19.02.1987
Neðri deild: 46. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3268 í B-deild Alþingistíðinda. (2971)

119. mál, umferðarlög

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til umferðarlaga. Þetta frv. hefur þegar verið flutt áður á tveim þingum, en hlaut þá ekki afgreiðslu.

Frv. er upphaflega samið af umferðarlaganefnd sem skipuð var fimm mönnum og felur í sér heildarendurskoðun gildandi umferðarlaga sem að stofni til eru frá árinu 1958. Hafði nefndin hliðsjón af breytingum sem gerðar hafa verið á undanförnum árum á umferðarlögum og umferðarreglum annars staðar á Norðurlöndum er byggðust á tillögum samnorrænnar nefndar um umferðarmál og alþjóðlegu samstarfi, m.a. alþjóðasamningi um umferð sem gerður var 1968 og kenndur er við Vínarborg. Auk þess var og höfð hliðsjón af hérlendum aðstæðum og ábendingum og tillögum aðila sem fara með umferðarmál og umferðaröryggi.

Á síðasta Alþingi höfðu allshn. Ed. borist margvíslegar umsagnir allmargra aðila um frv., en við þinglok hafði nefndin eigi lokið yfirferð sinni á frv. og þeim tillögum sem borist höfðu. Varð þá að ráði til að undirbúa frv. fyrir þetta þing að skipa nefnd fjögurra þm. úr allshn. Ed. til að endurskoða það, m.a. með hliðsjón af athugasemdum og umsögnum sem fram höfðu komið. Nefndin fór yfir þessar athugasemdir og frv. ítarlega og gerði tillögur um allnokkrar breytingar í samræmi við þær eftir því sem þeim sýndust tök á.

Frv. felur í sér fjölmargar breytingar og nýmæli borið saman við gildandi lög. Eru helstu breytingar taldar í 55 liðum á bls. 33-35 í frv. og varða þessar breytingar öll svið frv., umferðarreglur, reglur um ökuhraða, ökumenn og ökutækni, fébætur og vátryggingu, viðurlög o.s.frv. Ég mun ekki rekja þær hér en vil geta örfárra atriða.

Ljósatími allan sólarhringinn verður frá 1. sept. til 30. apríl. Notkun ökuljósa eykur til muna öryggið þar sem bifreiðin sést þá betur.

Gildistími fullnaðarskírteinis til aksturs venjulegrar bifreiðar og bifhjóls verði til 70 ára aldurs í stað þess að það er nú gefið út til tíu ára í senn. Aðhaldi gagnvart ökumönnum er hins vegar ætlað að ná með færslu ökuferilsskrár sem gert er ráð fyrir að haldin sé við embætti lögreglustjóranna.

Reglum um bótaábyrgð er breytt nokkuð. Hin ríka ábyrgðarregla er látin ná til allra vélknúinna ökutækja, en þær ná nú einungis til skráningarskyldra ökutækja. Ábyrgðarreglan er víkkuð þannig að alfarið er tekin upp hlutlæg ábyrgð og þá felldur niður sá munur sem verið hefur eftir því hvort er flutt gegn gjaldi eða ekki. Ábyrgðarreglan tekur til tjóns sem hlýst af vélknúnu ökutæki vegna umferðarslyss eða annars umferðaróhapps eða vegna sprengingar eða bruna sem stafar frá eldsneytiskerfi í ökutækinu. Er þar um nokkra takmörkun á hinni sérstöku ábyrgðarreglu að ræða, en núgildandi regla miðar við allt tjón sem hlýst af notkun ökutækis.

Dregið er úr heimild til að fella niður eða lækka bætur vegna líkamstjóns eða missis framfæranda þegar sá sem varð fyrir tjóni eða lést var meðvaldur.

Þá er reglum um bótaábyrgð, þegar um er að ræða líkamstjón eða tjón vegna missis framfæranda vegna áreksturs vélknúinna ökutækja, breytt þannig að ábyrgðin lendir á ökutækinu sem hinn slasaði eða látni var í. Reglur þessar miða allar að því að auka bótarétt þess sem verður fyrir líkamstjóni eða missi framfæranda. Eru þær teknar upp í samræmi við þróun sem orðið hefur erlendis á undanförnum árum, síðast í Danmörku í lok síðasta árs. Samhliða þessu er lagt til að breytt verði reglum um vátryggingaskylduna og að vátryggingafjárhæðir verði hækkaðar verulega.

Frv. það til umferðarlaga sem hér liggur fyrir felur í sér breytingu á umferðarreglum til samræmis við alþjóðlega þróun og á þannig að stuðla að auknu öryggi vegna aukinna samskipta þeirra í milli. Það felur í sér aukna vernd óvarinna vegfarenda. Það felur í sér aukinn bótarétt þeirra sem verða fyrir líkamstjóni eða missi framfæranda. Loks felur frv. í sér hagræðingu á ýmsum sviðum til hagsbóta fyrir borgarann og stjórnsýsluna, svo sem ákvæðin um lengingu á gildistíma ökuskírteina, ákvæðin um flutning ökutækjaskráningar frá lögreglustjórum til bifreiðaeftirlits, ákvæðin um breytta meðferð mála vegna brots á reglum um stöðvun og lagningu ökutækja og ákvæðin um heimild til að flytja brott ökutæki sem með ýmsum hætti brjóta í bága við reglur um stöðvun eða lagningu, valda truflun eða hættu eða skilin hafa verið eftir. Með samþykkt þessa frv. á því ekki einungis að skapast grundvöllur fyrir auknu umferðaröryggi heldur og fyrir bættri stjórnsýslu og hagræðingu.

Umferðarlögin ein sér eru aðeins rammi utan um frekari reglur. Um nokkurt skeið hefur verið unnið að heildarendurskoðun reglugerðar um gerð og búnað ökutækja. Er það allmikið verk og undirbúningur er langt kominn. Verður trúlega heppilegt að ganga frá nýjum reglum um þetta efni í áföngum og er stefnt að því að á næstunni verði settar reglur um blá ljós fyrir lögreglu, sjúkra- og slökkvibíla, um fast ökuljós er logar alltaf við akstur og öryggisbelti í aftursætum fólksbifreiða.

Í Ed. voru gerðar nokkrar breytingar á frv., m.a. um ökuhraðann. Er þar gert ráð fyrir að hámarksökuhraði á malarvegum verði 80 km, á vegum með bundnu slitlagi 90 km, en heimild til að hækka upp í 100 km hraða þar sem sérstakar aðstæður leyfa. Í Ed. voru einnig sett inn í frv. ákvæði um torfærutæki. Reglur um þau eru ekki í núgildandi umferðarlögum, en mjög brýnt að setja ákveðnar reglur um akstur og meðferð þeirra. Þá var einnig samþykkt heimild til að setja á stofn sérstaka rannsóknarnefnd umferðarslysa til að athuga einstök umferðarslys frá því sjónarmiði að reyna að finna orsakir þeirra og gera síðan ráðstafanir sem geti orðið til úrbóta.

Á s.l. sumri stóð ráðuneytið að sérstöku átaki lögreglu og Umferðarráðs er einkum beindist að ökuhraða og ölvunarakstri og í byrjun vetrar var staðið að hliðstæðu átaki er beindist að stefnuljósanotkun og virðingu fyrir rauðu umferðarljósi og stöðvunarskyldu. Þörf er á að auka og skipuleggja slíkt samstarf þessara aðila og jafnframt samstarf við fjölmiðla, einkum útvarp og sjónvarp. Reynslan sýnir að með samræmdu átaki má ná verulegum árangri til bættrar umferðarmenningar og aukins öryggis. Slíkar aðgerðir kosta hins vegar óhjákvæmilega talsverða fjármuni og þarf að tryggja Umferðarráði auknar fjárveitingar í því skyni.

Þá getur lögreglan ekki aukið að ráði þátt sinn án þess að skerða aðra þætti löggæslunnar. Með ákveðinni skipulagningu má þó styrkja þessa löggæslu. Hefur verið unnið að því að undanförnu í kjölfar úttektar sem gerð var á embætti lögreglustjórans í Reykjavík.

Ekki er síður mikilvæg til árangurs á þessu sviði þátttaka annarra aðila en hins opinbera. Því ber að fagna framréttri hendi bifreiðatryggingafélaganna sem héldu ráðstefnu snemma í vetur um öryggismál í umferðinni og tóku síðan ákvörðun um átak á þeirra vegum nú á þessu ári.

Umferðarslysin eru öllum áhyggjuefni. Samkvæmt skýrslu Umferðarráðs, sem byggð er á skráningu lögreglu, létust í umferðarslysum 24 á árinu 1985 og 889 slösuðust, þar af 375 alvarlega. Þetta eru uggvænlegar tölur. Þó er vitað að þessar tölur segja ekki allt. Í mörgum tilvikum fær lögreglan enga vitneskju um slys. Hinn slasaði er fluttur beint á sjúkrahús.

Fleiri tölur eru uggvekjandi. Á árinu 1985 færði lögreglan 2481 mann til blóðrannsóknar vegna meintrar ölvunar við akstur og er þetta nokkuð árviss tala. Af þessum hópi áttu 252 aðild að umferðarslysi og 80 höfðu slasast. Af skráðum umferðarslysum í Reykjavík árið 1985, alls 2597, voru 138 tilvik þar sem grunur var um ölvun við akstur. Rétt er að taka fram að af heildartölunni, 2481, reyndust 399 vera með áfengismagn innan refsimarka.

Til viðbótar þessu vil ég leggja áherslu á að missir ökuleyfis vegna ölvunaraksturs er ákaflega þungbær fyrir marga aðila. Ég hygg að það sé mesta hagsmunamál bifreiðaeigenda að reyna að gera allt sem unnt er til að koma í veg fyrir að menn lendi í slíkri aðstöðu að menn keyri ölvaðir og hljóti síðan réttindamissi af. Ákvæði frv. miða að því að reyna að koma í veg fyrir ölvunaraksturinn. Þau veita m.a. lögregluheimild til að taka öndunarsýni, jafnvel þótt ökumaður sé ekki grunaður um ölvun við akstur. Þá er ekki síður nauðsynlegt að standa þannig að málum að ökumenn verði ekki fyrir meiri óþægindum en þörf er á og þeir ekki látnir gangast undir blóðrannsókn nema full ástæða sé til. Því er nú verið að taka í notkun hjá lögreglunni ný tæki til að taka öndunarsýni þar sem unnt er að greina þá betur frá sem eru með áfengismagn innan refsingarmarka.

Herra forseti. Umferðin er þáttur í daglegu lífi okkar. Við tökum öll þátt í henni. Umferðin er eins og við viljum láta hana vera. Umferðarlög og reglur hjálpa til að móta umferðina, en til þess að árangur náist verðum við að tileinka okkur umferðarreglurnar, góða aksturshætti og umgengni. Frv. þessu er ætlað að stuðla að bættu umferðaröryggi.

Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. allshn.