28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 338 í B-deild Alþingistíðinda. (293)

68. mál, skólamálaráð Reykjavíkur

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Ég er fyrirspyrjandi, en ætla alls ekki að hefja almennar umræður, en hins vegar kemst ég ekki hjá því að lýsa þeirri almennu skoðun minni, vegna þess sem hér hefur komið fram og ég held að það hljóti að vera skoðun fleiri hv. þm., að aðferð borgarstjórnar Reykjavíkur er býsna útsmogin til að fara í kringum lög, hvað sem öðru líður.

Mér finnst það vera býsna alvarlegt mál þegar borgarstjórn, kannske með leyfi og samþykkt menntmrh., víkur í rauninni til hliðar lögboðinni nefnd sem hefur mjög mikilvægum störfum að gegna eins og fræðsluráð vissulega hefur. Þetta fræðsluráð er óneitanlega skipað samkvæmt grunnskólalögum og það er menntmrh. að sjálfsögðu sem á að vernda réttarstöðu fræðsluráðs. Þess vegna ætla ég að leyfa mér að skora á hæstv. menntmrh., sem ég veit reyndar að er sanngjarn maður í eðli sínu, að beita sér bæði í orði og verki gegn því að svona valdníðsla eigi sér stað, valdníðsla sem kemur niður á stjórnunarstofnun sem heyrir undir embætti hans og beinlínis gagnvart embættismanni sem einnig heyrir svo sannarlega undir hans embætti.