23.02.1987
Efri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3282 í B-deild Alþingistíðinda. (2983)

209. mál, sjómannadagur

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Aðeins örfá orð. Hér hafa flestir hv. þm. úr sjútvn. sagt örfá orð um þetta mál.

Ég fagna því vissulega að þetta mál sé að komast í höfn, að lögfesta sjómannadaginn. En ég get ekki orða bundist út af 5. gr. samt sem áður. Ég hefði talið fyrir mína parta að það hefði verið nóg að hafa síðustu mgr. þar, þ.e. einnig má víkja frá ákvæðum 1. mgr. ef mikilvægir hagsmunir eru í húfi og samkomulag tekst á milli útgerðar og skipshafnar. Ég taldi að undir þessa mgr. mundu falla þær siglingar sem nauðsynlega þyrfti að framkvæma í kringum sjómannadaginn og mun því sitja hjá við atkvæðagreiðslu um þessa mgr. því að mér finnst alveg óþarfi að það sé frekar regla en hitt að skip sem fara í siglingu þurfi ekki að taka tillit til sjómannadagsins. En auðvitað verður einhvers staðar að vera smuga til að skipuleggja ef miklir hagsmunir eru í húfi og getur vissulega komið upp á í sjómennsku eins og í öðru atvinnulífi.

Eitt annað atriði vildi ég að hefði verið öðruvísi, en við fórum samningaleiðina í nefndinni og reyndum að taka tillit til sjónarmiða hvers annars. Það var varðandi ferjurnar. Ég vildi að alfarið væru ferjur undanþegnar þessum lögum þar sem fram hefur komið að Akraborgin hefur ávallt verið í höfn á sjómannadaginn. Því þótti mér alveg óþarfi að taka það fram í lögum að svo skyldi vera og treysti þeim mönnum fyllilega til að halda því áfram, en mér fannst það heldur mikil skammsýni, ef það kæmu t.d. ferjur yfir einhverja flóa eða firði í framtíðinni, að það væri í lögum að þær mættu ekki fara á milli staða á sjómannadaginn. En svona er þetta nú. Samkomulagið er á borðinu hjá okkur og það er aðeins undanþága milli lands og eyja.