19.02.1987
Neðri deild: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3262 í B-deild Alþingistíðinda. (2950)

18. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. kosningalaganefndar (Páll Pétursson):

Herra forseti. Það kann að vera að það sé ástæða til þess að hv. 5. þm. Vestf. hrökkvi við eða skilji ekki það sem er að ske í kringum hann. En eins og ég tók fram áðan er hér einungis um mjög óverulegar brtt. að ræða. Það er einungis verið að leggja til skýrara orðalag, taka af tvímæli sem mönnum sýndist við nákvæma skoðun og ítarlega að gætu verið á einstökum ákvæðum. Það er mikilsvert og eftirsóknarvert fyrir Alþingi að hafa þetta allt saman sem skýrast og nákvæmast þannig að ekki sé hægt að snúa út úr einstökum ákvæðum laganna. Við höfum lagt áherslu á að hafa textann einfaldan og auðskiljanlegan hverjum manni og ég veit að þegar menn eru búnir að venjast honum sjá þeir að hann er ekkert flókinn. En það er okkur líka kappsmál að það gangi ekki út yfir nákvæmnina. Þess vegna eru þessar brtt. fluttar.

Málið er í fyrri deild. Okkur er kappsmál að koma því til meðferðar í Ed. þannig að Ed. gefist líka kostur á að fjalla um þetta mál. Þess vegna flytjum við þessar brtt. með þessum hætti. Við vildum hins vegar reyna að ganga svo vel frá þessu frv. áður en það færi til Ed. sem frekast væri kostur. Önnur aðferð gat verið sú að láta málið fara til Ed. og láta þar gera þær ítrekanir sem hér er lagt til, en það var nú vinnulag sem okkur þótti óskynsamlegra og leggjum þess vegna til að þessu verði breytt hér við 3. umr. eða þessi ákvæði gerð skýrari.

Að endingu vil ég taka fram að ég tel að ekki muni vera von á fleiri brtt. frá nefndarmönnum í Nd. Vera kann að efrideildarmenn óski eftir að breyta einhverju og þá kemur frv. aftur til deildarinnar, en það er ekki von á fleiri brtt. frá okkur.