18.02.1987
Neðri deild: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3235 í B-deild Alþingistíðinda. (2922)

18. mál, kosningar til Alþingis

Guðrún Agnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil láta afstöðu Kvennalistans koma fram í þessu máli nú við 2. umr. þess. Hv. þingkona Kristín Halldórsdóttir átti sæti í nefndinni á fyrstu þremur þingum þessa kjörtímabils. Nefndin starfaði þó misjafnlega mikið, mest á fyrsta þingi en aldrei milli þinga eins og ætlunin var þó.

Á þessu síðasta þingi skiptist hlutur flokka og samtaka nokkuð frá því sem áður var hvað varðar aðild að nefndum þegar þm. BJ gengu í aðra flokka. Missti þá Kvennalistinn aðild að kosningalaganefnd og hefur því ekki tekið þátt í störfum nefndarinnar á þessu ári utan tvo síðustu fundi hennar sem ég sat.

Þegar frv. til stjórnarskipunarlaga var til umræðu á þinginu 1983-1984 tókum við afstöðu gegn þeim breytingum sem þar voru lagðar til og mælti hv. þingkona Kristín Halldórsdóttir fyrir nál. Kvennalistans á eftirfarandi hátt, með leyfi forseta: „Samtök um Kvennalista telja að draga eigi úr miðstýringu og þá sérstaklega að færa valdið frá ríki til sveitarfélaga, auka vægi og vald landshlutasamtaka og dreifa ríkisstofnunum meira um landið. Að því ætti að vinna markvisst. Undirrituð telur rangt að blanda misrétti vegna búsetu saman við vægi atkvæða í almennum kosningum eins og meiri hluti alþm. virðist hlynntur, en áreiðanlega minni hluti kjósenda.

Þetta frv. bætir lítið það kerfi sem nú gildir um kjördæmaskipan og skiptingu þm. milli kjördæma. Með hliðsjón af framansögðu leggur minni hl. stjórnarskrárnefndar til að frv. þetta verði fellt.“

Nú hefur verið gerð önnur atrenna að þessu máli og tilraun gerð til að einfalda og lagfæra í réttlætisátt. Hins vegar er hér enn eins og áður verið að reyna að ná málamiðlun um ólíka og nær ósættanlega hagsmuni og hefur hvergi nærri gengið svo viðunandi sé. Til þess að svo megi verða þarf mun róttækari breytingar og virðist ólíklegt að pólitískur vilji sé til slíks þar sem samstaða náðist einungis um þá fáu áfanga sem hér eru kynntir. Enn eru reglur um atkvæðaskiptingu milli kjördæma allt of flóknar og langt í land að hinn venjulegi kjósandi skilji. Þó má segja að nokkur spor í lýðræðisátt hafi verið stigin með þessum breytingum, bæði hvað varðar möguleika fámennra stjórnmálaafla til að eignast málsvara á Alþingi og einnig hvað varðar ákvæði um varamenn, en samþykkt var að sömu reglur gildi um forföll varamanna og þm.

Virðulegi forseti. Ég mun ekki lengja mál mitt nú, en vil lýsa yfir því að Kvennalistinn er ekki ánægður með þennan áfanga og telur að mun einfaldari og betri lausn þurfi að fást til þess að tryggja rétt manna um land allt og jafnari atkvæðaskiptingu. Við munum því ekki greiða atkvæði um þetta frv. en sitja hjá við afgreiðslu þess.