19.02.1987
Neðri deild: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3261 í B-deild Alþingistíðinda. (2949)

18. mál, kosningar til Alþingis

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Það var mikið mannval sett í að vinna upp kosningalögin og mikil áhersla lögð á að afgreiða þau. Þingmeirihluti var ærinn fyrir þeim breytingum og ekkert til fyrirstöðu að nota þau annað en það að þau brutu stjórnarskrána.

Aftur var hóað saman herdeild til starfa og við erum ekki fyrr búnir að samþykkja hennar brtt. en hún hefur sjálf komist að þeirri niðurstöðu að þær séu svo illskiljanlegar venjulegu fólki að nauðsynlegt sé að semja nýjar og leggja fyrir þingið. (KP: Samþykkti hv. þm, tillögurnar áðan? Af hverju segir hann „við“?) Hv. 3. þm. Vestf. er nú óðum að hressast og er það vel. (KP: Af hverju sagði hann ekki „þeir“?) (Forseti: Hv. 5. þm. Vestf. hefur orðið.) Það er vel, herra forseti.

Nú er það svo að slíkur er vinnuhraðinn að það er með afbrigðum leitað eftir því að koma þessari brtt. í gegnum þingið og ekki skrýtið því að trúlega, ef það biði til mánudags, væru komnar nýjar tillögur til afgreiðslu því að nefndin heldur áfram að hugsa og athuga málið, eins og hér hefur komið fram, og skyldi engan undra þótt þeir þyrftu að viðhalda þeirri venju sinni.

Ég tel að svona vinnubrögð séu fyrir neðan virðingu Alþingis. Ég tel það algerlega fyrir neðan virðingu Alþingis að það sé útbýtt brtt. við þskj. Þær séu afgreiddar og samþykktar, málið tekið fyrir á nýjan leik með afbrigðum og þá flytji sami maður og flutti brtt. hið fyrra skipti nýjar brtt. Það er eins og þeir hafi það sér til skemmtunar að láta Alþingi fella allt á einu bretti sem þeir voru að samþykkja rétt áður.

Ég hygg að þrátt fyrir hina nýju uppsetningu sem hér er fram sett verði það aðeins lítið brot af þjóðinni sem átti sig á því hvaða reglur eru í gildi í næstu alþingiskosningum. Það er til mikils vansa að kosningalög skuli sett upp með jafnflóknum hætti.

Ég vil bæta því við, svo að hv. 3. þm. Vestf. velkist ekki í neinum vafa, að ég studdi ekki seinustu brtt. Ég greiddi ekki atkvæði gegn þeim aftur á móti. Ástæðan fyrir því að ég greiddi ekki atkvæði gegn þeim var einfaldlega sú að það var þrátt fyrir allt virðingarverður vottur hjá flm. að reyna að bæta fyrir þau mistök að þeir höfðu áður lagt til að stjórnarskráin væri brotin og það er ástæðulaust að áfellast menn fyrir það þó að þeir vinni að því að leiðrétta slík mistök. En það er alveg makalaust að standa þannig að verki að hér séu ekki fyrr afgreiddar brtt. en það komi fram nýjar brtt. frá sömu aðilum. Ég hefði nú gjarnan viljað að forseti upplýsti hvort það sé von á enn nýjum brtt. á fundinum úr prentun því að það tekur dálítinn tíma að fara yfir þetta og væri hugsanlegt að einhver annar úr nefndinni væri þá með brtt. í pússi sínu sem væntanlegar væru fyrir deildina áður en atkvæðagreiðslu væri lokið.