18.02.1987
Neðri deild: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3223 í B-deild Alþingistíðinda. (2909)

336. mál, deilur menntamálaráðuneytisins og fræðsluyfirvalda í Norðurlandsumdæmi eystra

Ingvar Gíslason:

Virðulegi forseti. Ég er með öllu andvígur þessari rökstuddu dagskrá. Hún er ekki flutt í góðu skyni, ekki til þess að heiðra þingvenjur og tryggja eðlilega meðferð þingmála. Hún er flutt af ofurkappi af hálfu sjálfstæðismanna. Sjálfstæðismenn hatast við þetta frv. og hafa talið það jafngilda vantrausti á menntmrh. þó hér sé eingöngu um það að ræða af minni hálfu að gagnrýna eitt afmarkað embættisverk hæstv. menntmrh. Þá seilast sjálfstæðismenn nú til þess og það skyndilega að tala um að frv. sé óþinglegt. Slík viðbára þjónar ekki góðum tilgangi og er gerð í því skyni að villa um fyrir mönnum en ekki til að skýra málið í heild, hvernig þetta frv. er til orðið og hvert sé efni þess í heildinni. Ummæli sem höfð eru eftir forseta Hæstaréttar um þetta mál hljóta að byggjast á misskilningi hans eins og málsatvik eru og mega alþm. ekki láta þau villa sér sýn. Að mínu áliti mælir allt gegn þessari till. um rökstudda dagskrá. Eðlilegast er að málinu verði vísað til nefndar. Því segi ég nei.