28.10.1986
Sameinað þing: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

81. mál, skipan í héraðslæknisembætti á Vestfjörðum

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Ragnhildur Helgadóttir):

Herra forseti. Hv. 3. þm. Vestf. spyr: Hvaða sjónarmið lagði ráðherra til grundvallar er hún skipaði í stöðu héraðslæknis Vestfjarða nýlega? Og svarið er: Það sjónarmið að farið skuli að lögum. Skv. 6. gr. laga nr. 59/1983, um heilbrigðisþjónustu, skipar ráðherra einn af starfandi heilsugæslulæknum héraðsins sem héraðslækni til fjögurra ára í senn, í Reykjavík borgarlækni. Það er því öldungis ljóst að ekki verður samkvæmt þessu skipaður héraðslæknir læknir sem ljóst er og ákveðið að verði ekki í héraðinu næstu fjögur árin.

Þegar kom til skipunar í þetta embætti á liðnu sumri voru eingöngu þrír læknar með skipun í heilsugæslulæknisstöður á Vestfjörðum, en frá því er lögum var breytt í núverandi horf varðandi læknishéruðin 1978 hefur þeirri reglu ávallt verið fylgt að skipa eingöngu í embætti héraðslækna þá sem hefðu skipun sem heilsugæslulæknar. Þegar fyrrv. héraðslæknir Vestfjarða var skipaður á sínum tíma var hann eini heilsugæslulæknirinn í héraðinu sem skipun hafði. En úr hópi þessara þriggja lækna skipaði ég í sumar þann lækni sem lengstan hafði starfstímann og lengstan skipunartímann sem heilsugæslulæknir á Vestfjörðum og þar með varð héraðslæknir fyrsta konan sem því embætti gegnir eftir skipan hinna nýju laga.

Önnur spurning hv. fyrirspyrjanda er: Hvers vegna var fyrrv. héraðslæknir ekki skipaður í stöðuna á ný? Og svarið er hið sama og við fyrri spurningunni: Vegna þess að fara þarf að lögum. Þegar afstaða var tekin til skipunar héraðslæknis Vestfjarða hafði fyrrv. héraðslæknir skv. eigin umsókn verið skipaður heilsugæslulæknir á Akureyri frá og með 1. okt. s.l. Hafði honum skv. því verið veitt lausn frá störfum heilsugæslulæknis í Bolungarvík frá og með sama tíma. Það er því ljóst að ekki var unnt, þegar þrír skipaðir heilsugæslulæknar voru í héraðinu, að skipa sem héraðslækni í héraðinu mann sem var heilsugæslulæknir á Akureyri.

Með vísun til þess sem að framan greinir kom það auðvitað ekki til greina með neinu móti að hann yrði héraðslæknir þó að síðar hefði verið ákveðið að hann yrði settur sem heilsugæslulæknir í Bolungarvík til vors. Þar með gat ekki orðið í samræmi við lögin að hann yrði skipaður héraðslæknir í næstu fjögur ár. En hann fékk leyfi frá Akureyri frá því er hann hefði þurft að fara þangað og var það út af fyrir sig fagnaðarefni að hann skyldi fást til þess að gegna heilsugæslulæknisstarfinu í Bolungarvík til vors, en hann hafði verið vinsæll og ágætur læknir því héraði. Ef hann hefði setið áfram í Vestfjarðahéraði hefði hann að sjálfsögðu verið endurskipaður eins og gert var með alla aðra héraðslækna nú í sumar, en lagalegar forsendur skorti fyrir því eins og hér hefur komið fram.

Að því er varðar hin tilvitnuðu atriði úr grg. sem hv. fyrirspyrjandi las áðan vil ég gera athugasemd við þrjú atriði sem hv. fyrirspyrjandi las. Í fyrsta lagi var það að hann færi úr héraðinu gegn eigin vilja: Þær upplýsingar sem ég hef eru að þegar menn sækja um embætti og þar á meðal á móti öðrum mönnum og þeim er veitt það embætti, þá er það ekki gegn þeirra eigin vilja heldur í samræmi við eigin vilja. Annað er a.m.k. alveg nýtt viðhorf.

Enn fremur að enginn hefði sótt um stöðuna: Það lá einmitt fyrir umsókn frá ungum sérmenntuðum heimilislækni sem er að ljúka sérmenntun sinni í Svíþjóð en er ekki tilbúinn til að taka við stöðunni fyrr en á sumri komanda. Þangað til er fyrrv. héraðslæknir skipaður heilsugæslulæknir á Bolungarvík. Umsókn unga læknisins var um heilsugæslulæknisstarf á Bolungarvík. Þetta vildi ég að fram kæmi og við þetta má svo bæta að fyrrv. héraðslæknir bauðst til þess að vera áfram héraðslæknir, sem að vísu var ekki hægt undir neinum kringumstæðum af lagalegum ástæðum, og auk þess bauðst hann til þess hinn 11. ágúst, er þegar hafði verið gengið frá því við núverandi héraðslækni að hún tæki við stöðunni.