19.02.1987
Neðri deild: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3264 í B-deild Alþingistíðinda. (2964)

213. mál, fólksflutningar með langferðabifreiðum

Samgönguráðherra (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Þegar ég lagði fram þetta frv. var það gert í þeim tilgangi að leggja niður skatt á sérleyfisbifreiðir, afnema hann með öllu, og í öðru lagi að leggja niður skrifstofu umferðarmáladeildar og taka starfsemina inn í samgrn. Það er ekki meira starf en svo að það er vel hægt að bæta því á ráðuneytið. Jafnframt lagði ég til að það yrði fækkað í skipulagsnefnd fólksflutninga úr sjö í fimm og gert með þeim hætti að fækka um annan fulltrúa Félags sérleyfishafa og hinn Búnaðarfélags Íslands sem ég taldi vera óþarfi að hafa inni vegna þess að Samband ísl. sveitarfélaga á aðild að þessari stjórn sem mér þykir vera alveg nóg. Nefndin hefur breytt þessu á þann veg, ekki á sama veg og áður var heldur að annar fulltrúi sérleyfishafa er tekinn út og Ferðamálaráð er tekið inn. Ég fyrir mitt leyti er mótfallinn þessari breytingu. Við mig var ekkert samráð haft þó ég væri flm. frv. Hins vegar mun ráðuneytisstjórinn hafa mætt á fundi nefndarinnar, en hann sagði mér ekki fyrr en eftir á frá því og ég sagði honum að ég væri á móti þessari breytingu.

Seinni brtt. er í raun og veru alveg samhljóða því sem er í frv. að öðru leyti en því að það er bætt við einni setningu: „Bifreiðar, sem notaðar eru til slíkra ferða, skulu hafa hóp- eða sérleyfisréttindi.“ Það gæti alltaf komið fyrir að það væri nauðsynlegt í einstaka tilfellum að veita einhverja heimild. Þó að það sé að jafnaði ekki held ég að það sé ekki til bóta að setja þetta inn í lög. Að því leyti til þá hefði mér fallið betur við að hafa greinina óbreytta þó ég geri það ekki að neinu sérstöku kappsmáli, en það er hægt að hafa meginmarkmið í huga þó það sé ekki alveg fortakslaust bannað með lögum eins og þetta atriði.