18.02.1987
Neðri deild: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3231 í B-deild Alþingistíðinda. (2920)

18. mál, kosningar til Alþingis

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Páli Péturssyni, sem hér var að ljúka máli sínu, vafðist æði oft tunga um tönn í framsögu fyrir þessu máli, og ekki er ég hissa. Ég minni á það að árið 1984 stóðu menn hér í spreng nánast, þeir hinir sömu og nú tala fyrir þessu máli, á þann veg að samþykkja þær tillögur sem þá voru lagðar fram og samþykktar að því er varðaði kosningalög. Síðan hafa flestir þeir hinir sömu setið og leiðrétt þá vitleysu sem þá var gerð úr þeirra höndum. Er undarlegt þó að hinum sömu vefjist tunga um tönn í framsögu fyrir svona málum?

Þetta hefur vafist fyrir þessum hv. þm. allar. þennan tíma. En það hefur lítið farið fyrir þeim loforðum öðrum sem voru gefin 1984 af formönnum stjórnmálaflokka og forustumönnum stjórnmálaflokka um það að leiðrétta það óréttlæti sem ríkir að því er varðar búsetu í landinu. Þá voru gefin fyrirheit af forsvarsmönnum allra stjórnmálaflokka um að slíkt skyldi gert. Hafa menn séð það í reynd? Hafa menn séð tilburði í þá átt að létta byrði þeirra sem verst eru settir að því er varðar búsetu og þrengstan hafa kostinn? Nei. Slíkt hefur ekki gerst, það hefur heldur hallað á öfugan veg.

Ég greiddi atkvæði gegn kosningalagafrumvarpinu árið 1984 vegna þess að þá og ekki síður nú, að svo miklu leyti sem hægt er að skynja þennan óskapnað sem hér er á ferðinni, er að verulegu leyti gengið á rétt dreifbýlisins. Réttur þess er skertur. Um það virðast allir, a.m.k. þeir sem eru í þessum hópi, vera sammála. Nú standa þeir hinir sömu hér upp og réttlæta leiðréttingu á vitleysunni frá 1984 sem er auðvitað enn að verulegu leyti vitleysa.

Ég tek það fram að það svarar auðvitað vart kostnaði að vera að eyða löngum tíma í þetta mál hér. Það er greinilegt að menn eru búnir að bindast samtökum um það í meginatriðum að gera þetta frv. að lögum. Hvort þeir hinir sömu hafa um það hugmynd hvernig kosningar eftir slíku fyrirkomulagi kunna að verða skal ósagt látið. Ég hygg að enn sé æðimargt óskiljanlegt í útfærslu þeirra reglna sem menn eru nú að tala um og telja fullkomna þörf á að verði breytt, þrátt fyrir ágæti þeirra laga sem þeir mæltu með fyrir þremur árum síðan.

Er þessum aðilum, sem ætla að ráða ferðinni í þessa átt, ekki ljóst hvað hefur verið að gerast í byggðamálum undangengin ár? Það hefur svo stórkostlega hallast á dreifbýlið í þeim efnum með fólksflutningum á suðvesturhorn landsins og allir vita hvað það þýðir. Er mönnum virkilega ekki ljóst hvað er að gerast t.d. á Vestfjörðum þar sem allt bendir til þess að verði áframhald á því sem hefur verið að gerast muni fólki fækka um sem svarar helmingnum af íbúum Ísafjarðar, eins og þeir eru í dag, upp úr 1990? Horfa menn ekkert á þessar staðreyndir? Virða menn að vettugi það sem nú er að gerast? Ætla menn á engan hátt að standa við þau fyrirheit sem þeir gáfu dreifbýlisfólki 1984 að ég tel í fullkomnu samræmi við það sem flokkarnir þá vildu? Eða voru það svikin fyrirheit sem menn voru þá að gefa? Þessi spurning hlýtur auðvitað fyrst og fremst að beinast að meiri hlutanum hér á Alþingi sem hefur ráðið ferðinni síðan. Hvað hafa þeir gert í þá veru að rétta hlut þeirra sem byggja dreifbýlið? Þeir ráða ferðinni og þeirra hefur verið valdið hér á Alþingi síðan, að ráða. Ég a.m.k. fullyrði að því er varðar Vestfirðinga að þar hefur ekki bólað á miklu til þess að rétta þann skarða hlut sem þeir hafa borið frá borði í gegnum árin. Það kemur mér einkennilega fyrir sjónir að þetta skuli gerast á sama tímabili og hv. 1. þm. Vestf. gegnir forsætisráðherraembætti hér á landi - að vísu nú ákveðið að flýja. Og það er kannske táknrænt að þeir sem eru í fyrirsvari treysta sér ekki til þess að eiga búsetu eða vera tengdir við kjördæmi eins og Vestfjarðakjördæmi er. Þetta á auðvitað við um miklu fleiri en hér er talað um, þann sem hæst trónir í þessum efnum. Þetta á auðvitað líka við um þm. eins og hv. þm. Pál Pétursson sem er fulltrúi dreifbýliskjördæmis sem ég efast ekki um að á í erfiðleikum vegna þessa þó að ég þekki þar ekki gjörla til. En ég þykist vita að svo sé. Þetta er miklu víðar. Þetta er trúlega að vísu mismunandi eftir dreifbýliskjördæmunum, en þetta er víðar. Þeir sem hafa ráðið ferðinni hér í meirihlutasamstarfi á Alþingi þetta tímabil hljóta að verða að svara fyrir það hvað hefur verið gert.

Ég skal, virðulegi forseti, ekki lengja þessar umræður þó að ástæða væri til. Ég bíð eftir að forsvarsmenn dreifbýliskjördæma, aðrir en ég, láti í sér heyra að því er þessi mál varðar. Ég sagði áðan: Ég greiddi atkvæði gegn kosningalagabreytingunni á sínum tíma, 1984. Ég mun að því er þetta mál snertir ekki greiða atkvæði. Það á nánast við um þetta. Hér gætu menn sagt bæði já, já og nei, nei.