19.02.1987
Sameinað þing: 52. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3246 í B-deild Alþingistíðinda. (2938)

307. mál, álit milliþinganefndar um húsnæðismál

Halldór Blöndal:

Herra forseti. Það er auðvitað eðlilegt að umræður um húsnæðisskýrsluna taki nokkurn tíma hér á hinu háa Alþingi. Við munum það öll hvernig ástandið var í húsnæðismálunum þegar þessi ríkisstjórn tók við. Við munum að fyrst á eftir urðu þeir hópar mjög háværir í þjóðfélaginu sem kröfðust þess að unnt yrði að koma til móts við þá húsbyggjendur og húskaupendur sem hefðu sætt lélegri og alls ónógri fyrirgreiðslu úr Byggingarsjóði ríkisins á undanförnum árum. - Ég heyri að þm. Alþb., Skúli Alexandersson hv. þm. Vesturl., var að spyrja um kosningaloforð Sjálfstfl. í sambandi við húsnæðismálin. Ég gerði að gamni mínu að ég fletti upp á því hvað formaður Alþb., Svavar Gestsson þáverandi húsnæðismálaráðherra, hefði sagt í fyrsta skipti sem hann flutti sína stefnuræðu sem var á haustdögum 1980 skv. fundarsköpum. Ég held að ég fari rétt með það að hann setti þar engin stefnumörk fram í húsnæðismálum, enda held ég að það hafi verið eins gott því ég held að hann hefði ekki getað staðið við þau eins og reynslan varð. Hvað sem þessi hv. þm. getur sagt um það hvort við sjálfstæðismenn höfum staðið við okkar stefnumörk eða ekki held ég að hann eigi að fara eins að og formaður hans að rifja ekki mjög upp hvað það var sem vakti fyrir Alþýðubandalagsmönnum í húsnæðismálunum. Ég held að það sé nauðsynlegt að þetta komi fram.

Það er satt að segja spurning hvernig maður eigi að hefja þessar umræður. Ég veit ekki hvort ég á að byrja á því að segja að mér þótti mjög leiðinlegt að ég skyldi ekki hafa séð viðtalsþátt við Jóhönnu Sigurðardóttur, hv. 2. landsk. þm., í sjónvarpsfréttum nú fyrir skömmu. Ég hef haft nokkrar spurnir af því hvað þar fór fram og ég vil segja það að ég er mjög þakklátur sjónvarpinu og sjónvarpsfréttamönnum fyrir það að þeir skuli vilja verja nokkru af tíma sínum til að fjalla um húsnæðismálin, eins viðkvæm og viðurhlutamikil og þau eru gagnvart öllum almenningi. Ég vona það, herra forseti, að þakklæti mitt berist til fréttastjóra sjónvarpsins. Ég er mjög þakklátur honum fyrir það hversu mikið rúm hann gefur húsnæðismálunum. Auðvitað er það af hinu góða. Ég veit að þessi ágæti maður er mjög kunnugur því hvaða áherslur voru lagðar einmitt á fréttaþjónustu sjónvarps þegar útvarpslögin voru samþykkt á sínum tíma því ég minnist þess að hann hafi haft sérstakan sjónvarpsþátt um það hver væri staða útvarpsmálsins á Alþingi í janúar eða febrúarmánuði það ár sem lögin voru samþykkt, 1985, en sá að vísu hvorki ástæðu til að kalla formann þeirrar nefndar sem hafði með málið að gera né varaformann til í þeim útvarpsþætti sem þó bar þessa undarlegu yfirskrift: „Staða útvarpsmálsins á Alþingi.“ En það hefur ugglaust verið vegna þess að hans fréttamat hefur verið að skynsamlegra væri að spyrja aðra um það. Fiskisagan flýgur og stundum fær maður betri fréttir með því að spyrja ekki þá sem mest fjalla um málin heldur einhverja aðra sem utan við standa. En það stendur nú í þessum ágætu útvarpslögum, í 3. gr. tölul. 3, með leyfi hæstv. forseta:

„Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu. Útvarpsstöðvar, er leyfi fá til útvarps, skulu í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Þeim ber að virða tjáningarfrelsi og stuðla að því að fram komi í dagskrá rök fyrir mismunandi skoðunum í umdeildum málum.“

Í sérstökum kafla um Ríkisútvarpið segir, með leyfi hæstv. forseta: „Ríkisútvarpið skal halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og mannréttindi og frelsi til orðs og skoðana. Það skal gæta fyllstu óhlutdrægni í frásögn, túlkun og dagskrárgerð. Ríkisútvarpið skal m.a. veita almenna fréttaþjónustu og vera vettvangur fyrir mismunandi skoðanir á þeim málum sem efst eru á baugi hverju sinni eða almenning varða.“ Svo mörg voru þau orð.

Þegar ég frétti af þessum sjónvarpsþætti spurðist ég fyrir um það á fréttastofu sjónvarps hvað það hefði verið sem hefði valdið því að þessi hv. þm. hefði verið kallaður fyrir, sem ég auðvitað sagði ekkert nema gott um því þessi hv. þm. er kunnur að því að vilja vanda sinn málefnaundirbúning og er dugleg að láta sínar skoðanir í ljós. Þá sagði mér það aðstoðarfréttastjóri að þingmaðurinn hefði haft orð á því að húsnæðiskerfið riðaði til falls. Nú vildi svo til að skömmu síðar eða í sömu vikunni skrifaði ég grein þar sem ég svaraði þessum hv. þm. og mótmælti þessum skoðunum þm. í grein sem heitir: Er Alþfl. á móti almennum úrbótum í húsnæðismálum? Þarna hafa mismunandi skoðanir komið fram. Það er ekki í mínum huga neitt kappsmál hvort fréttastofan út af fyrir sig kalli á alþm. til að svara gagnrýni þingmannsins, en ég álít að þær skoðanir eigi að koma fram eða þau sjónarmið sem lágu til grundvallar þeirri breytingu sem gerð var á húsnæðislögunum. Nú liggur það fyrir að þetta kerfi var byggt upp af aðilum vinnumarkaðarins. Það væri fróðlegt að fá t.d. upplýsingar um það og þá sérstakan þátt um það í fréttapistli sjónvarps hvort þeir menn, t.d. í Alþýðusambandinu, sem mest unnu að því að koma þessu kerfi á fót telji nú aðeins nokkrum mánuðum eftir að það var lögfest að það riði til falls. Skyldi verkalýðshreyfingin vera sammála þessum ummælum hv. þm.? Um þetta væri gott að fá skýr svör, einkanlega þar sem fram kemur að frá þm. Alþfl. andar mjög köldu til þessara aðila, bæði til verkalýðshreyfingar og til aðila vinnumarkaðarins yfir höfuð að tala. Það er auðvitað mjög athyglisvert og mjög fjarri þeim hugsjónum sem lágu til grundvallar stofnunar Alþfl. þegar Alþýðusambandið og Alþfl. var eitt og hið sama og þegar forustumenn Alþfl. kappkostuðu að koma þeim sjónarmiðum á framfæri sem þeir töldu að samstaða væri um innan verkalýðshreyfingarinnar. En ég skal nú, með leyfi hæstv. forseta, vitna hér í ummæli sem einn af þm. Alþfl. viðhafði þegar málið var til umræðu s.l. þriðjudag:

„Ég held að það liggi alveg í augum uppi hvernig gallarnir á þessu frv. eru til komnir. Þeir aðilar sem stóðu að því að semja grundvöll þessa frv. voru þar í hlutverki gæslumanna mjög sértækra hagsmuna annars vegar vinnuveitenda og hins vegar launþega.“ Ég endurtek: - „voru þar í hlutverki gæslumanna mjög sértækra hagsmuna, annars vegar vinnuveitenda og hins vegar launþega“. Þetta er þm. Alþfl. sem talar. Og hann heldur áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Þeir sjá náttúrlega enga brýna ástæðu til þess að gæta neinna altækra hagsmuna þar sem þeirra umboð er miklu afmarkaðra en umboð þm. Það sem aftur á móti átti ekki að koma fyrir og var í raun og veru alveg ónauðsynlegt var að flytja þessa sértæku hagsmunagæslu inn í frv. með þeim hætti sem gert er.“

Þetta er viðhorf Alþfl. í hnotskurn. Þetta er málflutningur Alþfl. í hnotskurn og hann er staðfestur í þeim ummælum varaformanns Alþfl. fyrr á þessu þingi, þegar hann talaði fyrir leiguíbúðunum sínum sem hann kallar kaupleiguíbúðir, að það væri fyrsta skrefið í þá átt að leggja verkamannabústaðakerfið niður.

Og hvað er það sem er svo hættulegt við verkamannabústaðakerfið í augum Alþfl.? Það er það að sveitarstjórnarmönnum og fulltrúum verkalýðshreyfingarinnar er falið að hafa fyrst og fremst umsjón með því hverjir eigi að njóta hinna hagstæðustu lánskjara sem til eru í landinu á hverjum tíma í sambandi við það að eignast eigin íbúð. Þetta er sá alvarlegi og stóri hlutur í þessu máli og þetta er sá nýi Alþfl. sem við horfum framan í. Þetta er sá Alþfl. sem skrifaði svo um Búsetamálið á sínum tíma að hann birti þar á forsíðu grein þar sem talað var um að verðmætamat hinnar nýju kynslóðar á Íslandi væri ekki það að vilja leggja fjármuni í íbúðir sínar, heldur í sumarbústaði eða lystisnekkjur. Það er fyrir þetta fólk sem Alþfl. hefur talað og þegar við höfum þetta í huga er ekki undarlegt þótt það skuli vera sérstakt baráttumál Alþfl. að hin unga æska sem vex upp í þessu landi eigi að fá að búa við þau sérstöku kjör að geta komist inn í nýjar íbúðir teppalagðar út í horn án þess að leggja fram eina einustu krónu. Hugmyndin er sú að 85% eiga að koma úr ríkissjóði, það á að vera með 1% vöxtum. Síðan eiga 15% að koma úr bæjarsjóði og þeir peningar eiga að vera vaxtalausir og afborgunarlausir svo lengi sem viðkomandi sýnist. Þetta er sú mikla gjöf sem Alþfl. ætlar að færa. Það er ósköp eðlilegt að varaformaður Alþfl. geti sagt það og gumað af því í blaðagreinum að þetta sé hagkvæmasti kosturinn fyrir þá sem þess njóta að borga 35 þús. kr. á ári af 1 millj. í vexti og afborganir og geta látið borgarsjóð sitja uppi með 15% af íbúðinni og svo ef viðkomandi sýnist að segjast vilja kaupa íbúðina einhvern tíma síðar á honum að vera það frjálst og þá á að reikna þá húsaleigu sem hann hefur greitt á tímabilinu til eignar, sem eignarhlut í íbúðinni. Og hver á svo að borga vaxtamuninn? (Gripið fram í: Hver gerir það núna?) Ríkissjóður greiðir hann núna en verkamannabústaðakerfið er ekki hin almenna regla. Ef við komum því upp að allir eigi að njóta 1% vaxta, enginn eigi að greiða neitt með beinum greiðslum, enginn megi gera sér grein fyrir því í þjóðfélaginu hver hinn raunverulegi húsnæðiskostnaður er, þá verður að taka peningana með öðrum hætti og það verður ekki gert öðruvísi en með hærri sköttum og með hærra útsvari.

Þá langar mig að spyrja talsmenn Alþfl. Það hafa ekki aðrir menn talað meira um það í þessu þjóðfélagi en Alþfl. að það séu mikil skattsvik hér á kreiki. Þeir hafa haft um það mörg orð. Vilja þeir nú hækka skattana til þess að auka enn bilið á milli þeirra sem rétt telja fram og hinna og gefa þeim þarna einn bitann í viðbót? Er það það sem vakir fyrir þeim? Sannleikurinn er auðvitað sá, eins og ég mun koma betur að síðar í minni ræðu, að boð Alþfl. stendur ekki til þess að það verði almennar úrbætur í húsnæðismálum. Það hefur aldrei komið fram á varir þm. Alþfl., hvorki formanns né varaformanns, að þeir vilji almennar úrbætur í húsnæðismálum öllum til handa, að Íslendingar geti setið við eitt og sama borð í húsnæðismálum. Þeir hafa talað um að þeir hafi sérstök boð fyrir sérstakt fólk af því að þeir ætli að reyna að hrifsa til sín atkvæði auðtrúa sálar. En það mun koma glöggt í ljós eftir því sem þessar umræður lengjast og eftir því sem málin skýrast að þeim mun fækka með hverjum sunnudegi sem upp rennur, sem trúa þeim fagurgala Alþfl. sem ég hef nú í örfáum orðum gert grein fyrir en mun tala betur um síðar.

Það er svo einfalt þetta mál að það er ógjörningur að gefa allri þjóðinni fé úr sjóðum þjóðarinnar nema þjóðin sjálf standi undir þeim gjöfum. Ef menn ætla að gefa öllum í gegnum ríkissjóð, þá eru þeir að velja dýrari kost en hinn að leyfa fólki að spjara sig, láta það reyna á sjálft sig, láta það leggja sig fram, finna þann kraft sem í því býr sem er undirstaða lífshamingju, en ekki hitt að vera alltaf öðrum háðir.

Á árinu 1985 fór fram könnun á því hver væri vilji unga fólksins í landinu. Þá voru komin fram öll þessi fögru boð. Þá var allt þetta glassúr komið á húsnæðisstefnu Alþfl. (JS: Ekki kaupleigan.) Allt glassúrið. Kaupleigan. Það er nú svo með vínarbrauðin, sum eru með súkkulaði og önnur glassúr og eitt og sama tóbakið allt saman. Og hvað var það sem unga fólkið vildi? Það var spurt: Hversu þýðingarmikið telur þú það almennt vera að fjölskyldan eigi sjálf íbúð þá er hún býr í? Til þess að ekkert fari á milli mála vil ég rifja upp að þessi könnun er gerð að tilhlutan Húsnæðisstofnunar og félmrn. og unnin af Félagsvísindastofnun Háskólans. Spurningin var þessi: Hversu þýðingarmikið telur þú það almennt vera að fjölskyldan eigi sjálf íbúð þá er hún býr í? Svör: Mjög þýðingarmikið 73,4%. Fremur þýðingarmikið 19,2%. Veit ekki 1,5%. Ekki þýðingarmikið 3,7%. Alls ekki þýðingarmikið 1,6%. Svarar ekki 0,6%. (GHelg: Hvað eiga margir íbúðirnar sem þeir búa í?) Það væri fróðlegt, frú Guðrún, að fá um það svör hversu margir eiga þær íbúðir sem þeir búa í. Það væri t.d. hægt að biðja hæstv. forseta að hlutast til um það að rennt væri í gegnum skattskrárnar og því flett upp hverjir telja sig eiga sínar íbúðir eða fara í Fasteignamatið. Mér er sagt að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir þekki - hvað heitir hann aftur sem vann hjá Fasteignamatinu? - Stefán Ingólfsson heitir hann. Það er kannske rétt að spyrja Stefán Ingólfsson sem vann hjá Fasteignamatinu. Það er sagt um suma að þeir séu alþm. Sumir eru ráðherrar hæstvirtir. Sumir eru sjómenn. Svo eru sumir menn sem unnu hjá Fasteignamatinu. (Gripið fram í.) Það eru m.ö.o. 92,6% sem telja það mjög þýðingarmikið eða fremur þýðingarmikið að búa í sinni eigin íbúð. (Gripið fram f: Hvað sem það kostar?) Þetta var niðurstaðan um þetta.

Ég heyrði að hv. þm. Kristín Halldórsdóttir spurði: Hvað sem það kostar? Auðvitað vitum við það að húsnæðiskostnaður er mjög misjafn. Við höfum kosið það og það hefur verið skoðun okkar Íslendinga fram að þessu og skoðun verkalýðshreyfingarinnar að einnig þeir sem minna mega sín gætu látið sér detta í hug að eignast sína íbúð. Þannig er verkamannabústaðakerfið upp byggt. Þau lán sem veitt eru til þess kerfis eru nú 85%. Það er ágætt að þetta rifjist upp, það er nógur tíminn. Það er algjörlega rangt, sem vinstrimenn hafa viljað halda fram og þeir sem fjærst standa verkalýðshreyfingunni, að ekkert hafi verið gert fyrir hið „félagslega kerfi“ eins og það er kallað við breytingarnar á húsnæðislögunum nú á s.l. vori, 1986. Það er algjör misskilningur. Lánin til verkamannabústaðanna voru hækkuð úr 80 í 85%, til viðbótar var ákveðið að þau skyldu vera afborgunarlaus í þrjú ár og loks var heimilt að brúa bilið, þessi 15% sem upp á vantar, með sérstakri lánsfyrirgreiðslu í þrjú ár til þess að auðvelda mönnum að eignast þak yfir höfuðið. Þetta var gert.

Ég spurðist fyrir um það fyrir fjórum mánuðum hvert væri almennt verð á íbúðum í verkamannabústöðum sem væru hér til endursölu, en þær íbúðir eiga að sjálfsögðu að falla þeim í skaut sem verst eru settir, einstæðum mæðrum t.a.m., og mér var sagt að það lægi á bilinu 1,8-2 millj. kr. Greiðslubyrði af hverri milljón er 35 þús. kr. á ári. Ef við tökum hærri töluna, 2 millj., þá erum við að tala um að sú lánsfyrirgreiðsla geti numið 300 þús. kr. og ekki þyrfti að borga af lánunum á meðan. Síðan kæmi að sjálfsögðu til þeirra greiðslna. En ég trúi ekki öðru en flestir gætu klofið þetta. Og ég býst við að mjög fáir séu þannig settir að þeir búi í leiguíbúð sem ber minni kostnað en hér er boðið upp á. Ég held því að það sé alveg ljóst að komið var verulega til móts við hina lægst launuðu, þá sem verst eru settir. Það var á hinn bóginn sjónarmið okkar sjálfstæðismanna, og ég hygg að það hafi einnig vakað fyrir verkalýðsleiðtogunum, að reyna að finna almenna lausn fyrir það unga fólk sem er að vaxa upp í landinu.

Það gefur auðvitað auga leið að ef við tökum mikið fé og leggjum það til hliðar til þess að veita sumum 100% úrlausn, borga fyrir suma hverja einustu krónu, þá hlýtur að draga mjög úr þeirri aðstoð sem hægt er að láta öðrum í té. Það var t.a.m. mjög athyglisvert sem kom út úr munni hv. 2. landsk. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, varaformanns Alþfl., þegar þessi ágæti þm. hafði orð á því í sinni ræðu að það væri athugandi hvort ekki ætti að áskilja í sambandi við lán til kaupa á gömlum íbúðum að útborgun yrði ekki nema 50%. Er þetta ekki rétt? (JS: Jú. ) Þetta er rétt sem ég fer með. Þm. hugsar sér m.ö.o. að allur almenningur eigi að fá rétt á því að fá 50% lán til þess að standa við útborgunina, en síðan eigi aðrir að fá 100%. (JS: Þetta er útúrsnúningur.) Þetta er ekki útúrsnúningur, þetta er kaupleigustefna Alþfl. Það hefur verið gerð þannig grein fyrir henni og ég treysti mér til að fletta upp á því að Alþýðuflokksmenn ætla ekki að binda sig við það að byggja, heldur hugsa þeir sér líka að kaupa íbúðir á frjálsum markaði.

Hvað þýðir það ef við förum að setja mikla peninga í það að borga út 100% á frjálsum markaði? Að hið opinbera, ríki og bær, komi og segi: Ég skal leggja 100% á borðið til þess að breyta þessu í leiguíbúð? Ætli hann mundi ekki hækka fasteignamarkaðurinn fyrir allan almenning? (Gripið fram í: Veitir af því?) Og hvað meinar þm. með því þegar hann talar um 50%? Það sem fyrir honum vakir er auðvitað það að hann sér ofsjónum yfir því að það skuli vera hægt að fá allt að 70% í vissum tilvikum þegar menn kaupa gamlar íbúðir. Hann vill taka þetta fé og færa það til annarra til þess að þeir þurfi ekkert á sig að leggja. Svo mega aðrir puða, svo má þyngja greiðslubyrðina hjá öðrum. Það eru ær og kýr Alþfl., hins nýja jafnaðarmannaflokks sem hatast við allar almennar úrbætur, getur ekki hugsað sér að menn sem eru heilbrigðir, hafa sömu möguleika til vinnu, að þeir sitji einnig við sama borð í sambandi við að afla sér húsnæðis.

Ég held ég verði að segja að það fer fyrir mér eins og samþingsmanni mínum úr Norðurl. e. að ég sakna þess að hv. 5. þm. Austurl. skuli vera á bændafundi fyrir austan þar sem ég þurfti að segja við hann nokkur orð. Hann var enn að snúa út úr mjög skýru orðalagi í nál. meiri hl. félmn. í vor. En þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta, og ég verð að biðja afsökunar á því að þingmaður eftir þingmann er að lesa upp þessi sömu orð, en í rökræðunni getur það verið nauðsynlegt.

„Um það er samkomulag í nefndinni að sú milliþinganefnd sem skipuð var til að endurskoða húsnæðislöggjöfina fyrir ári skuli halda áfram störfum eftir að þingi lýkur nú í vor og skila tillögum til ríkisstjórnarinnar nægilega snemma til þess að hægt verði að leggja frv. fram á haustþinginu.

Í þessari milliþinganefnd eiga sæti fulltrúar allra þingflokkanna nema BJ sem kaus að draga fulltrúa sinn úr henni.

Nefndin skilaði bráðabirgðaáliti nú í desember s.l. en störf hennar hafa legið niðri eftir að úrvinnsla þessa frv. hófst að öðru leyti en því að hún átti þrjá fundi með þeirri nefnd sem það samdi.

Frv. þetta er efnislega einskorðað við þá þætti húsnæðismála sem samkomulag aðila vinnumarkaðarins tók til. Öðrum þáttum sem varða húsnæðismálin var meiri hl. nefndarinnar sammála um að vísa til milliþinganefndarinnar. Meðal slíkra atriða eru þær hugmyndir sem fram hafa komið á Alþingi um breytingar á húsnæðislánakerfinu en ekki hefur verið kostur á að fjalla um við meðferð málsins á Alþingi. Í þeim efnum bendir nefndin sérstaklega á eftirfarandi.“ Í þessu er ekkert skuldbindandi nema það eitt að nefndin talar um að leggja fram frv. nú á haustþinginu. Niðurstaðan varð sú, og ég fer áreiðanlega rétt með það, formaður nefndarinnar leiðréttir þá ef mig misminnir um það. Ég held að enginn hafi í nefndinni bókað mótmæli við því að við hefðum þann hátt á að fara yfir þau efnisatriði sem fyrir liggja í frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun, 318. mál, þskj. 560, en þau atriði sem það frv. fjallar um voru send húsnæðisnefnd aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar til umsagnar. Ég held að ég fari rétt með það að engar athugasemdir voru bókaðar við að óeðlilegt væri að hafa þann hátt á að við að þessu sinni létum við það sitja að þær leiðréttingar yrðu gerðar sem aðilar vinnumarkaðarins kæmu sér saman um þó við á hinn bóginn bókuðum nokkur atriði sem við óskuðum að yrðu athuguð nánar síðar, þegar frekari og fyllri reynsla væri komin á hið nýja kerfi. Þetta held ég að liggi alveg ljóst fyrir og þurfi ekki um að deila.

Að í þessum orðum sem ég las upp hafi falist að ég hafi skuldbundið Sjálfstfl. með einum eða öðrum hætti til þess að leggja til hliðar þá áherslu sem er á Byggingarsjóði ríkisins er úr lausu lofti gripið. Það er ekki stafur fyrir því hér. Það er auðvitað algerlega út í hött þegar minnsti þingflokkurinn, þingflokkur Kvennalista hér á Alþingi, heldur því fram að það sé brot, einhvers konar brigð eða svik ef meiri hluti Alþingis fæst ekki til að leggja fram frv. í anda þess flokks sem minnstur er. Þingræðið er einfaldlega þannig að það er meiri hluti atkvæða á Alþingi sem ræður stefnu þingsins. Við féllumst á og komum til móts við sum sjónarmið Kvennalistans í því áliti sem fyrir liggur. En auðvitað kom það ekki til greina að ríkisstjórnin færi að beygja af sinni stefnu, stefnu meiri hluta Alþingis til að þóknast minni hlutanum, það er auðvitað algjört brot á öllu þingræði, það eru svik við kjósendur þessa lands. (GA: Hvenær er Halldór Blöndal orðinn ríkisstjórnin?) Svo einfalt er það. Þess vegna er auðvitað mjög undarlegt þegar stjórnarandstaðan á hverjum tíma fer að gera það að einhverju aðalatriði í sínu máli að það séu svik stjórnarflokkanna að fallast ekki á þau sjónarmið sem stjórnarflokkarnir hafa algjörlega hafnað. (KH: En öll atriðin sem nefndin var sammála um?)

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir gerði mikið mál úr því að biðtími væri orðinn mjög langur eftir lánum. Nú er það svo að verulegar umbætur voru gerðar á húsnæðislánakerfinu. Ætli sakir hafi ekki staðið þannig í ágústmánuði að þeir sem áttu íbúð fyrir gátu vænst þess að fá um 150 þús. kr. til að kaupa gamla íbúð, G-lán? Og ætli G-lán til þeirra sem ekki áttu íbúð fyrir hafi ekki verið öðru hvoru megin við hálfa milljón, 450-500 þús.? Eitthvað á þessu bili, ég man ekki krónutöluna nákvæmlega en það var eitthvað á þessu bili. Nú voru þessi lán hækkuð, annars vegar tífölduð, upp í 1,2 millj., og hins vegar hækkað upp í 1,8 millj. eða eitthvað þvílíkt. Þetta er auðvitað gjörbreyting. Þetta hefur m.a. haft það í för með sér að í staðinn fyrir að áður sótti kannske annar hver maður sem keypti gamla íbúð um lán úr Húsnæðisstofnun, þá sækir nú kannske allur þorri manna. Ætli það megi ekki giska á að svo sé? Ef ég man tölur rétt þá hefur yfirleitt verið sótt um u.þ.b. 2000 G-lán á hverju ári en það má búast við að sú tala tvöfaldist. Við vissum það fyrir, áður en við hækkuðum lánin svo mikið, að það mundi valda röskun í bili á húsnæðismarkaðnum. Auðvitað vissum við það. Við vissum að fasteignaverð mundi liggja niðri um mitt ár. Við vissum að fasteignir mundu ekki hækka í verði á árinu 1986 fyrr en áhrifa hins nýja húsnæðislánakerfis færi að gæta. Þetta vissi hver einasti maður. Þetta vissu fasteignasalarnir, þetta vissu þeir sem voru að kaupa og þetta vissu þeir sem voru að selja.

Það er þess vegna ekkert óeðlilegt við það þótt fasteignaverð hafi eitthvað hækkað fyrst eftir að hið nýja kerfi tók gildi. En eigum við að láta slíkar skammvinnar sveiflur hafa þau áhrif á okkur að við þorum ekki að ráðast á vandann þar sem hann er, einkum þegar okkur er það ljóst sem höfum fylgst með þessum málum að margir þeir sem voru í mestum erfiðleikum, mestum greiðsluerfiðleikum, var fólk sem hafði átt litla íbúð, fjölskyldan hafði stækkað og það þurfti að kaupa aðra stærri, gat ekki losnað við sína fyrri íbúð nema á tiltölulega lágu verði, verðbólgan hélt áfram o.s.frv.? Margt af þessu fólki sem í mestu greiðsluerfiðleikunum lenti var einmitt þannig statt. Þetta vitum við. Þess vegna er það að alveg með sama hætti og það er jákvætt fyrir þann sem kaupir að fasteignaverðið sé sem lægst, þá er það auðvitað kostur fyrir hinn að fá a.m.k. sanngjarnt verð fyrir sínar fasteignir. Ég man ekki betur en ýmsir, a.m.k. úr röðum Alþfl. og úr röðum Alþb., ég man ekki hvort þm. Kvennalistans hafi einhvern tímann haft orð um það að hann hefði áhyggjur af lágu fasteignaverði víða um land, en ég held að ýmsir þm. hafi haft af því þungar áhyggjur að menn gætu ekki fengið sannvirði fyrir sínar íbúðir víða um landið. Þess vegna held ég að það sé ekki allt af hinu illa þótt verð á fasteignum hafi eitthvað hækkað. Það er enn langt undir byggingarkostnaði víðast hvar. Eins og ég sagði þá hlýtur þess að gæta á fasteignamarkaðnum í fyrstu þegar verulegar umbætur eru gerðar.

Þetta er ekki fyrsta skiptið núna sem menn hafa rætt um það með hvaða hætti væri hægt að greiða fyrir því að íbúðir seldust. Menn hafa séð það á undanförnum árum að þenslan hér á Reykjavíkursvæðinu hefur verið óeðlilega mikil einmitt vegna þess að menn hafa seilst til þess að reyna að ráðast í það að kaupa nýjar íbúðir vegna betri lánafyrirgreiðslu, en hins vegar hafa íbúðir legið óseldar jafnvel svo mánuðum skiptir. Ég veit dæmi um að það hefur verið komið á annað ár áður en íbúðir hafa selst vegna þess einmitt að menn réðu ekki við kaupin vegna hinnar lélegu fyrirgreiðslu.

Það voru allir sammála um það í milliþinganefndinni og það voru allir sammála um það hér á Alþingi að við yrðum að hækka lánin fyrir allan almenning til kaupa á gömlum íbúðum. Um þetta var enginn ágreiningur. En inn í allar þessar umræður kom um leið óttinn við það að ef þessi hækkun yrði veruleg þá mundi fasteignaverðið hlaupa upp fyrst í stað. Þetta vissu menn. Síðan jafnar þetta sig.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur þá einföldu lausn, eins og ég skil hennar orð, að hún vill bæta tveim milljörðum kr. eða þrem í húsnæðislánakerfið á þessu ári. Það er eitthvað svoleiðis. Hún vill fá að auka veltuna í húsnæðismálunum. Við vitum hvað það mundi þýða. Það mundi að sjálfsögðu þýða meiri þenslu hér á Reykjavíkursvæðinu en nú er. Það mundi draga fólk í vaxandi mæli til Stór-Reykjavíkursvæðisins utan af landsbyggðinni. Og það er afskaplega hætt við því, ef menn reyna ekki að hafa stjórn á þessum málum, að afleiðingin verði sú sama og við urðum t.d. vitni að á Akureyri á árunum í kringum 1980, að íbúðarbyggingar voru hömlulausar með þeim afleiðingum að einn góðan veðurdag var ekki þörf fyrir fleiri íbúðir. Byggingariðnaðarmennirnir urðu að flytjast brott þannig að þær íbúðir sem þeir yfirgáfu tæmdust og þar hefur ekki verið eðlileg byggingarstarfsemi í mörg ár þótt reynt hafi verið að halda í horfinu varðandi örfáar íbúðir í verkamannabústöðunum. Auðvitað mundi það sama gerast hér á Stór-Reykjavíkursvæðinu ef hömlulaust yrði dælt peningum í húsnæðislánakerfið, ég tala nú ekki um ef sú stefna Alþfl. næði fram að menn gætu bara skrifað elskulegt bréf og sagt: nú vil ég fá teppalagt út í öll horn kaupleiguíbúð, og það eigi að svara öllum þessum beiðnum og umsóknum samstundis. Við vitum að það mundi leiða til mikillar þenslu eins og ég sagði og yfirvinnu. Einn góðan veðurdag yrði ekki þörf fyrir fleiri íbúðir, byggingariðnaðurinn mundi hrynja og það mundi að sjálfsögðu hafa í för með sér hrun á fasteignamarkaðnum. Allt þetta sjáum við fyrir.

Hitt getur vel verið að það sé gaman í ræðu og riti að slá sig til riddara og segja: Það er auðvitað alveg reginhneyksli ef manni dettur í hug að fara að byggja sér íbúð að hann geti ekki vænst lánafyrirgreiðslu fyrr en einu ári eftir að honum dettur það í hug. Hann þarf þó að láta teikna, hann þarf að gera fokhelt, hann þarf að athuga sinn gang. (JS: Er biðtíminn bara eitt ár?) Hann þarf að gera það. Við vitum ekki, hv. þm., hver biðtíminn verður á þessu ári. Biðtíminn varðandi þá sem eru að byggja sína fyrstu íbúð og búið er að svara á síðasta ári hefur verið innan við ár. Mér er sagt í Húsnæðisstofnun að fjöldi þeirra umsókna sem hafi komið inn í janúarmánuði sé þannig að hvorki sé um samning við verktaka að ræða, menn hafi ekki fengið lóð né gert kaupsamning, þannig að það er greinilega í vaxandi mæli farið að ryðja sér til rúms. (JS: Kaupsamningur þarf ekki að liggja fyrir þegar umsókn er lögð fram.) Ég var nú einmitt að segja hv. þm. að kaupsamningur þyrfti ekki að liggja fyrir þegar umsókn væri lögð fram. Menn geta lagt fram umsókn um leið og þeim dettur í hug og fara að velta því fyrir sér hvort þeir vilji kaupa íbúð eða byggja, þá setja þeir inn umsókn, síðan athuga þeir sinn gang. Og ef menn byggja þá er ekkert óeðlilegt við það þó að fyrri hluti lánsins komi kannske einu ári síðar. Menn fá ekki lánið greitt fyrr en gert hefur verið fokhelt. Þessi lánsloforð eru verðtryggð þannig að menn eiga að geta gengið í sína viðskiptabanka og fengið skammtímafyrirgreiðslu ef á þarf að halda. Þannig er nú þetta.

Ég geri mér vel grein fyrir því að við getum sett hér allt á annan endann. Við getum þyngt skattana, við getum slegið lán erlendis og við getum látið her manns í það að lofa og lofa öllum þeim fyrirgreiðslu sem láta sér detta í hug að byggja á þessu ári. En yrði það til góðs? Hefur allur þessi tröppugangur, sem hefur verið í öllum hlutum, verið til góðs í þessu þjóðfélagi okkar? Er ekki miklu betra að við reynum að finna einhvern takt í húsnæðismálunum, reynum að finna almenna lausn sem fólk getur smátt og smátt farið að treysta og getur reitt sig á? Er það ekki kjarni málsins? Auðvitað er það kjarni málsins. Það held ég að menn séu sammála um.

Ég skil vel að þm. Alþfl. séu fúlir. Þeir voru komnir með þessa fínu stefnuskrá. Þeir voru búnir að búa til pappírana og láta litprenta bæklinginn um að það ætti að gefa öllum íbúðir. Menn gætu bara gengið inn, vesgú takk. Það er ósköp eðlilegt að þeir séu fúlir yfir því Alþýðuflokksmenn, að það skuli koma almenn lausn sem fólkinu fellur vel, og að þeir reyni að gera þetta tortryggilegt. Ég skal t.d. taka eitt dæmi:

Hv. þm. talaði um það í ræðu sinni á þriðjudaginn að fjögurra manna fjölskylda, sem hefði 90 þús. kr. mánaðartekjur, hefði viljað flytja úr 60 m2 íbúð í 80 m2 íbúð, en hafi verið synjað um þetta vegna þess að hún hafi ekki haft ráð á að kaupa íbúðina.

Nú vil ég gera þm. tilboð, og ég bið hæstv. forseta afsökunar ef það tilboð sem ég geri er ekki þinglegt, þá slær hann í bjölluna. Nú vil ég gera þessum hv. þm. tilboð: Er hann reiðubúinn að fara ofan í þetta mál með mér, að við fáum umboð þessa fólks, þessara hjóna, til þess að athuga þeirra gögn og við tökum þetta mál upp við húsnæðismálastjórn? Að við leitum eftir umboði við þá einstaklinga sem í hlut eiga? Við fáum fram hvernig umsóknin hefur litið út og við göngum saman til húsnæðismálastjórnar, tveir þm., einn úr stjórn og annar úr stjórnarandstöðu, og förum saman ofan í þetta mál og reynum að leysa málið á grundvelli þeirra reglna sem eru?

Ég geri hv. þm. þetta tilboð. (Gripið fram í: Það er óskað eftir svari.) Það er ekki þinglegt að óska eftir svari þótt hv. 2. landsk. þm. hafi gert það að þráspyrja formann Verkamannasambandsins hér þegar hann talaði síðast. Þá var ekki slegið í bjölluna af þeirri ástæðu að ég held að það hafi annar hæstv. forseti stjórnað þeim fundi nefndarinnar. Ef ég mundi þráspyrja aftur hygg ég að hæstv. forseti mundi gera við það athugasemdir. En þetta tilboð liggur sem sagt fyrir.

Ég vil líka segja vegna fréttar sem ég heyrði um í sjónvarpinu í gær um ung hjón. Mér var sögð sagan svo varðandi þessi ungu hjón að konan hefði 300 þús. kr. árstekjur, maður hennar væri í skóla, þau ættu 700 þús. kr. til þess að leggja á borðið og að stjórn Húsnæðisstofnunar hefði talið að þetta fólk hefði ekki ráð á því að eignast íbúð. Mér er sagt að fréttin hafi verið svona. Það væri auðvitað mjög nauðsynlegt að kafa ofan í þetta mál einnig. En það er bara sá hængur á að ég get ekki gengið í skattframtöl manna, skoðað einkatrúnaðarskjöl þeirra hjá Húsnæðisstofnun og með þeim hætti kynnt mér þessi mál. Þess vegna verð ég að fá umboð þessara aðila sem í hlut eiga til þess að athuga þau. En ég vil segja við þá sjónvarpsfréttamenn, ef þessi frétt er rétt sögð eins og ég sagði hana, ég hlustaði ekki á hana, mér var sagt að frásögnin hefði verið á þessa leið, ég vil segja við sjónvarpsfréttamennina að ef þeir kæmu mér í samband við þessi hjón þá vildi ég gjarnan fá að ræða þetta mál sérstaklega við húsnæðismálastjórn og sjá hvað hér er á ferðinni. Við skulum bara láta sannleikann koma á borðið.

Auðvitað stenst það ekki, það stenst ekki ef upplýsingar liggja réttar fyrir að hjón með 90 þús. kr. mánaðartekjur séu talin vanhæf að kaupa 80 m2 íbúð. Auðvitað ber fréttin sjálf með sér að þarna er misskilningur á ferðinni. Ég veit ekki hvar hann liggur, til þess þarf ég að sjá gögnin, en ég veit að ef þetta hefur gerst þá hafa átt sér stað mistök og ég þori að fullyrða að ef þessi hv. þm. treystir sér til að ganga í þetta mál með mér þá muni það vera auðgert fyrir okkur að leysa þetta mál, leiðrétta þann misskilning sem þarna er uppi.

Herra forseti. Ég fékk bréfmiða um það að ætlunin væri að ljúka fundi um kl. 3. Vill hæstv. forseti að ég taki fyrir nýjan kafla í ræðu minni eða fresti henni?