23.02.1987
Efri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3283 í B-deild Alþingistíðinda. (2985)

18. mál, kosningar til Alþingis

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Frv. til l. um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis liggur hér fyrir á þskj. 650 eftir breytingar sem gerðar hafa verið í hv. Nd. og voru allviðamiklar. Frv. eins og það var lagt fram í haust fól fyrst og fremst í sér ýmsar lagfæringar á ákvæðum kosningalaganna, en ýmsir annmarkar voru á þeim eftir breytingarnar sem gerðar voru vorið 1984. Svipuð frumvörp höfðu legið fyrir Alþingi á undanförnum þingum en eigi hlotið afgreiðslu.

Frv. fjallaði hins vegar ekki um reiknireglur kosningalaganna ef frá er tekin breyting á 112. gr. laganna sem kosningalaganefnd Nd. lagði til á síðasta þingi. Töf á afgreiðslu frv. á fyrri þingum stafaði hins vegar af því að leitað var samstarfs um breytingar á þessum reglum vegna gagnrýni sem komið hafði fram á þeim. Lagði kosningalaganefnd Nd. fram ítarlegar breytingar á frv. að þessu leyti er miða að því að sníða nokkra vankanta af gildandi ákvæðum og hafa þær nú verið felldar inn í frv. eins og það liggur hér fyrir.

Eftir sem áður er byggt á því kerfi sem markað var með breytingu á kosningalögunum 1984. Er því áfram byggt á reglu stærstu leifar, sem svo er nefnd, við úthlutun þingsæta. Ekki þykir ástæða til að rekja þær breytingar í þessari framsögu. Fyrir þeim var gerð grein í nál. kosningalaganefndar Nd. á þskj. 621 og er vísað til þess, svo og til framsögu formanns nefndarinnar við 2. og 3. umr. í hv. Nd.

Við meðferð frv. í Nd. voru einnig gerðar nokkrar aðrar breytingar. Varða þær fyrirkomulag utankjörfundaratkvæðagreiðslu, þannig að hún geti staðið lengur yfir, svo og það hvernig staðið verði að vali á listabókstöfum stjórnmálasamtaka. Verður úrlausn þess færð frá yfirkjörstjórnum til dómsmrn.

Þá er þess loks að geta að með frv. er gert ráð fyrir að almennur kjördagur verði framvegis annar laugardagur í maí. Hins vegar er í ákvæði til bráðabirgða lagt til að kjördagur við kosningar í vor verði laugardagurinn 25. apríl.

Ég hef hér gert nokkra grein fyrir efni frv. þessa til breytinga á lögum um kosningar til Alþingis sem hér er til meðferðar. Frv. þetta hefur verið lengi til meðferðar í hv. Nd. og efni þess mun hafa verið kynnt öllum þm. í þingflokkunum þannig að þeir eru því orðnir kunnir. Ætti meðferð þess í þessari þingdeild því að geta gengið tiltölulega fljótt fyrir sig, en nauðsynlegt er að frv. hljóti afgreiðslu á næstu dögum þar sem með því eru lagðar línur um ýmis framkvæmdaratriði við undirbúning kosninga í vor, þar á meðal ákvörðun um kjördag.

Ég tel rétt að geta þess að þar sem kjördagur í vor er fyrirhugaður stuttu eftir páska koma margir helgidagar inn á þann tíma sem ætlaður er til meðferðar kjörskrárkæra. Þannig er að kærufrestur mun að óbreyttu renna út föstudaginn 10. apríl og frestur til sveitarstjórna til að ljúka meðferð fram kominna aðfinnsla rennur út á föstudaginn langa, 17. apríl. Augljóst er að skírdagur og föstudagurinn langi eru ekki heppilegir til þessara verka. Til að tryggja að sveitarfélögin lendi ekki í tímaþröng væri trúlega heppilegt að flytja þessi tímamörk fram um nokkra sólarhringa og er því beint til þeirrar þingnefndar sem um málið mun fjalla að taka það til athugunar.

Hæstv. forseti. Ég legg til að kosin verði sérstök kosningalaganefnd til að fjalla um efni þessa frv. og vænti þess að hægt sé að kjósa hana nú þegar svo að slík kosning þurfi ekki að tefja framgang málsins. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frv. vísað til 2. umr. og þeirrar nefndar.