23.02.1987
Efri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3275 í B-deild Alþingistíðinda. (2978)

209. mál, sjómannadagur

Frsm. sjútvn. (Valdimar Indriðason):

Virðulegi forseti. Sjútvn. Ed. hefur fjallað um frv. um sjómannadag og gerir svofellt nál.:

„Nefndin ræddi frv. á fjórum fundum og fékk til viðtals fulltrúa frá Sjómannasambandi Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssambandi ísl. útvegsmanna og Félagi kaupskipaútgerða. Nefndin fékk einnig frá allshn. til umfjöllunar frv. um frídag sjómanna (3. mál). Bæði frv. voru rædd í sameiningu og gerðar brtt. við stjfrv. sem fylgja á sérstöku þskj. Nefndin mælir með samþykkt frv. með þeim breytingum, en einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til sérstöðu varðandi einstakar greinar eða málsliði.“

Eins og fram kemur í nál. fengum við þarna til umsagnar einnig 3. mál, þ.e. þmfrv. hér í deildinni. Því var á sínum tíma vísað til allshn., en með samþykkt héðan var ákveðið að það færi einnig til afgreiðslu í sjútvn. Þess vegna eru þau afgreidd þarna samtímis.

Ég ætla nú að gera örlitla grein fyrir þeim brtt. sem nefndin leggur til við þetta frv. því að það má segja að þær séu óvenjumargar í ekki lengra frv. en hér er fjallað um.

Þá er það, með leyfi forseta, við 1. gr. 2. málsl. Þar sem sagt er „beri hvítasunnudag upp á fyrsta sunnudag í júní skal sjómannadagur haldinn næsta sunnudag á eftir“ gerum við tillögu um að því verði breytt í næsta sunnudag á undan. Það er gert vegna þess að eftir kannanir víða kom í ljós að aðilar vildu heldur þegar svona bæri upp á færa þetta fram um eina helgi en aftur. Það væri betra að halda upp á daginn þá en færa hann helgi aftur og þá nær 17. júní. Um þetta varð samkomulag.

Við 2. gr. gerum við þá brtt. að ákvæði 1. gr. taki ekki til sjómanna á íslenskum farskipum sem sigla milli Íslands og annarra landa. Þó skal farskipi sem liggur í íslenskri höfn og eigi hefur látið úr höfn fyrr en kl. 12 á hádegi á laugardegi næstum á undan sjómannadegi eigi heimilt að láta úr höfn fyrr en kl. 12 á hádegi næsta mánudag. Þarna var við ákveðið vandamál að etja. Við gerðum okkur ljósa mjög breytta skipan í útgerð kaupskipa, miklu hraðari ferðir hjá þeim og annað slíkt, við breytta háttu t.d. í gámaflutningum og öðru, og eins er hér mikið af leiguskipum á markaðnum og bæði þau og skip íslensku félaganna eru í ákveðinni rútusiglingu ef svo má segja milli landa. Töldum við því ekki fært, þó það væri að vissu leyti sárt í þessum efnum, að mæla með því að þetta gilti frá miðnætti á föstudegi og fram að hádegi á mánudegi eins og gert er ráð fyrir í frv. Þess vegna gerir nefndin tillögu um það millistig að þarna verði miðað við kl. 12 á hádegi á laugardegi en ekki miðnætti á föstudagskvöldi.

Svo er í þessari grein einnig tekið fram í frv. að strandferðaskip, ferjur og sanddæluskip skuli halda höfn þar sem þau eru stödd skv. ákvæðum 1. mgr. Við gerum þá brtt. þarna að við tökum ferjurnar út úr. Ferjur milli lands og eyja eru undanþegnar ákvæðum 1. gr. Það er rétt að skýra þetta aðeins vegna þess að þetta gæti valdið misskilningi. Þetta gæti t.d. átt við skip eins og Herjólf. Það getur átt við Hríseyjarferju o.fl. ef fólk kemst ekki landleiðina til staða. Aftur á móti hefur það verið tíðkað t.d. með Akraborg að hún hefur aldrei hreyft sig á sjómannadag svo að þetta breytir engu þar um. En við vildum halda þessum leiðum opnum. Svo að deildin viti hvað við erum að fara þarna vil ég taka þetta fram.

Eins er það með að strandferðaskip og sanddæluskip skuli halda höfn þar sem þau eru stödd á sjómannadag, sama og er í greininni. Við gerum enga athugasemd við 3. gr., en við 4. gr. kveðum við fastar á gagnvart Hafrannsóknastofnun. Í frv. segir að Hafrannsóknastofnun skuli leitast við að skipuleggja rannsóknaleiðangra þannig að skip geti leitað hafnar eigi síðar en kl. 12 á laugardegi fyrir sjómannadag og láti eigi úr höfn fyrr en kl. 12 næsta mánudagsmorgun. Við breyttum „Hafrannsóknastofnun skal leitast við“ í: Hafrannsóknastofnun skal skipuleggja rannsóknaleiðangra þannig að skip geti leitað hafnar eigi síðar en kl. 12 á laugardegi fyrir sjómannadag og láti ekki úr höfn fyrr en kl. 12 á hádegi næsta mánudag.

Við breytum í öllum greinum þar sem talað er um mánudagsmorgun. Þar breytum við alls staðar í kl. 12 á hádegi næsta mánudag. Það þótti skýrara að taka það fram. Þó að hitt sé kannske ekki umdeilanlegt atriði er það tekið skýrt þarna fram.

Svo er það 5. gr. Þar eru gerðar nokkrar breytingar sem sjálfsagt eru eitthvað skiptar skoðanir um, en nefndin varð sammála um að þetta færi svona frá henni. Eins og ég tók fram áðan hafa einstakir nefndarmenn áskilið sér rétt til að gera breytingar við hinar einstöku greinar frv. En síðustu mgr. 5. gr. frv. breytum við á þann veg að ákvæði 1. mgr. séu frávíkjanleg ef um er að ræða skip sem ætlað er að sigla með afla sinn á erlendan markað, enda sé skipshöfn kunn sú fyrirætlan áður en veiðiferð hefst.

Þarna er breytingin sú að í frv. sjálfu er lagt til að fyrirhuguð sigling sé tilkynnt fjórum vikum áður en slík veiðiferð hefst eða slíkur sölutúr hefst og það skuli nást um það fullt samkomulag milli útgerðarmanns og meiri hluta skipshafnar, nokkurs konar atkvæðagreiðsla. Við teljum hyggilegra að það sé farið þá leiðina að mönnum sé kunnugt um þetta áður en farið er í veiðiferðina.

Svo vil ég einnig vekja athygli á síðasta málsliðnum í þessari grein. Þar er sagt: „Einnig má víkja frá ákvæðum 1. mgr. ef mikilvægir hagsmunir eru í húfi og samkomulag tekst þar um milli útgerðar og skipshafnar.“ Það er einnig breyting á þessu í 5. gr. Til þess að það komi skýrt fram hvað við er átt hérna, þá hafa á einstaka stað komið upp þau frávik í þessu, það má segja að það sé einkum hér í Reykjavík og á Akureyri þar sem margir togarar eru gerðir út og vinnslan algerlega byggð á þeirra hráefni, menn óttast mjög að ef þetta á að taka gildi án nokkurra undantekninga verði verulegir erfiðleikar í vinnslunni og jafnvel að vinnsla falli niður. Við viljum láta leita eftir því að menn nái um þetta samkomulagi sín á milli, en það sé ekki lögskipað. Þetta er sú hugmynd sem á bak við þetta blundar í því áliti sem hérna er.

Aðrar brtt. gerum við ekki og má segja að þær séu allmargar þar sem það eru breytingar við fjórar greinar af þeim sex sem eru í frv.

Ég þarf ekki að orðlengja um þetta. Eins og kemur fram í athugasemdum með lagafrv. er tekið fram að sjómannadag er búið að halda hátíðlegan á Íslandi nú í tæp 50 ár, í fyrsta skipti 6. júní 1938, og hann hefur verið mjög ofarlega í huga allra íbúa þeirra staða a.m.k. sem byggja sitt á sjávarútvegi. Þó að það hafi ekki verið í öllum tilvikum að skip voru í höfn fyrstu árin á þessum degi hefur það fari mjög vaxandi og er komið víða inn í samninga að fiskiskip skuli vera í heimahöfn á sjómannadaginn. Þetta má segja að sé fyrst og fremst hátíðisdagur sjómanna og fjölskyldna þeirra sem eru við fiskveiðar. Það hefur verið túlkunin á þessu í gegnum árin. Þess vegna er það mjög viðeigandi og ég vil taka undir það sem segir í athugasemdum með frv., með leyfi forseta, „nú þegar nær hálf öld er liðin síðan sjómannadagurinn var fyrst haldinn hátíðlegur sýnist hins vegar tímabært að koma fastri skipan á frí sjómanna þann dag. Væri það táknræn kveðja Alþingis og þjóðarinnar allrar til sjómannastéttarinnar á þessum tímamótum.“ Undir þetta vil ég taka og vona að frv. fái að komast í gegn á Alþingi sem nú situr þannig að sjómenn viti stöðu sína í þessum efnum.