28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (292)

68. mál, skólamálaráð Reykjavíkur

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Athugasemd mín skal vera örstutt. Það er einungis vegna þessa máls sem nokkuð var á döfinni í minni menntamálaráðherratíð. Ég vil leiðrétta eitt sem fram kom í máli hv. fyrirspyrjanda þar sem hún vísaði til þess tíma er fræðslustjórinn í Reykjavík hefði verið skipaður til þess starfs og átti þá við embættisverk fyrirrennara míns, hæstv. forseta Nd. Ingvars Gíslasonar.

Þannig var að fræðslustjórinn í Reykjavík var ekki skipaður í menntamálaráðherratíð hv. 1. þm. Norðurl. e. heldur settur. Setningin var framlengd og skipun fékk ekki fræðslustjórinn í Reykjavík fyrr en eftir að aðgreiningin átti sér stað milli skólaskrifstofu Reykjavíkurborgar og fræðsluskrifstofu Reykjavíkurborgar. Fyrst hv. þm. er að tala um að menn þurfi að hafa réttar upplýsingar um þetta er rétt að það liggi fyrir staðreynd málsins að þessu leyti til. Ég skipaði Áslaugu Brynjólfsdóttur í embætti fræðslustjóra Reykjavíkur eftir að fræðsluskrifstofan var orðin sérstofnun og skólaskrifstofan sér og þar var ákveðið hver væru verkefni fræðsluskrifstofu og að fræðslustjóri væri embættismaður ríkisins. Þetta vildi ég að fram kæmi.