18.02.1987
Neðri deild: 44. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3238 í B-deild Alþingistíðinda. (2924)

18. mál, kosningar til Alþingis

Karvel Pálmason:

Virðulegi forseti. Út af því sem hv. 3. þm. Reykv. sagði áðan. Ég held að það sé nauðsynlegt, hv. þm., að draga þetta fram sem oftast af því að það hefur ekkert orðið úr loforðunum frá því 1983 og það er málið. Ég heyri ekki að neinn hér inni af þeim sem bera ábyrgð á svikum þessara loforða ætli að láta í sér heyra. Það er a.m.k. þunnskipað hér inni af þeim sem ábyrgðina bera í þessum efnum.

Þetta er ekki bara spurning um Vestfirði eða önnur dreifbýliskjördæmi. Þetta er spurning fyrir þjóðina alla, hvort hér heldur áfram þeim fólksflutningum sem þegar eru hafnir og hafa staðið lengi, ég tala nú ekki um ef það verður í auknum mæli. Mér finnst menn gefa þessu allt of lítinn gaum.

Hv. þm. Svavar Gestsson sagði: „Menn hafa setið yfir þessu kosningalagafrv. allt frá 1983.“ En menn hafa ekki setið yfir því að reyna að standa við þær yfirlýsingar sem voru gefnar til dreifbýlisbúa, til landsbyggðarinnar. Menn hafa ekkert setið yfir því það ég best veit, a.m.k. hefur ekki örlað á slíkum tilþrifum það ég hef hugmynd um. Þess vegna veitir ekki af að rifja þetta mál upp.

Hv. 3. þm. Reykn. vék að því að kannske yrðu Vestfirðingar lausir við vandann með því að núv. hæstv. forsrh., 1. þm. kjördæmisins, flytti á Reykjanes. Ef sú verður raunin þá harma ég það fyrir hv. íbúa Reykjaneskjördæmis, ef svo fer að þeir kjósa hann, því að ég sé ekki að það sé neitt betra að flytja vandamálin til með ákveðnum einstaklingum. Þau þarf að leysa hvar sem þau eru. Ég sé ekki að eftirmaður hans, sem hér á auðvitað að vera, hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson, sjái ástæðu til þess að hlýða á þessar umræður eða taka þátt í þeim, sjálfur frömuður stjórnarskrárbreytingarinnar, sem taldi allt mundu leysast með því frv. Hann lætur það lönd og leið að tala um þetta mál hér og nú á réttum tíma og réttum stað.

Ég heyrði það á hv. þm. Kjartani Jóhannssyni að hann telur að þetta séu ekki nógu góðar breytingar. Ég veit að vísu að hann vill fara aðra leið en ég, en það er svo allt annað mál. Hann telur þessar breytingar sem nú er verið að gera ekkert sérstaklega af hinu góða eða að þær breyti mikið til einföldunar frá því frv. sem var samþykkt 1984. Hann sagði m.a.s. ef ég man rétt: Það er margt flóknara núna með þessu frv. ef samþykkt verður heldur en er í gildandi lögum. Margt flóknara. Til hvers eru menn þá að vinna ef menn hafa setið yfir þessu allt frá 1983 eða 1984 og enn eru menn að gera málin flóknari en þau hafa verið og verið þannig að menn hafa ekki skilið það sjálfir hvernig átti að fara eftir þeim? Til hvers er þá setið?

Hv. þm. Kjartan Jóhannsson sagði: Menn hafa látið reikna. Látið reikna, ekki reiknað sjálfir. Menn hafa látið vinna fyrir sig og tekið við án þess að vita í reynd hvað það þýddi sem þeir voru að fara höndum um. Kannske er þetta rétt. Ég get ekki dæmt slíkt, er ekki dómbær á það í þessum efnum. En ég hygg að hv. þm. Kjartan Jóhannsson viti ýmislegt meira um þetta en margur annar og sé enga ástæðu til þess að rengja hann í þessum efnum. En ef svo er, þá er þetta síður en svo gott. Ef menn hafa setið mörg ár yfir að gera flókið mál enn flóknara og skilja kannske enn þá minna í því en þeir gerðu áður.

Ég skal ekki, herra forseti, lengja þessar umræður. Það er ekki minn tilgangur að teygja hér á umræðunum, en ég tel nauðsynlegt að menn séu minntir á það hvaða yfirlýsingar formenn gáfu á sínum tíma þegar kosningalögunum var breytt. Og ég spyr þessa hina sömu einstaklinga, að vísu eru fáir þeirra hér í salnum núna, en ég spyr þá og fulltrúa þeirra, t.d. formann þingflokks þeirra framsóknarmanna sem hér túlkar þessi mál: Hvað liggur fyrir í loforðum þeirra manna sem gáfu yfirlýsinguna í greinargerð 1984? Hver eru loforðin? Hvað á að standa við? Hvað á að gera? Það hefur ekkert heyrst enn. Menn fá kannske að vita það í kosningaslagnum hverju þá verður lofað fyrir næstu fjögur árin. En þá eru bara komin átta ár síðan loforðin voru gefin og það er allt of langur tími fyrir dreifbýlisfólk að búa við slíkt.

Þetta er allt of mikið alvörumál til þess að menn geti drepið umræðu eða gjörðum á dreif í þessum efnum. Við vandanum verður að snúast og því fyrr því betra.