situr, hv. 5. þm. Norðurl. e. Björn Dagbjartsson, eyddi þó nokkru máli einmitt í að gylla þessa áætlun þegar þáltill. frá mér og fleiri hv. þm. var hér til umræðu um að bregðast við gegn geimvopnum. Þá var nú annað á döfinni hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. Hann útfærði nánar það sem við lásum síðar í skýrslu hæstv. utanrrh. um æskilega þátttöku í stjörnustríðsáætlun Reagans forseta.

Ég ætla, herra forseti, ekki að fara að elta ólar við öll þau mörgu atriði sem þörf væri á að ræða hér og komu fram í máli hv. þm. Það gefst tækifæri til þess, þegar mál þetta kemur frá nefnd, að fara yfir nokkra þá þætti, en það var satt að segja heldur leitt að heyra hljóðið í hv. 3. þm. Reykn. og ekki fannst mér það batna þegar hv. 9. þm. Reykv. Haraldur Ólafsson kom hér í stólinn og sagði m.a. efnislega að við værum með þessum samningi að draga úr efnahagslegum áhrifum herstöðvarinnar í Keflavík frá því sem nú er. Heldur eru þau óburðug rökin. Hæstv. utanrrh. er þó að reyna að verja þetta í krafti frjálsra siglinga og sagði undir lok máls síns áðan að þessi samningur mundi einmitt kippa öllu í liðinn að því leyti. Íslendingar ættu sjálfir að sjá um siglingarnar. En gerir samningurinn það, hæstv. utanrrh.? Kippir hann því máli þannig í liðinn? Er ekki hér kvótaskipting á ferðinni, nánast helmingaskipti samkvæmt þessum samningi? Hér rekst hvað á annars horn í máli þessara hv. og hæstv. talsmanna þessa samnings. Rökin eru skothent og sannfæringin á bak við er ekki öll þar sem hún er séð.

Það var líka athyglisvert að heyra orðin sem hér féllu frá ýmsum hv. þm. og hæstv. ráðherrum, hæstv. iðnrh. meðtöldum, um endurskoðun, jafnvel æskilega endurskoðun varnarsamningsins svokallaða. Og það er nauðsynlegt í utanrmn. að lýsa inn í þessi mál, hvað hæstv. iðnrh. er t.d. að fara í þessum efnum. Hann hefur þann skilning, 1/10 hluti ríkisstjórnarinnar a.m.k. skulum við ætla, að þessi samningur sé ekki gerður við Bandaríkin heldur NATO. Þetta sé samningur milli Íslands og NATO og eigi að taka upp og ræða sem slíkan. Ég hafði einhvern tímann lesið þetta öðruvísi, en þetta er skilningurinn í ríkisstjórn Íslands og hæstv. iðnrh. vill fara að taka á þessum málum út frá því. Ég held það sé rétt fyrir menn að fara aðeins yfir þessi mál og skilning ríkisstjórnarinnar á því hvað einstakir hæstv. ráðherrar að hæstv. sjútvrh. meðtöldum eru að fara þegar þeir eru að tala um að það gæti bara verið gott að endurskoða varnarsamninginn. Að vísu setti hv. 9. þm. Reykv., talsmaður Framsfl. í þessum umræðum, rækilega ofan í við sjútvrh. sama flokks, sem hefur verið að tæpa á nauðsyn endurskoðunar varnarsamningsins, því að hann skýrði afstöðu sína, og hv. þm. á nú sæti í utanrmn., þannig að vonandi yrði þessi samningur endurskoðaður og honum jafnvel sagt upp í fyllingu tímans einhvern tímann í góðu samkomulagi beggja aðila. Öðruvísi væri ekki hægt að ganga í þetta nema í góðu samkomulagi beggja aðila og allt væri þetta undir því komið að leiðtogarnir gætu sæst og gengið frá málum, þeir sem skildu heldur óblítt í Höfða á dögunum, því að þar væri lausnin. Það yrði bara að bíða eftir því, sjá hvort þeir kæmu sér ekki saman um að deila og drottna í heiminum. Það er nú hugsunarháttur sem sumir fyrrv. hv. forustumenn í Framsfl. hefðu held ég ekki viljað heyra hér á árum áður, en svona er nú komið á þeim bæ og það hjá mönnum sem ég hafði satt að segja ekki reiknað með að sætu uppi með slíkt mat á hlutunum, slíkar hugrenningar, að það ætti að vera komið undir forustumönnum risaveldanna og góðu samkomulagi hvort Íslendingar einhvern tímann tækju á sig rögg og endurskoðuðu afstöðu sína til afvopnunarmála, til hernaðarbandalaga.

Ég vona að hæstv. utanrrh. heyri mál mitt því að hann vék að nokkrum spurningum sem ég lagði fyrir hann. Ég tel nauðsynlegt, vegna þess að hann og hv. 3. þm. Reykn. töldu svo langsótt að leita skýringa á 4. gr. samningsins, að hann komi upp aftur, og ég er viss um að hæstv. forseti gefur honum heimild til þess hér við umræðuna, og segi okkur frá því hvort það sé eðlilegt með milliríkjasamningi sem þessum að ákvarða varðandi túlkun á íslenskri löggjöf eins og gert er í 4. gr. og opna þar fyrir heimildir til að víkja íslenskum lögum til hliðar. En þetta var hugmynd hæstv. ráðh., jafnvel að leggja þennan samning ekki fyrir með þáltill. sem þó kveður á um eins og stendur í 4. gr. sem ég tel nauðsynlegt, herra forseti, aðeins að vitna í:

„Ákvæði samnings þessa og sérhvers samkomulags um framkvæmd hans, sem gert er skv. 1. gr., skulu ganga fyrir ákvæðum hvers kyns eldri ósamrýmanlegra laga eða reglugerða lýðveldisins Íslands eða Bandaríkja Ameríku.“

Svona samningi átti að smeygja einhvers staðar inn í aukahefti í Stjórnartíðindum, fram hjá Alþingi Íslendinga og engin þörf að leggja það fyrir, sem getur sett strik yfir ákveðna þætti í íslenskri löggjöf. Og ég spyr líka: Stenst það í rauninni að kveða þannig á um að ganga frá slíkum samningi sem á að binda atriði sem þetta með þáltill. á Alþingi? Og það er ekkert að því vikið í tengslum við þennan samning hvað hangi hér á spýtunni, hvaða löggjöf getur hér verið um að ræða. Ég spurði um löggjöf varðandi búfjársjúkdóma, sem hefur verið til umræðu í tengslum við samskiptin við herliðið í Keflavík, hvort það væru kannske slík ákvæði sem ættu að víkja. Það er bara reynt að afgreiða það hér með því að það sé „grínaktugt“, eins og sagt er á slæmu máli, með gamanyrðum héðan úr stólnum. Það sé bara fráleitt. En ég held að málið sé ekki svo einfalt og ég vænti þess að hæstv. ráðh. svari því hvort þetta er hans mat og síðan verður auðvitað þingnefnd að fara ofan í saumana á þeim þætti.

Ég vil líka inna hæstv. ráðh. eftir því hvernig hann skilur ákvæði 1. gr. samningsins í sambandi við skyldur íslenskra skipafélaga til að annast flutninga. Er gert ráð fyrir því að ríkisstj. leiti til skipafélaga, hvetji þau eða biðji þau um að taka að sér þessa flutninga með fyrirheitum um að skv. 1. gr. fylgisamningsins muni ríkisstj. hlutast til um að það geti gerst með viðunandi kjörum? Þarna stendur það: Flutningaþjónusta á sjó á milli Íslands og Bandaríkjanna skal látin í té af bandarískum eða íslenskum skipafélögum til þess að þessi kvótaskipting geti átt sér stað. Er hugsunin að það geti reynt á það að íslensk stjórnvöld hafi þarna frumkvæði, m.a. líka vegna þess skilnings að hér sé um sjálfstæðismál að ræða, frjáls viðskipti til að uppfylla hugmyndirnar þar að lútandi sem hér hafa verið kynntar?

Svo vil ég síðast en ekki síst spyrja hæstv. ráðh. um það: Hvað er það mikið magn sem hér er á ferðinni? Hvað er það mikið flutningamagn sem á að skipta í 2/3 og 1/3 samkvæmt kvótahugmyndum þessa samnings og hversu miklir fjármunir eru það sem tengjast þessum flutningum? Hvaða upphæðir eru hér á ferðinni miðað við framreiknaða reynslu af viðskiptum þegar þetta var í lagi að mati hæstv. ráðh., ég tala nú ekki um ábyrgðarmanns Hafskips sem hér kom í stólinn áðan, hæstv. iðnrh., sem talaði um fyrri tíð þegar þetta var nú allt í blóma, áður en Hafskip sökk? Síðan hefur magnið væntanlega aukist því að hæstv. utanrrh. hefur tryggt að umsvif Bandaríkjahers hafa aukist stórkostlega á undanförnum árum undir hans forustu.

Herra forseti. Ég vildi sem sagt leggja þessar spurningar fyrir hæstv. utanrrh. Ég ítreka það að lokum að það er raun að heyra úr munni hv. þm. og hæstv. ráðherra þegar þeir eru að reyna að þvo af sér auðhyggjuna í tengslum við þetta mál. Þeir komast að sjálfsögðu ekkert fram hjá því að hér er verið að tryggja efnahagslega hagsmuni í tengslum við hersetuna í landinu. Hér er verið að ganga lengra en verið hefur, einnig vegna þess að þessi samskipti hafa verið að aukast. Og hvaða vit er í því að ætla að binda Íslendinga með þeim hætti við annað risaveldanna með hersetu eins og hér á sér stað á þeirra vegum, vaxandi umsvif, og gera það að auknum og vaxandi þætti í efnahagslífi Íslendinga? Hvaða von geta menn gert sér um það að hægt verði fyrr en síðar, svo sem þörf væri á, að gera málin upp með öðrum hætti og láta þjóðina skera úr um það hvort hún vill taka upp annars konar tilhögun í sambandi við sín öryggismál og utanríkisstefnu og vera þá ekki njörvuð niður af „Hafskipum“ eða „Eimskipum“ eða „SÍS-skipum“ og öðrum slíkum hagsmunum og talsmönnum þeirra, sem höfða til slíkra hagsmuna, þegar afstaða er tekin um grundvallaratriði sem skipta Íslendinga meiru en flest annað.