18.02.1987
Neðri deild: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3236 í B-deild Alþingistíðinda. (2923)

18. mál, kosningar til Alþingis

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Það hefði kannske verið ástæða til þess að fara talsvert ítarlega út í þessi kosningalagamál en verður ekki gert að sinni. Ég held að það sé rétt sem hv. 3. þm. Vestf. nefndi hér áðan að það bæti í raun og veru ekki málið að neinu leyti að vera að setja á mikil ræðuhöld.

Ég vil þó taka fram að ég tel að frv. eins og það lítur út núna sé einföldun frá því sem var í gildandi lögum, þetta séu gagnsærri og augljósari reiknireglur, auðveldara að átta sig á þeim en var. Staðreyndin er hins vegar sú að við vinnum með tvær forsendur sem er erfitt að sætta eða ómögulegt. Önnur er sú að slá því föstu að það skuli vera misvægi milli atkvæða í landinu, það skuli vera þyngri atkvæði í einu kjördæmi en öðru. Og hin er sú að þrátt fyrir þetta skuli reyna að ná sem næst jöfnuði milli kjósenda þeirra stjórnmálasamtaka sem bjóða fram á hverjum tíma. Þetta eru stjórnarskrárákvæði sem nefndin er bundin af og er í raun og veru mjög erfitt að finna leið til að sætta þessar forsendur, en er leitast við að gera það svo sem frekast er kostur í þessum tillögum. Eftir atvikum sýnist mér staðan vera þannig að það sé eðlilegast að þetta fari með þeim hætti hér fram sem nefndin hefur gert tillögu um.

Sannleikurinn er sá að það hefur verið setið yfir þessu dæmi núna ekki í tvö ár heldur fjögur eða fimm, frá því að formenn flokkanna ákváðu á árinu 1982 að nauðsynlegt væri að breyta kosningalögum á ný þannig að misvægi atkvæða ykist ekki enn frekar, heldur yrði það með svipuðum hætti og ákveðið var með stjórnarskrá og kosningalagabreytingu 1959. Fjöldi manns hefur komið að þessu verki síðan og við stjórnmálamennirnir, sem höfum verið í þessum nefndum, setið hér á Alþingi þennan tíma og höfum greitt þessu atkvæði með ýmsum hætti, berum auðvitað alla ábyrgð á málinu. Ég tek þetta fram vegna þess að stundum hefur mér fundist að það væru uppi vissar tilhneigingar til þess að kenna einhverjum mönnum sem heita reiknimeistarar um þessi mál og það hvernig frv. lítur út. Það er auðvitað ekki sanngjarnt. Það erum við sem berum á þessu hina pólitísku ábyrgð.

Þegar málið var lagt hér fyrir á sínum tíma var það einkum tvennt sem þar var í raun og veru gerð grein fyrir, í hinu upphaflega frv. formanna flokkanna. Það var í fyrsta lagi breytingar á kosningalögum og stjórnarskrá og í öðru lagi ákveðnar yfirlýsingar varðandi byggðamál sem þá voru gefnar af flokkunum. Þetta gerðist á árinu 1983. Þau mál hafa iðulega verið rædd hér að undanförnu undir öðrum dagskrárliðum, t.d. um stjórnarskipunarlög o.fl. Ég tel mjög eðlilegt að sú yfirlýsing skuli vera rifjuð upp hér af hv. 3. þm. Vestf. Ég tel reyndar að þar sé um að ræða eitt alvarlegasta vandamál íslensks samfélags í dag, sú hrikalega byggðaröskun sem hefur átt sér stað hér á undanförnum árum.

Ég sé hins vegar ekki ástæðu til þess, ekki frekar en hv. 3. þm. Vestf., að við förum á þessu stigi að taka þetta mál hér sérstaklega fyrir í tilefni af áliti nefndarinnar, en hún hafði eingöngu það hlutverk að fjalla um kosningalögin eins og hv. þm. vita og önnur nefnd, stjórnskipuð nefnd á vegum hæstv. forsrh. undir forustu hv. fyrrv. þm. Lárusar Jónssonar, fjallaði um hitt málið með sérstökum hætti. Um það nál. gæti ég býsna margt sagt. Ég sé satt að segja ekki að það sé margt í því sem leysir þann hnút, þann vanda sem byggðirnar í landinu standa frammi fyrir. Það er ekki aðeins það að fækkað hafi um 1600 manns á Vestfjörðum á þeim 16 árum sem hæstv. forsrh. hefur verið þar þm., heldur er því spáð að að óbreyttu fækki í þessum landshluta um 1600 í viðbót fram að aldamótum. Það er hrikaleg staðreynd sem íbúarnir í þessum byggðarlögum standa frammi fyrir - og reyndar þjóðin öll því að þetta er ekki einungis vandamál þess fólks sem byggðirnar byggir heldur þjóðarinnar í heild og þannig ber að meðhöndla þetta mál.